Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
16.10.2012 | 17:53
Um stjónarskrármálið
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að breyta mætti stjórnarfyrirkomulaginu á Íslandi. Sú skoðun mín nær líklega ríflega 30 ár aftur í tímann. Sérstaklega hefur hlutverk forseta og samkrullið milli ríkisstjórnar og Alþingis verið að velkjast fyrir mér. Einnig hlutverk þjóðkirkjunnar og jafnvel dómsstóla. Sem sagt engin smá mál. Ég get því ekki annað en fagnað því að stjórnarskráin skuli nú vera til endurskoðunnar. Það er alls ekki þannig að núverandi stjórnarskrá sé sú besta hugsanlega. Sú vinna sem lögð hefur verið í nýja stórnarskrá er því að mínu mati þörf.
Að þessu sögðu þá verð ég samt að bæta við að mér þykir ekki allt nógu gott hvorki varðandi ferlið við þessar breytingar, né plaggið sem út er komið frá stjórnlagaþinginu. Þetta er allt í áttina en betur má ef duga skal. Hér á eftir ætla ég að leitast við að útskýra afstöðu mína.
Stjórnarskráin er fyrir þjóðina, ekki stjórnvöld
Það er ekki sjálfsagt að til sé stjórnarskrá. Stjórnarskrár eru fremur nýlegt fyrirbrigði í mannkynssögunni og tengjast lýðræðisþróun á vesturlöndum. Stjórnarskrá er sáttmáli um fyrirkomulag ríkisvalds og réttindi og áhrif þjóðar á það ríkisvald. Stjórnarskrá á að tryggja mannréttindi en jafnframt skilvirkt ríkisvald. Stjórnarskrá myndar ramma um og er æðri lögum sem sett eru af ríkisvaldinu. Stjórnarskrá á að tryggja valdajafnvægi og stöðugleika og verja grunngildi mannlegrar tilveru og stjórnskipunar.
Stjórnarskrá er eðli sínu samkvæmt skjal sem ekki er átt við að hentugleika. Sérstaklega ekki af hentugleika ríkisvaldsins. Það skýrir m.a. tregðu við að breyta þeim. Stjórnarskrár sumra ríkja leyfa alls ekki að þeim sé breytt. Þær eru svo að segja meitlaðar í stein. Þannig gegna þær varnarhlutverki sínu best, enda væri lítil vörn í þeim ef ríkisstjórn gæti breytt þeim að hentugleika. Hins vegar er hætt við að þær úreldist með tímanum þegar ekki má hrófla neitt við þeim.
Breytingar á stjórnarskrám
Eitt þing á ekki að geta breytt stjórnarskrá. Í raun ætti að mínu mati að þurfa kosningar og aukinn meirihluta til að breyta stjórnarskrá. Þjóðin þarfnast þeirrar verndar gagnvart ríkisvaldinu sem í breytingartregðunni felst.
Núverandi stjórnarskrá felur Alþingi að samþykkja nýja stjórnarskrá á tveimur þingum með kosningum á milli. Nýja stjórnarskrárfrumvarpið (gr. 113) leggur til að eitt Alþingi geti lagt fram breytingar og tekið upp nýja stjórnarskrá ef 5/6 hlutar þingmanna samþykkja. Annars nægir einfaldur meirihluti á Alþingi auk eftirfarandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel þetta allt of veikt og stórhættulegt fyrir lýðræðið í landinu. Þetta eina ákvæði (þ.e.a.s. að 5/6 hlutar Alþingis geti breytt stjórnarskrá að vild án aðkomu þjóðarinnar) er nægjanlegt til þess að ég get ekki samþykkt þessi stjórnarskrárdrög. Ég tel einnig að ekki sé skynsamlegt að láta misvel framkvæmdar þjóðaratkvæðagreiðslur ráða niðurstöðu. Það er allt of auðvelt fyrir stjórnvöld (góð eða slæm) að stýra niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um svo flókið málefni. Allt sem virðist þurfa er að velja spurningar sem líklegt er að flestir séu jákvæðir gagnvart og leggja þær fyrir án efnislegrar fyrirtöku á allri stjórnarskránni. Þar með er stjórnarskráin búin að tapa öllu gildi sínu sem varnartæki réttinda þjóðarinnar.
Tímasetning
Varðandi ferlið þá þykir mér gott að blásið var til þjóðfundar og unnið þar úr tillögum. Helst hefði ég viljað láta sérfræðingahóp vinna úr tillögum þjóðfundarins og leggja þær fyrir Alþingi, en það skiptir ekki megin máli. Stjórnlagaráðið var að mínu mati skipað ágætu fólki upp til hópa og að mörgu leyti betra úrvali en er á Alþingi. Skjalið sem Stjórnlagaráðið skilaði frá sér verður hins vegar að fá umfjöllun á Alþingi og þaðan verða lokatillögurnar að koma. Þannig er það samkvæmt núverandi stjórnarskrá og við eigum og verðum að bera virðingu fyrir henni. Annars er leikurinn til einskis.
Mér þykir tímasetningin ekki góð. Það kann ekki góðri lukku að stýra að ráðast í jafn viðkvæma og mikilvæga vinnu þegar allir eru í uppnámi. Réttari tímapunktur fyrir þjóðfundinn hefði að mínu mati í fyrsta lagi verið núna, en helst þyrfti að vera búið að afgreiða stóru málin eftir hrunið. Á móti þessari röksemd minni koma reyndar þau rök að erfitt er að breyta stjórnarskrá róttækt nema eftir stór áföll þjóðar. Flestar stjórnarskrár eru búnar til eftir byltingu, stríðslok eða einhver átök eða áföll. Þessi áföll kalla á viðbrögð og það kann að lita stjórnarskrána að einhverju leyti, jafnvel þannig að búið er til ójafnvægi í hana til mótvægis við það ójafnvægi sem olli áfallinu. Einnig kann að vera að einstakir hagsmunahópar nýti sér upplausn og óróa í samfélaginu til að koma inn í stjórnarskrána hlutum sem ekki eiga þar heima ef hlutleysis er gætt.
Rétt væri að flýta sér hægt við endurskoðun stjórnarskrárinnar og láta töluverðan tíma líða milli umferða í formlegri umræðu. Okkur liggur ekki lífið á að skipta um stjórnarskrá, en við skulum halda áfram með þessa vinnu og klára hana af yfirvegun.
Ofureinfölduð þjóðaratkvæðagreiðsla 20. október
Með því að leggja fram þessar 6 völdu spurningar þann 20. október er verið að feta hættulega braut. Búið er að einfalda flókið plagg með vel yfir 100 greinum niður í 6 spurningar og þær spurningar sem lúta að einstökum greinum eru einfaldaðar til mikilla muna. Þannig er t.d. einungis spurt um fyrstu setninguna í gr34. um auðlindir.
Þessi aðferðarfræði er stórkostlega gölluð og til þess fallin að blekkja almenning til að skoða ekki málið í heild. Að mínu mati eru margar aðrar greinar í drögunum sem þurfa breytinga við og eru stórhættulegar fyrir þjóðina að samþykkja óbreyttar. Ég óttast að flestir munu láta það fara fram hjá sér. Af þessum sökum þarf að fara fram vinna við allt plaggið með gagnrýnum augum og leitast við að ná fram betri texta hér og þar. Sú vinna á heima á Alþingi eins og ráð er fyrir gert í núverandi stjórnarskrá.
Má til dæmis búast við að stjórnvöld breyti stjórnarskrá og leggi hana svo til samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem einungis verður spurt um: Viltu samþykkja nýju (góðu) stjórnarskrána eða halda þeirri gömlu (vondu)? Hér hef ég sett mest gildishlöðnu orðin í sviga þótt orðin nýja" og gamla" séu reyndar líka gildishlaðin. Gildishlöðnu orðin geta stjórnvöld samt notað í áróðri sínum. Þessi spurning er leiðandi og ekki unnt að sjá að mikið lýðræði felist í þessari afgreiðslu á einu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar. Þvert á móti virðist með þessu móti auðvelt að stela" stjórnarskránni af þjóðinni. Því miður virðist spurning 1 í þjóðaratkvæðagreiðslunni vera af þessum meiði.
Þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október - Kjóstu!
Víkjum nú að komandi þjóðaratkvæði þann 20. október næstkomandi um 6 spurningar sem tengjast þessari stjórnarskrá. Þótt ég hefði viljað sjá mun fleiri spurningar, jafnvel allar greinar stjórnarskrárinnar bornar undir almenning og þá væntanlega kafla fyrir kafla því þetta er langt mál, þá hvet ég alla til að mæta og kjósa eftir að hafa kynnt sér málið vel.
Spurning 1: Viltu að tillögur stjórlagaráðs verði lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá.
Svar: Það er ljóst að mikil og góð vinna hefur verið unnin við gerð þessara tillagna. Á þeim er hins vegar nokkrir algerlega óásættanlegir gallar (auk annarra minni sem fallað er um neðar). Ég trúi því að hver sá sem af alvöru vinnur við endurskoðun stjórnarskrárinnar muni skoða og taka tillit til þeirra hugmynda sem fram koma í plagginu jafnvel þótt neikvætt svar verði veitt við þessari spurningu. Það liggur fyrir að einhver endurskoðunarvinna mun fara fram á Alþingi. Þar sem Alþingi hefur hins vegar lítið sem ekkert fjallað um þessi mál nú þegar og ekkert útlit er fyrir að þar muni fara fram einhver alvöru umræða um þessar tillögur þá óttast ég að jákvætt svar myndi valda því að þetta færi lítið breytt í gegnum þingið nánast án umræðu í skjóli núverandi meirihluta. Það væri stórslys. Svar mitt er því: Nei.
Spurning 2: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeign lýstar þjóðareign?
Svar: Ég er nokkuð tvístígandi yfir þessari spurningu. Ég hef samúð gagnvart mörgu sem hér er verið að fjalla um. Hver vill ekki verja náttúruauðlindir? Hver vill afsala sér réttindum í hendur á einhverjum fáum eða útvöldum? Hér er einungis verið að fjalla um fyrstu stuttu setninguna í 34gr. um náttúruauðlindir sem er annars ansi löng. Getur verið að með þessu ákvæði sé ríkisvaldið að eigna sér hluti sem eru í raun allra (einstaklinga þjóðar eða utan þjóðar)? Þarf ekki einmitt að vernda þjóðina fyrir ríkisvaldinu með stjórnarskránni? Ef ríkisvaldið ætlar að taka að sér að vera þessi þjóðareigandi, þá kann svo að vera að þetta ákvæði taki í raun ansi mikil réttindi frá þjóðinni. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Stjórnvöld eru ekki alltaf "góð", jafnvel þótt hér sé gert ráð fyrir að þetta sé gert undir merkjum sjálfbærrar þróunar og almannahagsmuna sem ég hef fulla samúð með. Punkturinn er að ég er sammála að ekki má úthluta eign eða varanlegri nýtingu á, selja eða veðsetja þessar auðlindir, ekki heldur til ríkisins (sem fulltrúa þjóðarinnar). Sú ráðstöfun kann að hafa ófyrirséðar afleiðingar. Svar mitt er því: Nei.
Aukaathugasemd: Ég vil verjast ásælni ríkisvaldsins og styrkja stöðu borgaranna bæði í nútíð og framtíð (náttúruauðlindir eru m.a. fyrir borgara framtíðarinna). Ég viðurkenni rétt ríkisins til að setja lög og reglur um auðlindir og nýtingu þeirra með þetta í huga. Eins og nú er. Réttur ríkisins til að setja lög um t.d. kvóta, auðlindagjald o.fl. er t.d. þegar fyrir hendi og sjálfsagt að beita þeim rétti. Ég treysti því að ríkisvaldið geri það innan þess ramma sem því er sett og með sjálfbæra þróun og almannahagsmuni í huga.
Spurning 3: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
Svar: Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að kirkjan eigi að vera utan við ríkisvaldið. Trúarbrögð og ríkisvald fara ekki saman að mínu mati. Ég er samt einnig þeirrar skoðunar að einsleitni þjóðfélaga varðandi trúarbrögð stuðli að meiri sátt og samlyndi. Það er einmitt vegna þessara áhrifa sem ríki hafa gegnum tíðina tekið upp eina trú: til að brjóta ekki friðinn og skapa einsleita heimssýn. En heimurinn er breyttur. Í stað þess sem áður var að almúginn fékk upplýsingar um samhengi hlutanna frá einhverjum predikara sem hamraði á einni heimsmynd í samræmi við sína trú (alveg sama hversu órökrétt og vitlaus hún var), þá fær fólk núna menntun, fréttir og upplýsingar frá ýmsum áttum sem saman móta heimssýn okkar. Og þótt samhengi hlutanna sé skýrt á mismunandi máta af ýmsum aðilum þá eru meiri lýkur á því að sannleikurinn komist í gegnum að lokum heldur en nokkurn tíman gegnum eitthvað sem kalla má trúarbrögð. Og það er sannleikurinn sem á að tryggja friðinn og samheldnina, en ekki blekkingin. Ég tel því rétt að hafa ekkert um kirkjuna í stjórnarskránni. Svar mitt er því: Nei.
Spurning 4: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningu til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?
Svar: Með persónukjöri er auðveldara fyrir hinn almenna kjósanda að hafa áhrif á það hverjir hljóta kosningu. Persónukjör er ekki gallalaus aðferð. Með henni er þeim hyglað sem njóta meiri frægðar eða fjármuna á kostnað annarra. Með henni er einnig athyglinni beint frá málefnum og að einstaklingum. Og frambjóðendur kunna að hneigjast til þess að kaupa atkvæðin á einhvern máta. Persónukjör er því talið ýta undir lýðskrum og spillingu. Á móti kemur að prófkjör sem stunduð eru víða nú þegar hafa að hluta til sömu galla. Með því að blanda saman listakjöri og persónukjöri á hæfilegan máta ætti að vera hægt að komast nálægt hinum gullna meðalvegi. Spurningin sem lögð er fyrir okkur fjallar einungis um það hvort heimila ætti persónukjör í meira mæli en nú. Það tel ég óhætt. Svar mitt er því: Já!
Spurning 5: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?
Svar: Ég er sammála nýju tillögunum um þetta. Svar mitt er því: Já!
Spurning 6: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra mann geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Svar: Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki töfralausn lýðræðisins. Reynslan hefur sínt að þær eru í eðli sínu íhaldssamar (gegn breytingum). Einnig er erfitt að nota þær til að fjalla um flókin málefni eða taka afstöð til margra atriða á sama tíma (eins og t.d. 114 greina stjórnarskrárinnar). Hins vegar tel ég að það að stór hópur almennings geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu þegar mikið liggur við sé mikilvægur og nauðsynlegur öryggisventill gagnvart ríkisvaldinu. IceSave málið sannar það. Svar mitt er því: Já!
Niðurstaða mín er: Nei - Nei - Nei - Já - Já - Já
Aðrar spurningar sem ég vil velta upp
Af gefnu tilefni vil ég taka fram að ég tel mig hafa rétt til að skipta um skoðun, breyta, bæta við eða fjarlægja atriði á þessum lista og almennt eftir því sem ég verð upplýstari um málin
Ég vil einnig taka fram og ýtreka að ég er um margt mjög sáttur við framkomnar tillögur stjórlagaráðs. Hins vegar er ég einnig þeirrar skoðunar að nokkur atriði séu þess valdandi að núverandi tillögur geta og mega ekki standa óbreyttar. Þar vísa ég sérstaklega í ákvæði 39gr. og 113gr., en einnig 4gr., 37gr og 43gr. Enn fleiri ákvæði eru meingölluð.
--- oOo ---
Hér fylgir listi yfir nokkur atriði sem útaf standa að mínu mati:
3gr. Nýtt ákvæði um að landsvæðið sé eitt og óskipt. Hvers vegna er landsvæðið eitt og óskipt? Hvað þýðir það? Hvað með sendiráð á erlendri grund? Í skýringum með þessu ákvæði er það eiga við að ríkið sé eitt, þ.e.a.s. að ekki megi skipta því upp í fleiri ríki. Það mætti tala um það en þá má orða það skýrar en gert er eða sleppa því alveg.
Geta fleiri en eitt ríki verið á sama landsvæði á sama tíma? Ef já, þá má tala um að við samþykkjum ekki önnur ríki á okkar landsvæði (sem þarf væntanlega að skilgreina hvert er). Þetta kemur þá m.a. inn á valdaframsal ríkisvalds sem fjallað er um í síðustu greinum stjórnarskrárdraganna. Ef nei, þá er þetta óþarfi.
Geta mörg landsvæði heyrt undir sama eina ríki? Við vitum að svarið er já og því getum við ekki talað um eitt" landsvæði. Réttara væri þá að tala um eitt ríkisvald fremur en eitt landsvæði.
Ef til er vel skilgreint landsvæði (eitt samhangandi eða í bútum) þá má ímynda sér að því sé skipt upp í t.d. tvö landsvæði hvort með sinni ríkisstjórn. En hvort landsvæðið fyrir sig væri eitt og óskipt í hvoru ríki fyrir sig eftir sem áður. Ákvæðið er því merkingarleysa gagnvart þessu.
4gr. Í þessa grein vantar ákvæði um hverir "allir" séu sem vísað er til víða síðar í skjalinu og að því er virðist með mismunandi merkingu í huga. Einnig aðgreining á hugtökunum borgari" og ríkisborgari" og "ríkisfang". Hér eru tvær víddir í spilinu:
- hvort menn hafa íslenskt ríkisfang eða erlent
- hvort menn hafa búsetu á landinu eður ei
Í mínum huga eru "borgarar" í skilningi stjórnarskrárinnar: þeir sem hafa íslenskt ríkisfang hvar sem þeir eru, þeir sem eru íslenskir borgarar búsettir á Íslandi hvert sem ríkisfang þeirra er. M.ö.o.:
"Borgari" Íslendingur Erlendur
Býr á Íslandi x x
Býr erlendis x o
Gera verður greinarmun á öllum og borgurum í stjórnarskránni. Þetta verður að vera skýrt því ansi víða er talað um "alla" sem að öllu jöfnu merkir einnig erlenda aðila sem búa erlendis. Ef erlendur ríkisborgari kemur í sendiráð Íslands erlendis, er hann þá varinn af stjórnarskránni (sbr. 3gr.)? Á hann t.d. rétt til almannatrygginga sbr. 22gr?
6gr. Um jafnræði: bæði nýja greinin og sú gamla talar um jafnræði án mismununar m.a. vegna kynferðis. Svo er bætt við og sagt að "konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna". Það er er sjálfsagt mál, sérstaklega þar sem þegar er búið að segja þetta þegar vísað var í kynferði. Þetta er óþarfa tvítekning.
7gr. "Allir hafa meðfæddan rétt til lífs". Réttur til lífs kemur samkvæmt þessu með fæðingu. Mér þykir skoðandi að sleppa hér orðinu "meðfæddan". En það opnar hins vegar á bann við fóstureyðingum sem er alls ekki tilgangur minn. Óbreytt ákvæðið opnar á móti á að fóstureyðingar séu leyfðar allt fram að fæðingu en það þykir mér heldur ekki rétt. E.t.v. mætti orða þetta þannig að allir þeir sem verið hafa fleiri en X mánuði í meðgöngu eiga óskoraðan rétt til lífs. Það flokkast hins vegar sjálfsagt sem óþarfa útúrsnúningur hjá mér að nefna það að í fornmáli þá voru þeir sem teknir voru með keisaraskurði nefndir "ófæddir", en því ætti þessi réttur til lífs ekki við um þá.
10gr. Um mannhelgi. Hér er um gott ákvæði að ræða. Ég vil hins vegar bæta við þetta ákvæði um helgi gegn ógnunum eða hótunum gegn mannhelgi einstaklings, fjölskyldu hans, heimili eða eignum. Hér er mér sérstaklega hugsað til hótanna af hendi glæpamanna. Óöryggi sem af slíku hlýst er algjörlega ólíðandi en fólki finnst það standa varnarlaust gegn þessu í mörgum tilfellum. Því verður að breyta. Ógnanir af þessu tagi er mun alvarlegri en heimilisofbeldi af þeirri einföldu ástæðu að útbreiðsla þessara ytri ógnana getur orðið mun meiri og jafnvel ógnað friði og stjórnskipan.
13gr. Um eignarétt. Ég vil halda inni eldra ákvæði (í 72gr) um að "Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi". Ég get ekki séð að þetta stangist á við jafnræðisreglu enda nær hún ekki yfir erlenda aðila. Íslenskir ríkisborgarar njóta réttinda umfram erlenda ríkisborgara hjá íslenska ríkinu og á yfirráðasvæði þess.
15gr. Um upplýsingarétt. Hér stendur " Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.". Þetta stangast á við núverandi lög um persónuvernd sem setja ansi miklar takmarkanir á rétt til að safna og miðla upplýsingum. Í skýringum er talað um að álit ráðsins sé að þetta eigi ekki við öll gögn. Það verður þá að koma fram í stjórnarskránni í þessari grein, enda á hún að standa ein og sér en ekki að þurfa að lesast með skýringum.
20gr. Um félagafrelsi. Hér er búið að fjarlægja leyfi ríkis til að banna tímabundið félög sem stofnuð eru ólöglegum tilgangi. Gamla stjórnarskráin leyfði slíkt ef með fylgdi dómsmál til að slíta félaginu. Þetta ákvæði þarf að vera áfram inni til þess m.a. að styrkja stöðu almennings og ríkis gagnvart skipulögðum glæpum og samtökum í á þeim vettvangi.
22gr. Um félagsleg réttindi. Hér er talað um alla". Í skýringum er talað um borgara. Á þessu tvennu er mikill munur sbr. athugasemd við 4gr. Fara þarf yfir allar greinar með þetta í huga að nota rétt hugtök þar sem vísað er í "alla", þ.e.a.s. nota orðið borgari eða ríkisborgari þar sem það á við. Ekki gengur að nota orðið allir með mismunandi merkingu hér og þar.
34gr. Um náttúruauðlindirnar sbr. spurningu 2. Vandamálið sem ég hef með þessa grein er það að í henni er eigninni úthlutað til þjóðarinnar sem er óskilgreint hugtak en væntanlega merkir það í raun ríkisstjórnarinnar. Ath. Einnig að hugtakið "þjóð" er ekki vel skilgreint. Sagan sýnir að það hugtak getur tekið stökkbreytingum í stuttum tíma þegar stórpolitískir atburðir eiga sér stað.
37gr. Um hlutverk Alþingis: Alþingi er hér falið fjárstjórnarvald ríkisins. Samkvæmt mínum skilningi er það hlutverk fjármálaráðuneytisins og ekki á hendi Alþingis. Alþingi setur hins vegar lagalegan ramma enda með löggjafarvaldið og verður að samþykkja fjárlög og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra. Mér þykri þetta búa til óvissu um hvort fjármálaráðherra eða Alþingi stjórnar fjármálum ríkisins. Það er óhæfa.
39gr. Um Alþingiskosningar. Hér eru stórstígar framfarir á ferðinni, með jöfnun atkvæðaréttar og áherslu á persónukjör. Hins vegar er þetta svolítið snúið í framsetningu og má eflaust laga til. Einnig á hér alls ekki heima að setja skuli í lög hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi. Það er fráleitt að setja í lög í lýðræðisríki hvernig menn eiga að haga atkvæði sínu eða hlutföllum milli einhverra aðila sama hverjir þessir aðilar eru!
43gr. Um gildi kosninga. Hér er ekki nógu skýrt hvernig tryggt er að Alþingiskosningar séu úrskurðaðar löglegar. Er það í höndum landskjörstjórnar sem skipuð er af nýkosnu Alþingi, eða landskjörstjórnar sem kosin var af fráfarandi Alþingi. Þetta verður að vera skýrt og eiga við landskjörstjórn sem kosin er af fráfarandi Alþingi, annað er algjörlega ótækt.
112gr. Skyldur samkvæmt alþjóðlegum samningum. Af hverju þarf að fjalla um að þessi sérstaka lagasetning Alþingis sé framar öðrum lögum? Mér þykir það óþarfi. Þessi alþjóðlaga lagasetning Alþingis ætti að vera jöfn öðrum lögum Alþingis.
113gr. Um breytingar á stjórnarskrá: eins og þegar hefur verið nefnt þá er lagt til að eitt Alþingi geti lagt fram breytingar og tekið upp nýja stjórnarskrá ef 5/6 hlutar þingmanna samþykkja. Annars nægir einfaldur meirihluti auk þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ákvæði um 5/6 hluta Alþingis algjörlega óásættanlegt fyrir þjóðina. Og núverandi framkvæmd á þjóðaratkvæðagreiðslunni þar sem leynt og ljóst er reynt að láta sem málið snúist einungis um 6 spurningar sýnir og sannar að þjóðaratkvæðagreiðsla sem sett er upp og stýrt af þeim sem ráða Alþingi hverju sinni er stórhættulegt aðferðarfræði. Mun eðlilegra er að láta rýni og samþykki stjórnarskrárinnar fara gegnum tvö Alþingi með kosningum á milli.Næstu skref
Vonandi verður haldið áfram með gerð nýrrar stjórnarskrár. Ef tekið verður á þeim atriðum sem ég tel útaf standa í núverandi drögum og þessi atriði öll fá almennilega umfjöllun í meðferð Alþingis þá er ég bjartsýnn á að mjög góð stjórnarskrá kemur út úr þessu. Sérstaklega legg ég áherslu á að ákvæði 39gr. og 113gr., en einnig 4gr., 37gr og 43gr. verði lagfærð.
Ég vona að sem flestir skoði þessi mál af alvöru og eyði helst heilum degi a.m.k. í að fara yfir stjórnarskrárdrögin. Þau eru ekki eitthvað sem hægt er að afgreiða yfir kaffibolla á 5 mínútum. Ég vil hvetja fólk til að mynda umræðuhópa og fara yfir þetta saman grein fyrir grein. Fólk myndi sín eigin lítlu stjórnlagaþing með sínum vinum og fjölskyldu og komi athugasemdum sínum á framfæri við alþingismenn sem taki athugasemdirnar til umfjöllunar.
Stjórnarskráin er e.t.v. eitt stærsta og merkilegasta málefni sem almenningur mun hafa tækifæri til að koma að á sinni ævi. Það er nauðsynlegt að þessar breytingar fái góða og mikla umfjöllun. Þetta er einstakt tækifæri og heimurinn fylgist með. Nýtum það vel.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.10.2012 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2012 | 09:18
Enn einn sigurinn fyrir evruna!
3.5.2012 | 19:08
Gerir Evrópusambandið ráð fyrir ótakmarkaðri stjórnsýslu?
Með ótakmarkaðar fjárheimildir?
Hvar í víðri veröld er slíkt fyrirkomulag?
Er t.d. Luxemburg með það?
Telur stjórnsýslu Íslands of litla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.2.2012 | 18:17
Rangtúlkanir á dóminum
Ég er búinn að lesa dóminn (600/2011) og sé að fyrstu fréttir af honum eru beinlínis rangar.
A)
Dómurinn staðfestir með 7 atkvæðum af 7 að LEYFILEGT er að reikna vexti miðað við Seðlabankavexti frá upphafi lánstíma og vísar þar í fyrri dóm hæstaréttar 471/2010. Í kafla III er vitnað í eftirfarandi:
Með þessu var fallist á með varnaraðila að skuld sóknaraðila samkvæmt skuldabréfi nr. 712986 skyldi bera allt frá upphafi vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.
B1)
4/7 segja hins vegar að kvittun fyrir greiðslu sé fullnaðarstaðfesting og að EKKI MEGI reikna vexti aftur fyrir þá greiðslu.
B2)
3/7 segja að þrátt fyrir kvittun MEGI reikna vextina aftur ef greiðsla hefur farið fram.
B þýðir að einungis verður að fella niður endurútreikning fyrir þann hluta lánstíma meðan staðið var í skilum.
A er stóra málið. Það féll lántakendum í óhag. Öll verðhækkun frá því fólk hætti að borga af erlendu lánunum og fram að dómihæstaréttar í sept 2010 (eða lögunum í des 2010) er eftir sem áður á lánþegum.
Verður að leysast hratt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.2.2012 | 11:53
6 eða 200 milljarðar?
Úr skýrslu Hagfræðistofnunar frá því í Janúar 2012 (miðað við gögn í lok okt. 2011):
"Samkvæmt upplýsingum Samtaka fjármálafyrirtækja var eftirgjöf á íbúðalánum samkvæmt 110% leið um 36 milljarðar kr. í lok október 2011. Þar af námu niðurfærslur fjármálafyrirtækja 31,3 milljörðum kr. og niðurfærslur Íbúðalánasjóðs 4,6 milljörðum kr. Í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði frá janúar 2011 er rætt um að veðskuldir umfram 110% af verðmæti fasteignar séu færðar niður að 110% af verðmæti eigna. Niðurfærsla vegna sértækrar skuldaaðlögunar er 6 milljarðar kr. Samtals eru þetta 41 milljarður kr. Við þetta bætist umreikningur á gengislánum vegna hæstaréttardóma, en niðurfærslur á íbúðalánum af þeim sökum nema 101 milljarði kr. Samtals má því ætla að í lok október 2011 hafi fjármálafyrirtæki, íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir verið búnir að færa niður íbúðalán um 144 milljarða kr."
Í fréttinni (gögn í árslok 2011) er því haldið fram að niðurfærsla vegna sértækrar skuldaaðlögunar sé 200 milljarðar en skýrslan segir 6 milljarðar. Svo talar skýrslan um 101 milljarð vegna ólöglegra gengislána. Ekki er vitað til að 194 milljarða niðurfærsla hafi átt sér stað á síðastu tveimur mánuðum ársins.
Hvað er nú satt og hvað logið?
Niðurfærsla lána 196 milljarðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.2.2012 | 10:16
Fækkar sambandslýðveldum Þýskalands?
Þýskaland er sambandslýðveldi 16 landa. Öll nema 4 eru rekin með halla og nokkur þeirra standa svo illa að rætt er um að sameina þau öðrum löndum. Þar er sérstaklega rætt um Bremen og Saarland. Einnig er rætt um Schlesvík-Holstein (til Hamborgar) og Brandbenburg (til Berlínar).
Til þess að þetta gangi eftir þarf að afskrifa einhverjar skuldir viðkomandi landa og Sambandslýðveldið þarf að taka yfir aðrar skuldir.
Sjá nánar hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.1.2012 | 10:25
Uppgreiðsluleiðin
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2012 | 00:53
Leiðrétting á skuldabyrði
Jæja., ég get ekki lengur orða bundist.
Enn á ný er farið af stað í þeim tilgangi að 'sanna' með aðstoð sérfræðinga að ekkert sé hægt að gera fyrir heimilin. Og kostnaðurinn mundi allur lenda á ríkinu. Ekki viljum við það. Málið dautt.
Eða hvað?
Er hægt að hugsa sér lausn sem ekki lendir á ríkinu? Jafnvel lausn sem skilar aukinni veltu í þjóðfélaginu og eykur því hagvöxt, atvinnu og tekjur ríkisins?
Já það er hægt.
Hér er sú lausn (sjá viðhengi). Skráin er 10 MB.
Ég kalla hana Uppgreiðsluleiðina. E.t.v.ætti frekar að kalla hana Endurfjármögnunarleiðina.
Hún er í samræmi við núverandi reglur og lög. Einnig í samræmi við samninginn við AGS. Hægt er að útfæra hana á mismunandi máta og sú tillaga sem hér er sett fram er einungis ein útfærsla. Hún tekur fyrst og fremst á þeim umfram kúf sem hrunið olli í skuldum heimilanna (gagnast minna þeim sem voru illa settir fyrir hrun). Hún felur ekki í sér óbærilegar byrðar á lífeyrissjóðakerfið eða ríkissjóð. Hún felur í sér aðkomu Seðlabanka en enga nettó peningaprentun. Byrðarnar eru færðar á bankana en á mót kemur að bankarnir eru með afleiðingar byrða heimilanna hvort eð er og þeir geta brugðist við (velt auknum kostnaði út í verðlag á sinni vöru). Bankarnir eiga enga kröfu á ríkið ef þessi leið er farin.
P.S.
Ath. dagsetningarnar á skjalinu. Þessi hugmynd var kynnt ráðamönnum árið 2009 og aftur 2010. Segi e.t.v. þá sögu seinna. Í stuttu máli: það var ekki áhugi á að taka á málinu. Eins og einn aðili sagði orðrétt: "Mitt hlutverk er ekki að finna lausnir heldur að reikna ákveðin dæmi".
Æfingar ríkisstjórnarinnar virðast einungis ganga út á það að sanna að ekkert sé unnt að gera.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.10.2011 | 07:00
Snillingur fallinn frá
Steve Jobs látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.10.2011 | 22:37
Fjósarímur
Fréttir undanfarinna ára um innheimtumenn og handrukkara sem ganga hart fram gagnvart skuldunautum urðu mér tilefni til að hafa upp á Fjósarímum Þórðar frá Strjúgi.
Fjósarímur Þórðar Magnússonar á Strjúgi í Langadal í Húnavatnssýslu sem uppi var á síðari hluta sextándu aldar fjalla um aðfarir skuldheimtumanns og skuldara sem takast á í flórnum.
Hér eru Fjósarímur:
1. Hlýt eg enn, ef hlýtt er sögn,
hljóða mýkja strenginn,
gleðja fólk, en gleyma þögn,
glepji fyrir mér enginn.
2. Kvikna verður kvæða grein
af kveiking sónar vessa,
gaman, en ekki græska nein,
gengur mér til þessa.
3. Skemta nokkru skyldugt er
skötnum dökkva grímu;
út af litlu efni hér
eg vil smíða rímu.
4. Mín orð hvorki menn né frúr
mislíka sér láti,
nú skal ljóða nausti úr
Norðra hrinda báti.
5. Efnið máls eg fundið fæ
fyrst í ljóða ranni,
halur einn kom heim á bæ
að heimta skuld af manni.
6. Gerði sá að geyma naut,
sem gjaldið lúka átti,
þegn i fjósi þorna gant
þenna hitta mátti.
7. Skjótt þar hitta skjalda yggr
skuldamann sinn náði
þar í kúastofunni styggr
stórorður hinn bráði.
8. Þessi ekki boðanna beið
og bistur hljóp að þegni
og skeldi í við skjalda meið
skjótt af öllu megni.
9. Randagrér af reiði skók
rekk af miklum þjósti,
maðurinn honum á móti tók
þá móðurinn óx fyrir brjósti.
10. Hinn er undir höggum sat
hugmóð kendi sannan,
hnefana reiddi hátt sem gat,
hvorugur sparði annan.
11. Fornt þá sannað fengu mál,
sem fólsku höfðu reista:
ærið verður ofsabál
út af litium neista.
12. Af því efni aukast má
arnarleirinn ljósi,
höldar gengu hólminn á
hraðir tveir í fjósi.
13. Hvor gaf öðrum hörð og stor
höggin þeygi góðu,
háll varð undir fótum flór
fyrðar saurinn óðu.
14. Mestu rimmu mátti sjá,
menn sig gerðu herða,
stafkarl hrumur stóð þar hjá
staðlaus tók að verða.
15. Gengu að sem glímdu tolf,
gegndi þetta furðu,
vott og óhreint var þá gólf,
virðar saurugir urðu.
16. Þá var meira fors en fríðr
fjósinu í um stundir,
skjóðu hrepti vopna viðr
varð hann síðan undir.
17. Heimamaðurinn hælkrók á
hinn nýkomna lagði,
vaskur datt og varla sá
við þvi hrekkja bragði.
18. Forn orðskviður fram kom þá,
flestir hygg eg sanni:
fellur opt til foldar sá,
sem fangið býður manni.
19. Aflið dró úr eldra hal,
olli þessu mæði,
komst á fætur kálfs í sal
kempan hin með bræði.
20. Gerði hann að rekknum rás
og reyndi manninn keika,
eptir þetta upp í bás
ýtar færðu leika.
21. Næsta var til nauða stefnt
niður með orku fleygði
seggurinn hal, og sín gat hefnt,
saman á kuðung beygði.
22. Kynja sterkur kappinn varð,
karlmenskunnar neytti,
hárið alt og hökunnar barð
hann af rekknum reitti.
23. Krankur stóð hjá karlinn þar
og kom fram engum vilja,
orkulaus til einskis var
ýta þá að skilja.
24. Skalf á beinum skepnan veik
og skjótlega þetta firnar,
að þegnar áttu þungan leik
þar fyrir aptan kýrnar.
25. Sjúki maðurinn sendi pilt
síðan heim til kvenna,
bað þær koma brátt, ef stilt
bardaga fengi þenna.
26. Sveinninn fór og sætur fann,
er sátu tvær í ranni
boðskap þenna birti hann
beint með fullum sanni.
27. Hringþöll eldri hljóp á stað,
en hin sat eptir kvinna,
þar kom undir hlunkur í hlað,
hljómur er opt af minna.
28. Fóta neytti fälda bil,
frá var bauga selja,
dunur heyrði og dynki til,
dúðist Rindar elja.
29. Hlaupa gerði svo til sanns
syanninn göngugreiði
hún var eins og hugur manns
harla fljót á skeiði.
30 Var sem fyki í vindi hyr,
og valurinn flygi um grundir,
þegar hann hefur sem bestan byr
báðum vængjum undir.
31. Var sem skotið örinni af
armbristinu væri
eða sem flaustur út um haf
undan vindi bæri.
32. Brúðurin hitti baulu hús
og bas í nauta ranni,
þar lá heiptar þykkju fús
þegninn ofan á manni.
33. Bað hann sér að bjarga sprund
og bót á nauðum vinna,
ofan af honum auðarlund
öflug tók þá kvinna.
34. Fengið hafði maðurinn merkr
munninn blán úr býtum,
og svo þrútnar allar kverkr
og afreitt skegg með lýtum.
35. Þundar veðri þannig lauk,
þegnar sættust eigi,
bjargið Týrs í burtu strauk
björtum seint á degi.
36. Kálfa mæðra höllin há
hafði færst úr lagi,
brotnir allir bjálkar þá,
bar það til í slagi.
37. Hef eg aldrei heyrt það sagt,
hólmgöngurnar snarpar
fyrir sig hafi í fjósi lágt
forðum hreystigarpar.
38. Íslendingar áttu fyr
opt í vopna göllum,
vildu aldrei virðar styr
vekja í nauta höllum.
39. Grettir höggin greiddi stór
og görpum lét á ríða,
aldrei hann í kúanna kór
kom til þess að stríða.
40. Gunnar háði geira þey
glaður á Hlíðarenda,
fyrða sló í fjósi ei
fleygir gullsins brenda.
41. Skarphéðinn, eg skýri frá,
skeinu veitti mengi,
en í fjósi aldrei sá
efldi stríð við drengi.
42. Vopna þing á velli tamt
var Sölmundar arfa,
Kári aldrei kveikti samt
kíf í ranni tarfa.
43. Björn með hreysti bragna vann
Breiðvíkingakappi,
flaugst ei á við fyrða hann
flórs í neinu slappi.
44. Þórður hreða þegna vo,
þessi bjó á Ósi,
breytti aldrei bóndinn svo,
að berðist inn í fjósi.
45. Vaskur mjög til víga fús
var Miðfjarðar-Skeggi,
flasaði aldrei flórs í hús
að fljúgast á við seggi.
46. Stórólfsson var sterkur mann,
hann steypti köppum víða,
Ormur gekk í uxa rann
ei til þess að stríða.
47. Skáld vandræða sköptin braut,
skýrar vísur orti;
Hallfreðr öngvan hjörva gaut
hrakti í kvígu porti.
48. Víglundur hinn væni kendr
vandist rómu kaldri,
slyngur til að slæma rendr
slóst í fjósi aldri.
49. Kjartan spilla kunni hlíf,
karlmanns hafði sinni,
þegninn aldrei þreytti kíf
þar sem naut voru inni.
50. Ófeigsson gaf úlfum steik
Oddur neytti stála,
háði aldrei hildar leik
hann í nauta skála.
51. Steindór tamur vopnin við
var á Eyri lengi,
þó lét hann í fjósi frið
fyrir sér eiga drengi.
52. Egill Skallagrímsson gaf
görpum höggin stóru,
tók í fjósi engan af
og ei þar veitti klóru.