Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
7.6.2013 | 10:42
Leiðsögn um Ísland
Ég útskrifaðist vorið 2012 sem leiðsögumaður. Áhugi stendur til að stunda gönguleiðsögn með smærri hópa, helst í lengri ferðum en ég veit fátt skemmtilegra en að ganga um landið og þá er ekki verra að hafa af því tekjur samhliða skemmtuninni. Einnig stendur til að aka um landið með smærri hópa í eigin bíl eða lánuðum eftir því sem til fellur.
Ég hef einnig komið upp vefsíðu sem ætlað er að auðvelda ferðamönnum að finna leiðsögumann við hæfi, en ferðaskrifstofur geta einnig notað vefinn. Vefurinn er á þýsku og ensku og slóðin er www.reiseleiter.is.
5.3.2013 | 11:37
Munur á verðtryggingu og Verðtryggingunni
Umræðan um verðtrygginguna verður aldrei markviss nema greinarmunur sé gerður á verðtryggingu sem hugtaki og Verðtryggingunni eins og hún er útfærð á Íslandi. Hið fyrra er skynsamlegt meðan hið síðara er glæpsamlegt og byggir á þeirri hugsanaskekkju að vísitala neysluverðs sé rétt viðmið fyrir verðtryggingu á skuldum landsmanna.
Staðreyndin er að vísitala neysluverðs er í besta falli sæmilega góð nálgun á verðbólgu þegar verðbólga er jöfn og lítil og innkaupavenjur stöðugar. Vísitala neysluverðs ýkir hina raunverulegu verðbólgu en það er skekkja sem er byggð inn í aðferðarfræðina. Segja má að vísitala neysluverðs mæli EFRI fræðilegu mörk verðbólgu á einhverju tímabili meðan raunverðbólgan kann að vera mun lægri.
Síðast en ekki síst þá byggir núverandi fyrirkomulag Verðtryggingarinnar á kerfi með jákvæðri svörun (víxlverkun hækkunar verðlags og vísitölu eða 'positive feedback'), en slík kerfi 'springa' alltaf að lokum eins og allir vita sem hafa heyrt útvarpsmenn tala í síma við einhvern sem hefur samtímis kveikt á útvarpinu sínu til að hlusta á samtalið. Það fyrsta sem útvarpsmennirnir segja við viðmælandann yfirleitt er: 'slökktu á útvarpinu'. Við verðum að slökkva á Verðtryggingunni sem miðar við neysluvísitölu áður en hún springur en það mun hún óhjákvæmilega gera nema gripið verði inn í. Það er óumflýjanleg stærðfræðileg staðreynd. Áður en það gerist mun hún hins vegar ná að valda verulegum skaða með óréttmætri eignartilfærslu í þjóðfélaginu.
Verkefni þeirra sem telja verðtryggingu (sem hugtak) skynsamlegt í mörgum tilfellum (ég þar á meðal) ætti að vera að finna rétta og sanna útfærslu á verðtryggingunni. Kerfi sem er stöðugt en ekki óstöðugt eins og núverandi útfærsla er.
Jón Steinar: Lýðskrum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.1.2013 | 12:04
Um IceSave
Um IceSave
Sigurinn í IceSave deilunni fór fram úr björtustu vonum. Hann er algjör. ESB og ESA látin borga málskostnað Íslendinga. Þetta eru auðvitað fagnaðarefni fyrir alla þjóðina. Einnig fyrir skattborgara í öðrum löndum, líka Bretlandi og Hollandi. En þetta er einnig tilefni til að staldra við og skoða málið í ljósi þeirrar atburðarrásar sem fór í gang við hrun íslensku bankanna. Um hvað snérist IceSave málið í raun og hvað olli þeim hatrömu deilum á Íslandi sem urðu til þess að haldnar vor tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, þær fyrstu í sögu landsins?
Um hvað snérist málið?
Í fyrst lagi snérist þetta ekki um það hvort Bretar og Hollendingar fengu borgaðar þær innistæður sem voru á reikningunum. Fyrir lá mat á eignum þrotabús Landsbankans þegar við gerð fyrsta samningsins (Svavarssamningsins) þar sem gert var ráð fyrir að eignir dygðu fyrir a.m.k. 80% heildar skuldarinnar.
Þetta er fyrst og fremst deila um hver borgar, en ekki hvort borgað sé. Spurt er hvort íslenska ríkið (þ.e.a.s. skattborgarar Íslands) eigi að borga skuldir einkabanka eða hvort þrotabú hans eigi að gera það.
Í öðru lagi er þetta spurning um hvort borga eigi upphæð sem nemur lágmarksinnistæðu-tryggingu eða allar innistæðurnar til fulls.
Í þriðja lagi er þetta spurning um hvort borga eigi vexti af upphæðinni eður ei og þá hve lengi.
Í fjórða lagi var spurt um hvenær á að borga.
Afstaða deiluaðila
Afstaðan var þannig í þessum málum:
Hver borgar:
Ísland segir: þrotabúið borgar, ekki íslenska ríkið.
Bretar, Hollendingar, ESB og fleiri segja: íslenska ríkið borgar.
Hve mikið á að borga:
Ísland segir: innistæðueigendur fá allan forgang umfram aðra kröfuhafa bankans. Upprunalegt mat var að þetta myndi duga fyrir um 80-90% af allri upphæðinni, en lágmarkstryggingin var um 50% af heildinni. Nýjustu tölur sega að þetta dugi fyrir um 112% af allri upphæðinni, þ.e.a.s. 12% verða afgangs upp í kröfur sem teljast ekki til forgangskrafna.
Bretar, Hollendingar, ESB og fleiri segja: borgið lágmarkið strax (50%). Þrotabúið borgar svo eins mikið og hægt er af þeim peningi sem verður afgangs og til skiptis milli innistæðueiganda og annarra kröfuhafa.
Hvað um vexti:
Ísland segir: borgum vexti fyrir 6 mánuði en ekki meir.
Bretar, Hollendingar, ESB og fleiri segja: borgið vexti þar til allt hefur verið greitt.
Hvenær á að borga:
Ísland segir:uppgjör þrotabúsins verður að hafa sinn gang og borgað verður úr því eins hratt og auðið er
Bretar, Hollendingar, ESB og fleiri segja: borgið strax án tillits til efnahagshrunsins á Íslandi, enda Bretar og Hollendingar búnir að leggja út fyrir þessu.
Niðurstaða
Hver borgar?
Þrotabúið borgar, ekki íslenska ríkið
Hve mikið er borgað?
100% innistæðna verða borguð og afgangur notaður til að borga upp í almennar kröfur. Forgangur innistæðueiganda tryggir að þeir fá allt sitt til baka.
Hvað um vexti?
Þrotabúið borgar vexti fyrir 6 mánuði.
Hvenær berast greiðslurnar?
Þegar hafa um 45% af heildinni verið borgaðar, þ.e.a.s. um 90% af lágmarks-tryggingunni. Meira er á leiðinni og það breytist ekki þrátt fyrir dóminn.
Hagur Íslands liggur fyrst og fremst í því að skattborgarar losna við ríkisábyrgð og vaxtagreiðslur af lánum til ríkissjóða Bretlands og Hollands sem annars hefðu komið til vegna krafna um greiðslur strax auk vaxta af láni sem hefði þurft að taka til að geta greitt strax. Sá aukakostnaður hefði getað numið allt að 20% af landsframleiðslu Íslendinga.
Atbuðarrásin
Í kjölfar aðgerða Íslendinga aðra vikuna inn í október 2008 til að taka yfir Íslandsbanka og Landsbankann beittu Bretar hryðjuverkalögum á Ísland til að taka yfir útibú Landsbanka í Bretlandi en einnig dótturfyrirtæki Kaupþings þar í landi, þ.e.a.s. bankann Singer & Friedlander.
Ísland var sett á lista með Al Qaida og fleirum af því sauðarhúsi. Allar millilanda-greiðslur til og frá Íslandi voru stöðvaðar. Innistæður íslenskra fyrirtækja í Bretlandi voru frystar. Utanríkisviðskipti Íslendinga voru stöðvuð og landið í raun sett í eins konar fjárhagslega herkví. Útlit var fyrir vöruskorti og neyð á landinu sem er mjög háð innflutningi varðandi helstu nauðsynjar.
Þessar aðgerðir eru með eindæmum gagnvart vinaþjóð sem var í miklum vanda. Þær eru mér enn óskiljanlegar þrátt fyrir tilraunir Alistair Darlings til að réttlæta þær. Ekki er ólíklegt að öll kurl séu ekki komin til grafar í þessu máli. Vera má að eitthvað sem enn hefur ekki verið upplýst liggji að baki.
Í kjölfar aðgerða Breta stóð Ísland skyndilega frammi fyrir því að vera algjörlega einangrað á alþjóðavettvangi. Gamlar og nánar bandalagsþjóðir eins og t.d. Norðurlöndin stóðu í besta falli hlutlausar hjá á bak við Breta sem beittu sér að fullu ásamt Hollendingum innan ESB, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og víðar til að láta kné fylgja kviði gagnvart Íslendingum. Okkur voru allar bjargir bannaðar. Jafnvel tilraunir okkar til að fá réttmæta aðstoð frá þeim sem á að veita aðstoð í fjármálaáfalli sem þessu, þ.e.a.s. Alþjóða gjaldeyrissjóðinum voru stöðvaðar eða tafðar af hálfu stjórnarmanna Breta í sjóðinum.
Íslandi var meinað að fara með málið fyrir dómstóla.
Ísland var beitt fjárkúgun.
Íslandi var meinuð aðstoð frá AGS.
Bretar með Gordon Brown og Alistair Darling í broddi fylkingar voru með yfirlýsingar um gjaldþrot landsins, að landið stæði ekki við skyldur sínar á alþjóða vettvangi, óheiðarleika og/eða vanhæfi íslenskra stjórnmála og embættismanna auk þess sem landið og ríkisstjórn þess var á lista yfir hryðjuverkasamtök sem refsing lægi við að eiga samskipti við.
Íslenska þjóðin var furðu lostin. Hvað var að gerast? Friðsöm þjóð sem ekki einu sinni er með eigin her stóð allt í einu frammi fyrir því að vera meðhöndluð eins og hryðjuverka-menn sem staðnir hafa verið að verki. Og ekki mátti einu sinni fara með málið fyrir dómstóla. Og allir þeir sem við töldum vera vinaþjóðir okkar voru í besta falli hlutlausir í fjarska. Það ríkti einhver múgæsing utan landsteinanna. Það var hrækt á Íslendinga á götum erlendis. Þeir voru reknir út úr verslunum. Og múgur þjóðanna með Breta undir forystu Gordon Browns í broddi fylkingar tók lögin í eigin hendur og meinaði Íslendingum að sækja rétt sinn.
Þetta var efnahagslegt stríð!
Íslensku ríkisstjórnirnar sem glímdu við vandann (þær urðu þrjár) tóku á honum af undrun en stillingu. Þetta var auðsjáanlega pólitískt stríð og Ísland stóð eitt á móti heiminum. Staðan var vonlaus enda varð landið að geta stundað viðskipti við útlönd.
Fáeinir aðilar sýndu landinu vináttuvott og samstöðu. Færeyjar lofuðu að veita okkur lán. Pólland kom einnig til. Norðurlöndin lofuðu líka, en einungis ef Ísland stæði við alþjóðlegar skuldbindingar sínar" eins og þeir orðuðu það. Allir vissu að átt var við skilning Breta og Hollendinga á þessu skuldbindingum.
Tilneyddir fóru Íslendingar í samningaviðræður. Fyrst voru Brusselviðmiðin svokölluðu undir forskriftinni skilyrðislaus uppgjöf Íslendinga. Síðar Svavarssamingurinn (sem m.a. fól í sér að Bretar tóki Ísland af lista yfir hryðjuverkalönd og frystingu eigna er aflétt) og loks Buchheit samningurinn. Sífellt bötnuðu þau kjör sem Íslendingum buðust varðandi greiðsluhraða og vexti. Tíminn leið. Í ljós kom að efnahagsástandið var ekki einskorðað við Ísland heldur voru fleiri lönd í Evrópu í erfiðri stöðu og því varð erfiðara að halda því fram að vandinn einskorðaðist við hryðjuverkaríkið" Ísland. AGS varð loks ekki stætt á því lengur að halda aftur af aðstoð og lán til landsins fóru að berast. Þjóðin vildi ekki láta beygja sig þótt ríkisstjórnin sæi sig nauðbeygða og hafnaði samningunum. Bretar og Hollendingar fóru með málið fyrir dóm (að formlegu frumkvæði ESA).
Upp var kveðinn dómur: Ísland hafði rétt fyrir sér í nánast öllum atriðum og var í fullum rétti. Sækjendur höfðu rangt fyrir sér og skulu auk eigin kostnaðar við málshöfðunina greiða allan kostnað Íslands við málareksturinn.
Nokkrar spurningar um þessa atburðarrás
Eftir standa nokkrar áleitnar spurningar.
Hvað varð til þess að svokallaðar vinaþjóðir" fóru í efnahagslegt stríð við Íslendinga og reyndu að kúga þá með valdi til þess að gefa eftir rétt sinn?
Hvað varð til þess að aðrar svokallaðar vinaþjóðir" létu þetta viðgangast?
Hvernig stendur á því að alþjóðlegar stofnanir eins og AGS láta þvinga sig til þess að sinna ekki skyldum sínum gagnvart aðildarþjóðum?
Hvað skýrir hryðjuverkalagaárás Breta á Ísland?
Fyrir mér er það enn óskiljanlegt út frá fyrirliggjandi upplýsingum hvers vegna Bretar beittu sér svo harkalega gagnvart Íslendingum sem líta á sjálfa sig sem mjög nána vinaþjóð Breta. Hvað liggur að baki? Eru einhverjar leyndar upplýsingar sem skýra þessi viðbrögð?
Er það einungis bráðlyndi Gordon Browns og Alister Darlings í þeirri þröngu stöðu sem þeir stóðu í þegar breska bankakerfið riðaði til falls sem leiddi þá til þessara viðbragða?
Hvað hefur þetta stríð kostað Ísland?
Á Ísland einhvern kröfurétt á Breta vegna aðgerða þeirra?
Íslensku fylkingarnar
Eins og áður segir þá er ljóst að íslensku ríkisstjórnirnar þrjár sem meðhöndluðu málið voru nauðbeygðar til að leita samninga til að verjast efnahagslega árásarstríði Evrópuþjóða gegn landinu. En það var undarlegt hvernig að því var staðið.
Fyrsta ríkisstjórnin, ríkisstjórn Geirs Haarde, sendi fjármálaráðherrann á fund í Brussel þar sem útlínur nauðarsamninga voru rissaðar upp á minnisblað. Svokölluð Brussel viðmið. Lengra náði sú ríkisstjórn ekki að taka málið, enda féll hún þegar annar ríkisstjórnar-flokkanna hætti stuðningi sínum við stjórnina.
Sá flokkur myndaði næstu stjórn ásamt Steingrími J Sigfússyni og félögum hans úr VG með stuðningi Framsóknarflokksins. Steingrímur J og VG höfðu haft mikil orð um það að þjóðin ætti ekki að láta beygja sig heldur standa saman sem einn maður. Nýja ríkisstjórnin boðar gegnsæi í ákvarðanatöku og meira upplýsingaflæði. Hann lætur Svavar Gestsson leiða samninganefnd til að ganga frá málinu.
Svo gerast stórmerkin og undarlegheitin.
Samningur verður til (IceSave I) og er settur til samþykkis Alþingis.
Óséður!
Þ.e.a.s. Alþingi átti að samþykkja samning sem fól í sér gífurlegar skuldbindingar fyrir þjóðina til framtíðar, þar sem upphæðir voru í erlendum gjaldmiðlum og stærri en margföld fjárlög ríkisins og það átti þingið að gera án þess að fá að sjá samninginn. Meira að segja sumir ráðherrar áttu ekki að fá að sjá hann.
Undarlegt? Boðlegt? Ásættanlegt? Í anda gagnsæis og upplýstrar ákvarðanatöku?
Sumir þingmenn stjórnarflokkanna voru tilbúnir til að gera þetta. Steingrímur J lagði málið svona fram fyrir þingið. Hvað veldur?
Sem betur fer voru til þingmenn sem ekki voru tilbúnir í svona vinnubrögð. Þeir voru einnig til innan stjórnarflokkanna og meðal ráðherra. Mótmælin urðu hávær á þingi og utan þess.
Úr varð að skoða mætti samninginn í lokuðu herbergi.
Viðbrögðin voru að þingmönnum sem sáu samninginn og skynbragð höfðu á hann blöskraði og mótmæli urðu háværari.
Samningurinn var gerður opinber og miklar deilur og umræður eiga sér stað í þjóðfélaginu og á Alþingi. Varnarhópar almennings spretta upp eins og t.d. InDefence (sem upprunalega var stofnaður í október 2008 til að mótmæla því að Bretar kölluðu Íslendinga hryðjuverkamenn) og Advice hópurinn. Steingrímur J, Jóhanna of Össur beita sér af krafti fyrir samningunum. Einn ráðherra segir af sér til að mótmæla vinnubrögðum annarra ráðherra í málinu.
Alþingi samþykkir samninginn með semingi og með fyrirvörum þrátt fyrir hávær mótmæli almennings og minnihluta.
Bretar og Hollendingar hafna fyrirvörunum. Ný samningalota hefst. IceSave samningur nr. II verður til og er samþykktur af Alþingi með lögum. Almenningur er æfur. 20% þjóðarinnar skrifar undir áskorun á forseta að skjóta lögum um samninginn til þjóðaratkvæðis. 6.mars 2010: 98,1% kjósenda fella samninginn. Kjörsókn var 62,7%. Formenn ríkisstjórnarinnar mæta ekki á kjörstað.
Ný samningalota hefst og til verður þriðji samningurinn, IceSave III, sem Alþingi samþykkir þrátt fyrir hávær mótmæli. Forseti neitar aftur undirritunar eftir fjölda áskoranna og ný þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram. 9.apríl, 2011: 59,8% segja nei. Kjösókn var 75,3%.
14.desember 2011: ESA stefnir Íslenska ríkinu vegna málsins. Bretar, Hollendingar og ESB verða aðilar að málinu gegn Íslandi. Noregur og Lichtenstein verða aðilar að málinu með Íslandi.
28.janúar, 2013: Ísland sýknað af öllum kröfum og ESA ásamt EU gert að greiða málskostnað Íslands.
Spurningar um ferlið innanlands
Hvernig getur það verið að Steingrímur J leggur samninginn fyrir Alþingi til samþykktar sem leynisamning þ.e.a.s. án þess að þingmönnum bjóðist að sjá hann?
Hvernig getur það gerst að þingmaður sem barðist hart gegn ytri þvingunum og talaði fyrir gagnsæi og samstöðu tekur svona einarða aðstöðu gegn gagnsæi og beitir sér fyrir því að lauma þvingununum á landsmenn?
Ítrekað var reynt að fá ríkisstjórnina til að samþykkja að setja samningana í þjóða-ratkvæðagreiðslu í stað þess að reyna að þvinga þá í gegnum þingið. Með því hefðu þeir getað rökstutt málið opinberlega fyrir almenningi og í það minnsta reynt að fá meirihluta borgaranna til að samþykkja að bera byrðaranar í ljósi ytri kúgana sem skásta kost af tveimur illum: klyfjar af völdum efnahagslegs stríðs við Evrópu eða efnahagslegar klyfjar af völdum samninganna.
Þótt ljóst sé að Ísland var beitt kúgun af ytri aðilum, hvers vegna stillir ríkisstjórnin sér upp sem bandamanni kúgaranna gegn þjóðinni í stað þess að efla til samstöðu eða a.m.k. hlutleysis þegar kemur að því að samþykkja gerða samninga?
Niðurstaða
Breska ríkisstjórnin kom svívirðilega fram gagnvart Íslendingum þegar þeir síðarnefndu voru í neyð og fullum rétti eins og dómurinn staðfestir.
Norðurlandaþjóðirnar brugðust okkur sem bandamenn gegn augljósri kúgun.
Margir þingmenn okkar brugðust í þessu máli. Ekki vegna þess að þeir reyndu að semja í erfiðri stöðu, heldur vegna þess hvernig þeir höndluðu samningana. Sumir voru tilbúnir til að samþykkja þá óséða sem gerir þá að mínu mati vanhæfa til að gegna svo ábyrðarmikilli stöðu sem þingseta er.
Sumir ráðherrar snérust algjörlega í yfirlýstri afstöðu sinni og framkomu gagnvart þjóðinni og reyndu að leyna hana, þingmenn og aðra ráðherra upplýsingum. Það eru svik.
Mér kæmi ekki á óvart ef frekari upplýsingar í þessu máli kæmu fram seinna meir sem skýra kynnu að einhverju leyti viðbrögð Breta og jafnvel annarra í þessu máli.
29.1.2013
ÞHS
Margir Bretar ánægðir með dóminn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2012 | 13:17
Hækkun úr um 1500 í yfir 2300 milljarða síðan í árslok 2008
Um 800 milljarða hafa lífeyrissjóðirnir hagnast síðan í hruninu.
Þessi hækkun er að miklu leyti til komin vegna útfærslu verðtryggingarinnar. Nú berast fréttir af því að hækkanir gjalda í fjárlagafrumvarpi hækki neysluvísitöluna og færi meiri peninga frá skuldurum til lánveitenda.
Ef ríkið hefði hækkað t.d. tekjuskatt til að borga sín útgjöld þá hefðu engir peningar færst á milli, en af því ríkið ákvað að hækka gjaldaliði í staðinn þá færast peningar á milli.
Þetta er ekki verðtrygging heldur skattheimtutrygging og er brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrár.
Skrítið að enginn skuli stöðva þessa lög- og vitleysu.
Hrein eign jókst um 1,4% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.12.2012 | 13:08
Sumir fá en aðrir ekki ...
Ég er ekki á móti því að greidd séu listamannalaun, en ég vil að þau fari þangað sem þörf er á og til er unnið. M.ö.o. þá þykir mér óþarfi að auðmenn eða tekjuháir fái þessi laun sem auka bónus frá skattgreiðendum.
Mér sýnist svona fljótt á litið að flestir ef ekki allir á listanum hafi vissulega unnið fyrir heiðrinum, en er ekki viss um að allir hafi réttlætanlega þörf á að fá þessi laun. Það má örugglega finna ýmsa sem til þessa hafa unnið en fá ekki neitt jafnvel þótt tekjur eða ríkidæmi þeirra sé lítið.
Sem dæmi þá teljast þessir tveir varla á flæðiskeri staddir:
4. Erró 2.898
5. Guðbergur Bergsson 2.898
Svo er þessi á góðum launum sem þingmaður og þarf því ekki á þessu að halda fyrir utan það að vera vanhæfur til að greiða atkvæði um þetta mál. Eða er hann sjálftökumaður?
26. Þráinn Bertelsson 3.622
Loks er einn flutningsmaður tillögunnar barn eins þyggjandans og því að mínu mati vanhæfur til þess að flytja þetta mál.
Þessi laun á að tekju- og eignatengja. Og þingmenn verða að gæta að eigin hæfi til að fjalla um málið.
Heiðurslaunin stórhækka í kreppunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.12.2012 | 12:36
Lífeyrissjóðirnir taka of stóran skammt (af þjóðarkökunni)
Myndin The meaning of life eftir Monty Python hópinn var sýnd í sjónvarpinu nýlega.
Þetta er ansi súrrealísk mynd sem erfitt er að skilja. Eitt atriði ætti þó að vera auðskiljanlegt sjálfhverfu kynslóðinni svokölluðu en það er atriðið á veitingastaðnum þegar akfeitur maður kemur inn á veitingastað til að borða allt sem er á matseðlinum á milli þess sem hann ælir yfir allt og sjálfan sig í leiðinni. Aðrir gestir á staðnum létu sig smá saman hverfa (væntanlega sjálfhverfir).
Þegar síðasta krónan fer inn í lífeyrissjóðakerfi landsins, hvað gerist þá
19.10.2012 | 09:55
Segjum NEI til að fá umföllun um málið
Það er sorglegt að horfa upp á þessa tilheigingu til að þröngva að mörgu leyti ágætum en samt stórgölluðum drögum í gegn án umræðu. Það verður að segja NEI til að tryggja að þetta fái einhverja umræðu á Alþingi. Sjá meira hér.
Áróður já-sinna um að já þýði að Alþingi eigi bara að stimpla pakkann nánast án umsagnar og breytinga er hættulegur þjóðinni vegna stórgalla sem eru á núverandi drögum og er ekki fjallað um í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn.
Tvö dæmi:
Með núverandi tillögum (gr. 113) er t.d. opnuð leið fyrir framtíðar stjórnmálamann með einræðistilburði að ráðskast með þjóðskrána að vild. Allt sem þarf ef vilji foringjans og svo þjóðaratkvæðagreiðsla sem hann stjórnar. M.ö.o. þá hefur stjórnlagaráð algjörlega borið fyrir borð þá hagsmuni þjóðarinnar að ekki sé auðvelt fyrir stjórnvöld hverju sinni að breyta stjórnarskrá að sínum vilja. ==> NEI við fyrstu spurningu 20. október!
Með núverandi tillögum (gr.6) er bannað að hygla íslenskunni eða reynda nokkur öðru máli á Íslandi (með banni á mismunun). Þetta er gert "Í ljósi þess að sterkar raddir hafa verið á lofti um að setja íslenska tungu inn sem eitt af grunngildum í inngangsgrein að frumvarpi þessu" samkvæmt skýringum stjórnlagaráðs. Vandamálið er að það hefur að því er virðist "gleymst" að setja þetta ákvæði inn. ==> NEI við fyrstu spurningu 20. október!
Vill breytingar þó þjóðin segi nei | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.10.2012 | 12:08
Gylfi þarf að fara að hugsa sín mál
"Gylfi sagði að margir hefðu einblínt á það að með því að afnema verðtryggingu muni hagsmunir venjulegs meðaltekju fólks verða tryggðir. Ég er ekki sammála því, málið er miklu flóknara en svo að það verði leyst á einfaldan hátt, en geri mér jafnframt ljósa grein fyrir því að það hefur vakið mikla reiði og gremju í minn garð og okkar hreyfingar."
Gylfi hefur verið talsmaður þeirrar "einföldu lausnar" að ganga í Evrópusambandi og taka upp evru eins og að þá myndu öll vandamál leysast nánast af sjálfu sér. Þar fer hann villur vega.
Hann hefur hins vegar rétt fyrir sér að "málið er miklu flóknara en svo að það verði leyst á einfaldan hátt". Að mínu mati á það jafnt við einföldu lausnirnar "afnám verðtrygginar" og "upptaka evru".
Öll umræða um verðtryggingu er ómarkviss meðan ekki er gerður greinarmunur á verðtryggingu sem hugtaki og Vertryggingunni eins og hún er útfærð hér á landi með notkun neysluvísitölu
Ég hef áður fjallað um það að verðtrygging (sem hugtak) ætti að vera öllum til hagsbóta meðan Verðtrygging lána miðuð við neysluvísitölu er stórskaðleg, óréttlát og reyndar einnig ólögleg að mínu mati. Gylfi hefur verið talsmaður Verðtryggingarinnar (með stóru vaffi). Ég er talsmaður annars fyrirkomulags verðtryggingar sem tekur á helstu ókostum núverandi fyrirkomulags.
Svo við víkjum að öðru þá skrifaði Gylfi nýlega pistil á pressuna um samhengi myndsamstarfs og atvinnuleysi og tekst þar að snúa hlutunum á haus. Ég svara þessum pistli hans hér.
Höfum ekki lengur efni á meðalíbúð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.10.2012 | 11:50
Gagnrýni á grein Gylfa Arnbjörnssonar
Gylfi Arnbjörnsson fjallar um það hvort þátttaka í myntsamstarfi (upptaka evru) leiði til aukins atvinnuleysis í pistli á Pressunni.
Þar fer hann yfir nokkur línu- og súlurit máli sínu til stuðnings og kemst að því að krónan verji ekki Íslendinga gegn atvinnuleysi og því sé óhætt að taka upp erlendan gjaldmiðil.
Þetta er undarleg niðurstaða með tilliti til þeirra hagtalna sem Gylfi leggur fram og vitnar í. Mér þykir rétt að fjalla hér aðeins um túlkun hans á þessum hagtölum.
Atvinnuleysi í ágúst 2008-2012. | |
Niðurstaða Gylfa: Atvinnuleysi á Íslandi með því lægsta sem þekkist og atvinnuleysi í NV-Evrópu lægra en sunnar og austar í álfunni. Þess vegna ólíklegt að atvinnuleysi á Íslandi fari upp í sömu tölur og á Spáni og í Grikklandi. | Mín niðurstaða: Ég er sammála Gylfa um að ólíklegt er að atvinnuleysi hér fari nokkurn tíman upp í svipaðar tölur og á Spáni og í Grikklandi hvort sem við höfum krónu eða erlendan gjaldmiðil. Fyrir því er aðallega sú ástæða að fólk flytur einfaldlega í burtu, enda á fólk á Íslandi mjög auðvelt með það m.a. vegna fólksfæðar, menntunarstigs og tungumálakunnáttu. Hins vegar er með ólíkindum hvað er lítið atvinnuleysi hér á landi eftir hrunið, en það skýrist m.a. af brottflutningi fólks en einnig af því að útfluttningsatvinnuvegir og ferðaþjónusta hafa haldið sínu þótt hér hafi gengið yfir óheyrilegar efnahagslegar hamfarir. Þessar tölur um atvinnuleysi sína því m.a. aðlögunarhæfni efnahagslífsins með krónuna til að leiðrétta samkeppnisstöðu þjóðarinnar. Það er ljóst að ef við hefðum ekki krónuna nú þá þyrftum við að grípa til svipaðra aðgerða eins og í PIGS löndunum. Af þeim er það Írland sem kemst næst því að vera samanburðarhæft við Ísland. Þar er 15% atvinnuleysi nú. Grafið hans Gylfa rennir því stoðum undir þá kenningu að krónan hafi varið samkeppnisstöðu landsins þvert á það sem Gylfi gefur í skyn. |
Aukning atvinnuleysis á 2. ársfj. 2008 til 1. ársfr. 2009 og til 3. Ársfj. 2012. | |
Niðurstaða Gylfa: Ísland var í 6. sæti þeirra ríkja þar sem atvinnuleysi jókst hvað mest. Ekki verður séð að sveigjanleiki krónunnar hafi varið atvinnustigið sem neinu nemur. Við stöndum okkur betur en evrusvæðið en verr en ESB í heild. | Mín niðurstaða: Gylfi skiptir grafinu í tvennt: annars vegar 2. ársfj. 2008 til 1.arsfj. 2009. (eitt ár kringum hrunið) og hins vegar frá 2.ársfj. 2009-3.ársfj. 2012 (um 3 ár). Niðurstaða Gylfa er ótrúlega skrítin í ljósi þess sem grafið sýnir.. Þrátt fyrir að eitthvert mesta þekkta efnahagshrun mannkynssögunnar á friðartímum þá jókst atvinnuleysi hér mun minna en hjá 5 þjóðum Evrópu (Eistland, Írland, Spánn, Lettland, Litháen) sem glímt hafa við kreppu sem skall á hjá þeim nokkru síðar en á Íslandi. Þetta sýnir grafið hans Gylfa þrátt fyrir að fyrra tímabilið sé skoðað einangrað í kringum dagsetningu hrunsins hér á Íslandi. Þetta getum við að mestu leyti þakkað krónunni. Seinni hluti grafsins hans Gylfa sýnir að atvinnuleysi minkaði á Íslandi á því tímabili. Einu löndin þar sem það gerðist voru auk Íslands: Belgía, Þýskaland, Eistland, Lúxembúrg, Tyrkland, Bandaríkin og Japan. Atvinnuleysi jókst í ESB að meðaltali og einnig á evrusvæðinu. Það blasir því við að Ísland stóð sig mun betur en bæði ESB og evrusvæðið í heild. Grafið hans Gylfa rennir því stoðum undir þá kenningu að krónan hafi varið samkeppnisstöðu landsins og þar með störf launþega þvert á það sem Gylfi segir. |
Verðbólga í Evrópu 2008-2011 | |
Niðurstaða Gylfa: Verðbólga á Íslandi hefur verið að meðaltali 10% en í Evrópu um 2%. | Mín niðurstaða: Þetta er rétt. Á umræddu tímabili höfum við verið að taka afleiðingum þessa að nánast um helmings gengisfall varð á krónunni til að leiðrétta samkeppnisstöðu landsins. Á sama tíma hefur Evrópa verið að glíma við fall í eftirspurn vegna kreppunnar en það kemur í veg fyrir að verðbólga aukist. Þetta er eðlilegt meðan þjóðfélagið er að finna nýtt jafnvægi. Á hitt ber að líta að bæði á Íslandi og í Evrópu er líklegt að verðbólga verði með hærra móti þegar eftirspurnin í þjóðfélaginu fer af stað. Hér á Íslandi vegna þess að launþegar vilja endurheimta kaupmátt og í Evrópu vegna þess að verið er að prenta peninga" með kaupum á lélegum skuldabréfum ríkja (búa til verðbólgu í framtíðinni). |
Hagvöxtur í einstaka ríkjum Evrópu 2008-2010 | |
Niðurstaða Gylfa: 10% fall í landsframleiðslu á Íslandi, 2% í Evrópu og 1.5 % í samanburðarlöndum (sem ekki inniheldur Írland, en er með t.d. Belgíu og Holland). | Mín niðurstaða: Allt okkar bankakerfi hrundi. Verðgildi fyrirtækjaí kauphöllinni lækkuðu um 90%. Verðgildi gjaldmiðilsins lækkaði um 50%. Ath. að verðgildi krónunna lækkað sem afleiðing af hruni bankanna, ekki öfugt. Þrátt fyrir þessar hamfarir sem eru stærri en nokkurt land hefur þurft að þola á friðartímum fyrr og síðar þá lækkar landsframleiðsa hér einungis um 10%. Í Eistlandi, Lettlandi og Litháen lækkað hún enn meira en þessi lönd eru að rembast við að komast í evruna og halda gjaldmiðli sínum föstum við hana. Í Danmörku , Írlandi, Grikklandi, Ítalíu, Ungverjalandi, Finnlandi og Króatíu lækkar hún á bilinu 5-8% þrátt fyrir mun minna áfall. Og við erum þegar komin með hagvöxt meðan sum löndin eru enn að falla. Þarna hefur krónan augljóslega bjargað okkur frá enn dýpra falli í þjóðarframleiðslu. |
Langtímavextir ríkissjóðs í Evrópu í september 2012 | |
Niðurstaða Gylfa: Ísland borgar 3,5% hærri vexti en ríki á evrusvæðinu og 5,3% hærri en viðmiðunarlöndin. Þarna munar um 50-80 milljórðum á ári. | Mín niðurstaða: Ísland er á svipuðu róli og Írland, Spánn, Ítalía, Kýpur, Ungverjaland, Portúgal, Rúmenía og Slóvenía í þessari ljósmynd (september 2012) sem Gylfi tekur af vöxtunum. Það skal engan undra miðað við áfallið sem hér reið yfir að vextirnir eru háir. Reyndar gott að þeir skuli ekki vera enn hærri. Skuldastaða landsins ýtir vöxtunum upp á við. Samkeppnishæfni þjóðarinnar sem m.a. kemur fram í hagvexti og afgangi af vöruskiptum við útlönd ýtir vöxtum niður. M.ö.o. hagur okkar af bættri samkeppnisstöðu vegna krónunnar er að hjálpa okkur stórlega þarna. Við þetta má bæta athugasemd um að almennt gefur ljósmynd af vaxtakjörum einn mánuð ekki rétta mynd af almennu ástandi. Vextirnir sem þjóðinni buðust fyrir hrun voru t.d. mun nærri því sem samanburðarþjóðirnar voru með. Þetta veit Gylfi vel og hann er því hér vís vitandi að beita blekkingum. |
Vextir af nýjum húsnæðislánum í Evrópu á 1. ársfj. 2012. | |
Niðurstaða Gylfa: Greiðslubyrði af Íslenska láninu er um helmingi hærri en ríkja í NV-Evrópu. Af þessu vill Gylfi draga þá ályktun að krónunni sé um að kenna og því taka upp evru með inngöngu í Evrópusambandið að því gefnu (þótt orðalga Gylfa sé hér óljóst) að forræði á sjávarútvegsauðlindinni verði áfram í höndum Íslendinga. | Mín niðurstaða: Þarna er augljóslega vandi á ferð fyrir Íslendinga eins og skuldug heimili hafa fundið fyrir. Hér verður þó að hafa þann fyrirvara að verðbólga í löndunum er mismunandi og það skekkir myndina sem Gylfi setur fram. Sú skekkja virkar þó til þess að það hallar enn meira á Íslendinga og þar spilar verðtryggingin inn í. Margir hafa verið til að benda á að núverandi verðtrygginarfyrirkomulag lána á Íslandi er skaðlegt og að hagkerfið stendur ekki undir þessum vöxtum. Þessi vextir eru stórt séð til komnir vegna verðtyggingar + vaxtakröfu lífeyrissjóðanna + vaxtaálags bankanna. Hér munar mest um fyrstu tvo liðina sem eru óeðlilega háir. Nú stendur Gylfi fremstur í flokki þeirra sem vilja viðhalda verðtryggingunni eins og hún er og vaxtakröfu lífeyrissjóðanna upp á 3,5%. M.ö.o. þá er Gylfi sem áhrifamaður einn helsti ábyrgðarmaður þessarar vaxtapíningar skuldugra heimila. Með því að beina sjónum sínum að krónunni frekar en vaxtapíningu lífeyrissjóða og verðtryggingu er Gylfi ekki einungis að hengja bakara fyrir smið, heldur einnig að taka afstöðu gegn sínum umbjóðendum (verkalýðnum og heimilum landsins) með því að velja leið sem stuðlar að verri samkeppnisstöðu landsins (og því færri atvinnutækifærum) og aukinni vaxtapíningu. |
Ég legg til að Gylfi skoði betur þessar hagtölur og endurskoði niðurstöðu sína. Að öðrum kosti legg ég til að Gylfi segi af sér sem formaður ASÍ eða að hann verði settur af við fyrsta tækifæri.
Ég vona að Gylfi taki þetta ekki persónulega. Hann hefur sýnt það að hann kann að berjast af hörku fyrir hagsmunum lífeyrissjóðanna. Þótt Gylfi haldi því fram þá fara þeir hagsmunir ekki alltaf saman við hagsmuni launþega. Mér þykir því við hæfi að Gylfi einbeiti sér að vinnu fyrir lífeyrissjóðina en hætti að þykjast starfa fyrir verkalýðinn. Launþegar eiga betra skilið en mann sem beitir sé gegn hagsmunum þeirra.
17.10.2012 | 09:23
Alþingi þarf að fara yfir stjórnarskrárdrögin og lagfæra
Því miður er ýmislegt í þessum stjórnarskrárdrögum sem þarfnast umfjöllunar sbr. úttekt mína á drögunum.
Skiptar skoðanir innan stjórnlagaráðs um frumvarp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |