Um IceSave

Um IceSave

Sigurinn í IceSave deilunni fór fram úr björtustu vonum. Hann er algjör. ESB og ESA látin borga málskostnað Íslendinga. Þetta eru auðvitað fagnaðarefni fyrir alla þjóðina. Einnig fyrir skattborgara í öðrum löndum, líka Bretlandi og Hollandi. En þetta er einnig tilefni til að staldra við og skoða málið í ljósi þeirrar atburðarrásar sem fór í gang við hrun íslensku bankanna. Um hvað snérist IceSave málið í raun og hvað olli þeim hatrömu deilum á Íslandi sem urðu til þess að haldnar vor tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, þær fyrstu í sögu landsins?

Um hvað snérist málið?

Í fyrst lagi snérist þetta ekki um það hvort Bretar og Hollendingar fengu borgaðar þær innistæður sem voru á reikningunum. Fyrir lá mat á eignum þrotabús Landsbankans þegar við gerð fyrsta samningsins (Svavarssamningsins) þar sem gert var ráð fyrir að eignir dygðu fyrir a.m.k. 80% heildar skuldarinnar.

Þetta er fyrst og fremst deila um hver borgar, en ekki hvort borgað sé. Spurt er hvort íslenska ríkið (þ.e.a.s. skattborgarar Íslands) eigi að borga skuldir einkabanka eða hvort þrotabú hans eigi að gera það.

Í öðru lagi er þetta spurning um hvort borga eigi upphæð sem nemur lágmarksinnistæðu-tryggingu eða allar innistæðurnar til fulls.

Í þriðja lagi er þetta spurning um hvort borga eigi vexti af upphæðinni eður ei og þá hve lengi.

Í fjórða lagi var spurt um hvenær á að borga.

Afstaða deiluaðila

Afstaðan var þannig í þessum málum:

Hver borgar:

Ísland segir: þrotabúið borgar, ekki íslenska ríkið.

Bretar, Hollendingar, ESB og fleiri segja: íslenska ríkið borgar.

Hve mikið á að borga:

Ísland segir: innistæðueigendur fá allan forgang umfram aðra kröfuhafa bankans. Upprunalegt mat var að þetta myndi duga fyrir um 80-90% af allri upphæðinni, en lágmarkstryggingin var um 50% af heildinni. Nýjustu tölur sega að þetta dugi fyrir um 112% af allri upphæðinni, þ.e.a.s. 12% verða afgangs upp í kröfur sem teljast ekki til forgangskrafna.

Bretar, Hollendingar, ESB og fleiri segja: borgið lágmarkið strax (50%). Þrotabúið borgar svo eins mikið og hægt er af þeim peningi sem verður afgangs og til skiptis milli innistæðueiganda og annarra kröfuhafa.

Hvað um vexti:

Ísland segir: borgum vexti fyrir 6 mánuði en ekki meir.

Bretar, Hollendingar, ESB og fleiri segja: borgið vexti þar til allt hefur verið greitt.

Hvenær á að borga:

Ísland segir:uppgjör þrotabúsins verður að hafa sinn gang og borgað verður úr því eins hratt og auðið er

Bretar, Hollendingar, ESB og fleiri segja: borgið strax án tillits til efnahagshrunsins á Íslandi, enda Bretar og Hollendingar búnir að leggja út fyrir þessu.

Niðurstaða

Hver borgar?

            Þrotabúið borgar, ekki íslenska ríkið

Hve mikið er borgað?

100% innistæðna verða borguð og afgangur notaður til að borga upp í almennar kröfur. Forgangur innistæðueiganda tryggir að þeir fá allt sitt til baka.

Hvað um vexti?

Þrotabúið borgar vexti fyrir 6 mánuði.

Hvenær berast greiðslurnar?

Þegar hafa um 45% af heildinni verið borgaðar, þ.e.a.s. um 90% af lágmarks-tryggingunni. Meira er á leiðinni og það breytist ekki þrátt fyrir dóminn.

Hagur Íslands liggur fyrst og fremst í því að skattborgarar losna við ríkisábyrgð og vaxtagreiðslur af lánum til ríkissjóða Bretlands og Hollands sem annars hefðu komið til vegna krafna um greiðslur strax auk vaxta af láni sem hefði þurft að taka til að geta greitt strax. Sá aukakostnaður hefði getað numið allt að 20% af landsframleiðslu Íslendinga.

Atbuðarrásin

Í kjölfar aðgerða Íslendinga aðra vikuna inn í október 2008 til að taka yfir Íslandsbanka og Landsbankann beittu Bretar hryðjuverkalögum á Ísland til að taka yfir útibú Landsbanka í Bretlandi en einnig dótturfyrirtæki Kaupþings þar í landi, þ.e.a.s. bankann Singer & Friedlander.

Ísland var sett á lista með Al Qaida og fleirum af því sauðarhúsi. Allar millilanda-greiðslur til og frá Íslandi voru stöðvaðar. Innistæður íslenskra fyrirtækja í Bretlandi voru frystar. Utanríkisviðskipti Íslendinga voru stöðvuð og landið í raun sett í eins konar fjárhagslega herkví. Útlit var fyrir vöruskorti og neyð á landinu sem er mjög háð innflutningi varðandi helstu nauðsynjar.

Þessar aðgerðir eru með eindæmum gagnvart ‚vinaþjóð‘ sem var í miklum vanda. Þær eru mér enn óskiljanlegar þrátt fyrir tilraunir Alistair Darlings til að réttlæta þær. Ekki er ólíklegt að öll kurl séu ekki komin til grafar í þessu máli. Vera má að eitthvað sem enn hefur ekki verið upplýst liggji að baki.

Í kjölfar aðgerða Breta stóð Ísland skyndilega frammi fyrir því að vera algjörlega einangrað á alþjóðavettvangi. Gamlar og nánar bandalagsþjóðir eins og t.d. Norðurlöndin stóðu í besta falli hlutlausar hjá á bak við Breta sem beittu sér að fullu ásamt Hollendingum innan ESB, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og víðar til að láta kné fylgja kviði gagnvart Íslendingum. Okkur voru allar bjargir bannaðar. Jafnvel tilraunir okkar til að fá réttmæta aðstoð frá þeim sem á að veita aðstoð í fjármálaáfalli sem þessu, þ.e.a.s. Alþjóða gjaldeyrissjóðinum voru stöðvaðar eða tafðar af hálfu stjórnarmanna Breta í sjóðinum.

Íslandi var meinað að fara með málið fyrir dómstóla.

Ísland var beitt fjárkúgun.

Íslandi var meinuð aðstoð frá AGS.

Bretar með Gordon Brown og Alistair Darling í broddi fylkingar voru með yfirlýsingar um gjaldþrot landsins, að landið stæði ekki við skyldur sínar á alþjóða vettvangi, óheiðarleika og/eða vanhæfi íslenskra stjórnmála og embættismanna auk þess sem landið og ríkisstjórn þess var á lista yfir hryðjuverkasamtök sem refsing lægi við að eiga samskipti við.

Íslenska þjóðin var furðu lostin. Hvað var að gerast? Friðsöm þjóð sem ekki einu sinni er með eigin her stóð allt í einu frammi fyrir því að vera meðhöndluð eins og hryðjuverka-menn sem staðnir hafa verið að verki. Og ekki mátti einu sinni fara með málið fyrir dómstóla. Og allir þeir sem við töldum vera vinaþjóðir okkar voru í besta falli hlutlausir í fjarska. Það ríkti einhver múgæsing utan landsteinanna. Það var hrækt á Íslendinga á götum erlendis. Þeir voru reknir út úr verslunum. Og múgur þjóðanna með Breta undir forystu Gordon Browns í broddi fylkingar tók lögin í eigin hendur og meinaði Íslendingum að sækja rétt sinn.

Þetta var efnahagslegt stríð!

Íslensku ríkisstjórnirnar sem glímdu við vandann (þær urðu þrjár) tóku á honum af undrun en stillingu. Þetta var auðsjáanlega pólitískt stríð og Ísland stóð eitt á móti heiminum. Staðan var vonlaus enda varð landið að geta stundað viðskipti við útlönd.

Fáeinir aðilar sýndu landinu vináttuvott og samstöðu. Færeyjar lofuðu að veita okkur lán. Pólland kom einnig til. Norðurlöndin lofuðu líka, en einungis ef Ísland „stæði við alþjóðlegar skuldbindingar sínar" eins og þeir orðuðu það. Allir vissu að átt var við skilning Breta og Hollendinga á þessu skuldbindingum.

Tilneyddir fóru Íslendingar í samningaviðræður. Fyrst voru Brusselviðmiðin svokölluðu  undir forskriftinni skilyrðislaus uppgjöf Íslendinga. Síðar Svavarssamingurinn (sem m.a. fól í sér að Bretar tóki Ísland af lista yfir hryðjuverkalönd og frystingu eigna er aflétt) og loks Buchheit samningurinn. Sífellt bötnuðu þau kjör sem Íslendingum buðust varðandi greiðsluhraða og vexti. Tíminn leið. Í ljós kom að efnahagsástandið var ekki einskorðað við Ísland heldur voru fleiri lönd í Evrópu í erfiðri stöðu og því varð erfiðara að halda því fram að vandinn einskorðaðist við „hryðjuverkaríkið" Ísland. AGS varð loks ekki stætt á því lengur að halda aftur af aðstoð og lán til landsins fóru að berast. Þjóðin vildi ekki láta beygja sig þótt ríkisstjórnin sæi sig nauðbeygða og hafnaði samningunum. Bretar og Hollendingar fóru með málið fyrir dóm (að formlegu frumkvæði ESA).

Upp var kveðinn dómur: Ísland hafði rétt fyrir sér í nánast öllum atriðum og var í fullum rétti. Sækjendur höfðu rangt fyrir sér og skulu auk eigin kostnaðar við málshöfðunina greiða allan kostnað Íslands við málareksturinn.

Nokkrar spurningar um þessa atburðarrás

Eftir standa nokkrar áleitnar spurningar.

Hvað varð til þess að svokallaðar „vinaþjóðir" fóru í efnahagslegt stríð við Íslendinga og reyndu að kúga þá með valdi til þess að gefa eftir rétt sinn?

Hvað varð til þess að aðrar svokallaðar „vinaþjóðir" létu þetta viðgangast?

Hvernig stendur á því að alþjóðlegar stofnanir eins og AGS láta þvinga sig til þess að sinna ekki skyldum sínum gagnvart aðildarþjóðum?

Hvað skýrir hryðjuverkalagaárás Breta á Ísland?

Fyrir mér er það enn óskiljanlegt út frá fyrirliggjandi upplýsingum hvers vegna Bretar beittu sér svo harkalega gagnvart Íslendingum sem líta á sjálfa sig sem mjög nána vinaþjóð Breta. Hvað liggur að baki?  Eru einhverjar leyndar upplýsingar sem skýra þessi viðbrögð?

Er það einungis bráðlyndi Gordon Browns og Alister Darlings í þeirri þröngu stöðu sem þeir stóðu í þegar breska bankakerfið riðaði til falls sem leiddi þá til þessara viðbragða?

Hvað hefur þetta stríð kostað Ísland?

Á Ísland einhvern kröfurétt á Breta vegna aðgerða þeirra?

Íslensku fylkingarnar

Eins og áður segir þá er ljóst að íslensku ríkisstjórnirnar þrjár sem meðhöndluðu málið voru nauðbeygðar til að leita samninga til að verjast efnahagslega árásarstríði Evrópuþjóða gegn landinu. En það var undarlegt hvernig að því var staðið.

Fyrsta ríkisstjórnin, ríkisstjórn Geirs Haarde, sendi fjármálaráðherrann á fund í Brussel þar sem útlínur nauðarsamninga voru rissaðar upp á minnisblað. Svokölluð Brussel viðmið. Lengra náði sú ríkisstjórn ekki að taka málið, enda féll hún þegar annar ríkisstjórnar-flokkanna hætti stuðningi sínum við stjórnina.

Sá flokkur myndaði næstu stjórn ásamt Steingrími J Sigfússyni og félögum hans úr VG með stuðningi Framsóknarflokksins. Steingrímur J og VG höfðu haft mikil orð um það að þjóðin ætti ekki að láta beygja sig heldur standa saman sem einn maður. Nýja ríkisstjórnin boðar gegnsæi í ákvarðanatöku og meira upplýsingaflæði. Hann lætur Svavar Gestsson leiða samninganefnd til að ganga frá málinu.

Svo gerast stórmerkin og undarlegheitin.

Samningur verður til (IceSave I) og er settur til samþykkis Alþingis.

Óséður!

Þ.e.a.s. Alþingi átti að samþykkja samning sem fól í sér gífurlegar skuldbindingar fyrir þjóðina til framtíðar, þar sem upphæðir voru í erlendum gjaldmiðlum og stærri en margföld fjárlög ríkisins og það átti þingið að gera án þess að fá að sjá samninginn. Meira að segja sumir ráðherrar áttu ekki að fá að sjá hann.

Undarlegt? Boðlegt? Ásættanlegt? Í anda gagnsæis og upplýstrar ákvarðanatöku?

Sumir þingmenn stjórnarflokkanna voru tilbúnir til að gera þetta. Steingrímur J lagði málið svona fram fyrir þingið. Hvað veldur?

Sem betur fer voru til þingmenn sem ekki voru tilbúnir í svona vinnubrögð. Þeir voru einnig til innan stjórnarflokkanna og meðal ráðherra. Mótmælin urðu hávær á þingi og utan þess.

Úr varð að skoða mætti samninginn í lokuðu herbergi.

Viðbrögðin voru að þingmönnum sem sáu samninginn og skynbragð höfðu á hann blöskraði og mótmæli urðu háværari.

Samningurinn var gerður opinber og miklar deilur og umræður eiga sér stað í þjóðfélaginu og á Alþingi. Varnarhópar almennings spretta upp eins og t.d. InDefence (sem upprunalega var stofnaður í október 2008 til að mótmæla því að Bretar kölluðu Íslendinga hryðjuverkamenn) og Advice hópurinn. Steingrímur J, Jóhanna of Össur beita sér af krafti fyrir samningunum. Einn ráðherra segir af sér til að mótmæla vinnubrögðum annarra ráðherra í málinu.

Alþingi samþykkir samninginn með semingi og með fyrirvörum þrátt fyrir hávær mótmæli almennings og minnihluta.

Bretar og Hollendingar hafna fyrirvörunum. Ný samningalota hefst. IceSave samningur nr. II verður til og er samþykktur af Alþingi með lögum. Almenningur er æfur. 20% þjóðarinnar skrifar undir áskorun á forseta að skjóta lögum um samninginn til þjóðaratkvæðis. 6.mars 2010: 98,1% kjósenda fella samninginn. Kjörsókn var 62,7%. Formenn ríkisstjórnarinnar mæta ekki á kjörstað.

Ný samningalota hefst og til verður þriðji samningurinn, IceSave III, sem Alþingi samþykkir þrátt fyrir hávær mótmæli. Forseti neitar aftur undirritunar eftir fjölda áskoranna og ný þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram. 9.apríl, 2011: 59,8% segja nei. Kjösókn var 75,3%.

14.desember 2011: ESA stefnir Íslenska ríkinu vegna málsins. Bretar, Hollendingar og ESB verða aðilar að málinu gegn Íslandi. Noregur og Lichtenstein verða aðilar að málinu með Íslandi.

28.janúar, 2013: Ísland sýknað af öllum kröfum og ESA ásamt EU gert að greiða málskostnað Íslands.

Spurningar um ferlið innanlands

Hvernig getur það verið að Steingrímur J leggur samninginn fyrir Alþingi til samþykktar sem leynisamning þ.e.a.s. án þess að þingmönnum bjóðist að sjá hann?

Hvernig getur það gerst að þingmaður sem barðist hart gegn ytri þvingunum og talaði fyrir gagnsæi og samstöðu tekur svona einarða aðstöðu gegn gagnsæi og beitir sér fyrir því að lauma þvingununum á landsmenn?

Ítrekað var reynt að fá ríkisstjórnina til að samþykkja að setja samningana í þjóða-ratkvæðagreiðslu í stað þess að reyna að þvinga þá í gegnum þingið. Með því hefðu þeir getað rökstutt málið opinberlega fyrir almenningi og í það minnsta reynt að fá meirihluta borgaranna til að samþykkja að bera byrðaranar í ljósi ytri kúgana sem skásta kost af tveimur illum: klyfjar af völdum efnahagslegs stríðs við Evrópu eða efnahagslegar klyfjar af völdum samninganna.

Þótt ljóst sé að Ísland var beitt kúgun af ytri aðilum, hvers vegna stillir ríkisstjórnin sér upp sem bandamanni kúgaranna gegn þjóðinni í stað þess að efla til samstöðu eða a.m.k. hlutleysis þegar kemur að því að samþykkja gerða samninga?

Niðurstaða

Breska ríkisstjórnin kom svívirðilega fram gagnvart Íslendingum þegar þeir síðarnefndu voru í neyð og fullum rétti eins og dómurinn staðfestir.

Norðurlandaþjóðirnar brugðust okkur sem bandamenn gegn augljósri kúgun.

Margir þingmenn okkar brugðust í þessu máli. Ekki vegna þess að þeir reyndu að semja í erfiðri stöðu, heldur vegna þess hvernig þeir höndluðu samningana.  Sumir voru tilbúnir til að samþykkja þá óséða sem gerir þá að mínu mati vanhæfa til að gegna svo ábyrðarmikilli stöðu sem þingseta er.

Sumir ráðherrar snérust algjörlega í yfirlýstri afstöðu sinni og framkomu gagnvart þjóðinni og reyndu að leyna hana, þingmenn og aðra ráðherra upplýsingum. Það eru svik.

Mér kæmi ekki á óvart ef frekari upplýsingar í þessu máli kæmu fram seinna meir sem skýra kynnu að einhverju leyti viðbrögð Breta og jafnvel annarra í þessu máli.

29.1.2013

ÞHS


mbl.is Margir Bretar ánægðir með dóminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Már

Góð samantekt hjá þér Þorsteinn, stiklað á stóru en flest kemur fram sem skiptir máli.

Það er skiljanlegt að ríkisstjórnin þurfti að sýna samningsvilja í byrjun og trúlega hefði þetta ferli meira og minna átt sér stað óháð hverjir hefðu setið í ríkisstjórn, en það sem er mér óskiljanlegt er öll leyndin í byrjun þegar átti að lauma þessum skuldaklöfum í gegnum þingið og svo öll heiftin í gagnvart þeim sem ekki voru sammála og það að geta ekki unnt þjóðinni að segja sitt álit. Menn litu þetta tvennum augum, ég sjálfur var sannfærður að rétt var af okkur að hafna þessum samningum meðan öðrum þótti það vera lífsspursmál að þiggja það sem að okkur var rétt. Kannski er ég svona áhættufíkinn að þora að hlusta á hjartað í stað þess að láta mata mig á annara hræðsluáróðri, en eftir stendur sú spurning í hvaða klemmu voru Jóhanna og Steingrímur, afhverju mátti þetta ekki hafa sinn gang með meirihluta þjóðarviljans þótt tæpur væri, afhverju öll þessi gífulega reiði, meira að segja vildi stór hluti þjóðarinnar henda forsetanum út á hafsauga og töldu hann hættulegan lýðveldinu. Manni dettur helst í hug að búið hafi verið að rissa upp framtíðina fyrir Ísland með veru í EB og ráðamenn hreinlega heilaþvegnir að annaðhvort gerðum við það sem okkur væri sagt eða við gætum étið það sem úti frís um ókomin ár. Kannski dálítil einföldun en sannleikur þarf að koma fram fyrr en seinna því viðbrögð ýmissa ráðamanna jaðra við landráð og svik við réttlætið og það getum við ekki sætt okkur við.

Friðrik Már , 29.1.2013 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband