Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
19.6.2009 | 01:00
Öfugmæli og seintekinn lærdómur
"[Steingrímur] sagði að ákvæðin í samningunum væru algerlega hliðstæð ákvæðum, sem verði væntanlega í lánasamningum við hin Norðurlöndin. Halda menn að frændþjóðir okkar á Norðurlöndum fari að setja slík ákvæði inn í samning til að geta með krókaleiðum ásælst auðlindir Íslendinga?"
M.ö.o: af því við ætlum að endurtaka vitleysuna í næstu samningum þá hlýtur vitleysan í þessum samningi að vera í lagi! Þetta eru undarleg rök svo ekki sé meira sagt.
Hvaðan kemur fordæmið fyrir samningunum? Hvaðan koma fyrirmyndir að ákvæði 16.3:
"16.3 Waiver of sovereign immunity
Each of the Guarantee Fund and lceland consents generally to the issue of any process in connection with any Dispute and to the giving of any type of relief or remedy against it, including the making, enforcement or execution against any of its property or assets (regardless of its or their use or intended use) of any order or judgment. lf either the Guarantee Fund or lceland or any of their respective property or assets is or are entitled in any jurisdiction to any immunity from service of process or of other documents relating to any Dispute, or to any immunity from jurisdiction, suit, judgment, execution, attachment (whether before judgment, in aid of execution or otherwise) or other legal process, this is irrevocably waived to the fullest extent permitted by the law of that jurisdiction. Each of the Guarantee Fund and lceland also irrevocably agree not to claim any such immunity for themselves or their respective property or assets"
Hvaða vörn fyrir dómstólum heldur Steingrímur að þetta ákvæði gefi?
Slíkt gæti aðeins gerst handan þess, að öryggisákvæði samningsins hefðu ekki náð að leysa vandamálin, handan þess að dómsmál hefði tapast erlendis og handan þess, að íslenska ríkið væri komið á hliðina og nánast liðið undir lok sem réttarríki,"
Þetta er öryggisákvæðið (í hollenska samninginum):
"The Netherlands agrees that, if this paragraph 15 applies and lceland so requests, it will meet to discuss the situation and consider whether, and if so how, this Agreement should be amended to reflect the relevant change in circumstances."
M.ö.o. ef aðstæður breytast þá er Holland tilbúið að ræða hvort breyta þurfi þessum samningi. Ef þeir vilja ekki breyta neinu, þá breyta þeir engu. Ekki mikið öryggi í þessu öryggisákvæði. Ekki dugar að höfða dómsmál og reyna að verjast því Ísland hefur gefið upp allan rétt til þess að vera verja nokkrar eignir ríkisins fyrir hvaða dómstól sem vera kann. Réttarríkið Ísland hefur beðið verulegan hnekki sbr. þessa færslu hér og enginn vafi er á að íslenska ríkið hallast verulega á hliðina nú um stundir.
Er þetta staðalsamningur frá AGS?
Varðandi ummæli Árna:
Við sjáum [af] þróun undanfarinna vikna, að við hefðum getað hagað upplýsingagjöf með öðrum hætti. Nú er mikilvægt, að við veltum við hverjum steini og róum fyrir hverja vík til að kanna þetta mál til hlítar,"
Árni er búinn að gleyma Búsáhaldabyltingunni og kröfunni um að allt væri uppi á borðinu. Hann man tvær vikur aftur að þá átti að fá Alþingi til að samþykkja samning af óhugnanlegri stærðargráðu ÁN ÞESS AÐ NOKKUR ÞINGMAÐUR FENGI AÐ SJÁ SAMNINGINN! og að það gæti hafa verið kostur í stöðunni að haga upplýsingagjöf á annan máta.
Ömurlegt!
Enginn sýnt fram á að samningurinn stofni Íslandi í hættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.6.2009 | 18:12
Örþrifaráð: áminning til stjórnmálamanna
Þetta er sorglegt en vel skiljanlegt. Þetta er staðan í dag. Fjölskyldur eru settar í gjaldþrot. Lánin á þær eru hækkuð upp úr öllu valdi og svo er mismunarlaust gengið á þær.
Björn Mikaelson var með húsið og lánin í einkahlutafélagi, en var í persónulegri ábyrgð. Þannig er það með venjulegt fólk, það þarf að gangast í ábyrgðir. Bankafólk er með sín lán í einkahlutafélagi en virðist ekki þurfa að ganga í persónulegar ábyrgðir. Skuldir þeirra eru bara felldar niður eða fyrirtækin gerð upp sem gjaldþrota ef því er að skipta. Viðkomandi halda sínum störfum í bönkunum og öðrum eignum. Sumir fá jafnvel stöðuhækkun, t.d. Finnur Sveinbjörnsson, núverandi bankastjóri Kaupþings: Slapp undan 850 milljóna króna kúluláni eða Birna Einarsdóttir. Aðrir fá sérstaka lánafyrirgreiðslu, t.d. Kúlulán Sigurjóns Þ. Árnasonar.
Það er væntanlega langt í það að við sjáum einhverja slíka lántakendur jafna húsið sitt við jörðu.
Vonandi verður þetta til að hreyfa við ráðandi öflum varðandi það að leiðrétta ranglætið sem fjölskyldur landsins eru beittar.
Hvaða örþrifa ráða munu þeir annars grípa til sem hafa engu að tapa, ranglætis að hefna og réttlætis að leita? Þeir skipta líklega tugum þúsunda?
Biður nágranna afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.6.2009 | 00:20
Hvernig gat FME litið framhjá þessu?
Í þessari frétt, Útlán of lítil, frá 19. maí 2008 segir Geir "að markaðurinn hafi nánast hætt útlánum til einkafyrirtækja og almennings".
Á sama tíma voru útlán bankanna að stóraukast með hraða sem ekki hafði sést áður:
"Um mitt ár 2007 voru heildarútlán Glitnis til viðskiptavina 1.571 milljarður króna. Í lok júní 2008 voru heildarútlánin 2.548 milljónir króna og höfðu því aukist um 60 prósent á einu ári." (Sjá frétt sem bloggað er við).
"Frá miðju ári 2007 þar til í lok júní síðastliðins jukust útlán Landsbankans til viðskiptavina alls um 1.004 milljarða króna, eða um 64 prósent." (Sjá Allir bankar lánuðu meira, 25.11.2008)
"Útlánasafn Landsbanka, Kaupþings og Glitnis óx um 3.541 milljarð króna frá júnílokum 2007 fram á mitt þetta ár. Hluti af hinum mikla vexti skýrist af gengisfalli krónunnar í byrjun þessa árs en raunaukning útlána var samt sem áður, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, um 1300 milljarðar króna. Á tímabilinu var mikil lausafjárkreppa í heiminum og margar lánalínur bankanna höfðu lokast." (Sjá Allir bankar lánuðu meira, 25.11.2008)
"Efnahagsreikningur Kaupþings var stærstur allra íslenskra banka. Útlán bankans námu 4.169 milljörðum króna um mitt þetta ár og höfðu þá aukist um rúma 1.500 milljarða króna á einu ári. Með teknu tilliti til gjaldmiðilssveiflna uxu útlán Kaupþings um rúma 550 milljarða króna, eða 21,2 prósent á tímabilinu." (Sjá Allir bankar lánuðu meira, 25.11.2008)
Útlán bankanna stórjukust frá miðju ári 2007 (áður en gengið fór að síga verulega sem byrjaði í janúar 2008 og tók stökk í mars og sept/okt sama ár) og fram að hruni. En útlán jukust ekki til almennra fyrirtækja og almennings heldur til eigenda bankanna sem voru að sækja til íslensku bankanna fé rétt fyrir lokun enda búið að loka á þá erlendis. Lélegum veðum var skóflað heim og fengin lán án þess að nokkur möguleiki væri á því að þau fengjust borguð. Þessi lélegu veð eru núna meðal þess sem á að borga IceSave reikninginn.
Og FME sagði ekki neitt. Og Geir hélt að bankarnir væru nánast hættir útlánum.
Þetta gerist á sama tíma og Seðlabankinn segist hafa verið að vara við yfirvoðandi kerfishættu. Í stað þess að í það minnsta að stöðva útlánaaukningu þá var upphaldið þeirri blekkingu að útlánaaukning væri stöðvuð (markaðurinn hættur að lána) á sama tíma og allt var gefið í botn til að ná sem mestu út úr bönkunum.
Hvers vegna var þetta ekki stoppað? T.d. með kröfu frá SÍ um hærri bindiskyldu? Eða aðhaldi frá FME? Vissi Geir virkilega ekki betur? Réðu menn ekkert við bankana? Hver blekkti hvern?
Stóraukning útlána til FL | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.6.2009 | 11:04
ESB ólyfjanin
Þessi umræða um að við verðum að sækja um aðilda að ESB til að sjá hvað við fáum er í besta falli skrítin en þó líklegar villandi og í versta falli lævís og hættuleg blekking.
ESB er ekki óþekkt stærð þótt vissulega sé bandalagið að þróast og skiptar skoðanir innan þess um hverng það á að þróast. Sáttmálar og stefnur, stjórnskipulag og uppbygging er allt skilgreint og liggur fyrir. Staða aðildarríkja er skilgreind og umræður um hvernig sú staða þróast er þekkt. Það er alveg ljóst hvað felst í aðild og hvaða undanþágur eru leyfðar til skemmri tíma og hvað ekki. Það er líka ljóst að til lengri tima litið er undanþágum fækkað og stefnt að meiri samruna: Bandaríkjum Evrópu. Ef ekki eftir 10 ár, þá 20 eða 50.
Þó er reynt að selja fólki þá hugmynd að sækja verði um til að fá að vita hvað sé í pakkanum. Væntanlega í trausti þess að fæstir hafa kynnt sér innihaldslýsinguna sem liggur fyrir.
Þetta er eins og sölumennska á eiturlyfjum. Menn verða að prófa, a.m.k. einu sinni til að finna áhrifin og sjá hvort mönnum líki ekki. Það eru alls ekki allir sem ánetjast og þetta er alls ekki eins hættulegt og af er látið. Og víman er ólýsanleg!
Það breytir ekki þeirri staðreynd að ef einu sinni fallinn þá er engin leið til baka.
Hræðsluáróður hjá mér: Já, vissulega enda full ástæða til. Ég óttast aðild að ESB og myntbandalagið.
Ég óttast hægfara stöðnun og hnignun alls landsins líkt og við höfum séð á landsbyggðinni miðað við höfuðborgarsvæðið, en landsbyggðin hefur einmitt verið í myntbandalagi við höfuðborgarsvæðið um lengri tíma.
Við megum ekki ánetjast.
58 prósent fylgjandi ESB-viðræðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.6.2009 | 22:38
Hvaðan étur Mbl upp vitleysurnar
Eins og bent hefur verið á er þessi frétt röng. Ekki í fyrsta skiptið sem Mbl fer með rangt mál. Hvaðan kemur þessi fyrirsögn sem Mbl er með? Hverjar eru heimildirnar? Er Mbl enn og einu sinni að éta upp vafasamar fréttatilkynningar frá hagsmunaaðilum eða eru þeir að misskilja enskuna?
Langt er síðan Bandaríkjamenn hófu að breyta hliðrænum sendingum (í loftnet) í stafrænar sendingar í loftnet. Þannig má 5 falda notkun á tíðnisviði, þ.e.a.s. fimm falda fjölda rása miðað við sama tíðnisvið. Nú mun síðustu útsendingum á hliðrænum merkjum hætta og þar með verða allar útsendingar í lofnet stafrænar í Bandaríkjunum. Á Íslandi sendir Stöð 2 út stafrænt, en RÚV hliðrænt.
Betri nýting á tíðnisviði í Bandaríkjunum verður notuð til að fjölga rásum, en einnig til að losa hluta tíðnisviðsins til notkunar í annað en sjónvarpsútsendingar.
Rétt fyrirsögn gæti verið: Loftnetssjónvarpið uppfært.
Sjá: http://hraunfoss.fcc.gov/edocs_public/attachmatch/DOC-291377A1.pdf
Loftnetssjónvarpið uppfært | |
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana. |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.6.2009 | 10:32
Ég vil enn á ný vekja athygli á ábyrgð endurskoðenda
Ég vil vekja athygli á eftirfarandi atriði í skýrslu Kaarlo Jännäri. Í kafla 9. "Other issues" er fjallað um mál sem ekki falla undir það sem hann rannsakaði. Eða eins og hann segir:
"Several issues that have relevance to the supervisory and regulatory framework in Iceland are not addressed in detail in this report but are nonetheless worth mentioning and require attention"
Hér er steinn sem vert er að kíkja undir:
"The application and understanding of the requirements of the IFRS (International Financial Reporting Standards) should be mentioned."
Hér er verið að tala um reikniskilastaðla og hvernig þeir hafa verið (mis)notaðir hér á Íslandi til að sprengja upp efnahagsreikning og hagnað fyrirtækja. Hér er verið að tala um ábyrgð endurskoðenda. Hvernig þeir nota og hvernig þeir skilja IFRS.
Skilja íslenskir endurskoðendir ekki alþjóðlegu reikniskilastaðlana? Eða skilja þeir þá betur en aðrir og misnota þá?
Baugur kominn í þrot í mars 2008 og Kaupþing vissi af því | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.6.2009 | 17:29
Áskorun á Alþingi
Ég vil vekja athygli á eftirfarandi frétt á eFrettir.is: Lánasöfn Landsbankans verðlaus eða verðlítil
og einnig eftirfarandi bloggi Björns Bjarnasonar: Steingrímur J. leggur ICESAVE-skuldaklafann á þjóðina
Lesið sérstaklega athugasemd Kristrúnar Heimisdóttur lögfræðings og fyrrverandi aðstoðarmann Ingibjargar Sólrúnar meðan hún var utanríkisráðherra. Hún segir m.a.:
"Sumir hafa blandað ábyrgð á innistæðutryggingum saman við spurninguna um hvort beitingu breskra stjórnvalda á hryðjuverkalögum væri hægt að hnekkja fyrir breskum dómstólum. Þetta eru tvö aðskilin mál og fresturinn sem rann út 7. janúar varðaði ekkert ábyrgðina á Icesave innstæðum.
Staðreyndin er líka sú að ný ríkisstjórn sem við tók var gat hæglega snúið ákvörðunum fyrri ríkisstjórnarinnar um Icesave-samninga, hefði verið pólitískur vilji fyrir því. Forræði á Icesave-samningum hefur verið fjármálaráðherra í öllum ríkisstjórnum sem starfað hafa á þessum erfiða vetri og núverandi ráðherra og flokkur hans hefur sama frjálsa svigrúm til ákvarðana og aðrir höfðu á undan."
M.ö.o.
- Lánasafnið er lélegt og af einhverjum ástæðum er Alþingi og þjóð leynt upplýsingum um það
- Fresturinn 7. janúar skiptir engu varðandi IceSave málið.
- Ríkisstjórnin hefur frjálsar hendur og er ekki bundin af minnisblaði fyrrverandi fjármálaráðherra.
- Málið hastar ekki og einhverjar líkur eru á að stjórn Gordon Brown kunni að falla og okkur vilhallari aðilar í Bretlandi komist að völdum.
Þrátt fyrir þetta leggur Steingrímur þennan samning fyrir Alþingi til samþykktar og segist (ranglega) vera bundinn af fyrra samkomulagi. Samning sem kostar 3 milljónir á mannsbarn með lottómiða á vafasamar eignir. 15 milljóna reikning á hverja 5 manna fjölskyldu. Eignir sem ekki má upplýsa um hverjar eru nákvæmlega. Og um helmingur Alþingismanna hefur í hyggju að samþykkja þennan gjörning án þess að hafa allar upplýsingar á borðinu! Steingrímur sem hlaut kosningu fyrir að vera á móti einmitt þessum gjörningi. Hann svíkur kinnroðalaust kjósendur sína þótt hann sé ekki bundinn af gjörðum fyrri ríkistjórnar eins og Kristrún bendir á.
Ég skora á Alþingismenn að fara ekki í atkvæðagreiðslu um þetta mál nema að allar upplýsingar séu uppi á borði. Best væri að óska úttektar óháðra aðila á samninginum og eignunum á bakvið. E.t.v. að bíða og sjá hvort stjórn Gordon Brown falli og hvort ekki sé unnt að ná betri samningum eða fara dómstólaleið með gerðardómi. Ella að fella þennan samning því þótt ég vilji ekki útiloka að það sé fræðilegur möguleiki að þessi samningur sé það besta í stöðunni þá er það alls ekki augljóst miðað við þá leynd sem hvílir á upplýsingum um málið.
Afnema verður leyndarhyggjuna!
Blöskrar vinnubrögð Alþingis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.6.2009 | 08:27
Kostaboð
Feel like a banker. Support your own representative on Forbes 500, the most exclusive club ever!
Ríkistjórn Íslands kynnir einstakt tækifæri sem einungis hefur náðst eftir mikla og erfiða samninga við Breta og Hollendinga. Þetta er einstakt tækifæri, eða eins og Bretar segja: Once in a lifetime.
Fyrir einungis 3 milljóna skuldbindingu býðst Íslendingum núna einstakt tækifæri til að styrkja sinn frambjóðanda inn á Forbes 500 listann. Þetta skiptir miklu máli fyrir Íslendinga enda náðum við ekki manni inn á Öryggisráðslistann. Athugið: engin útborgun og fyrstu greiðslur einungis eftir 7 ár!
Það fylgja þessu ýmis fríðindi ... fyrir þá sem komast á listann. Munum Magna. Þetta er líka frábær landkynning fyrir Íslendinga.
Miðinn er jafnframt lottómiði sem gefur heppnum kaupendum kost á því að fá upphæðina (næstum alla) endurgreidda.
Koma svo Íslendingar. Kaupið miða. Einungis 3 milljónir á mannsbarn.
---
P.S. ef menn sjá fram á að ekki er unnt að borga lánið, þá hafa menn 7 ár til að koma sér úr landi og borga þá ekki neitt. Þú getur ekki tapað! Þetta er tilboð sem þú getur ekki hafnað!
Svona kjör hafa hingað til einungis boðist háttsettum bankamönnum. Nú hefur þú þetta einstaka tækifæri til að vera með.
Mín fjölskylda kaupir 15 milljóna stuðningsmiða fyrir veru Íslendinga inni á Forbes 500 listanum. Börnin mín eru farin að skilja að afleiðusamningar eru ekki sama og samningar með afleiðingar. We already feel like bankers! It's great!
Áfram Ísland!
Útlánin eiga að greiða Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.6.2009 | 08:28
Hvers vegna má ekki upplýsa um eignasafnið?
Eignir bankanna á Íslandi eru margvíslegar og ekki upp á marga fiska eins og fram hefur komið. Eignir í fyrirtækjum líkt og Teymi, Eimskip og fl. Þetta er langur listi og ljóst að greiðendur eru ekki borgunarmenn fyrir öllum sínum skuldum. Sumir tala um að 50-70% skulda (eigna bankanna) þurfi að afskrifa.
Um eignasafn Landsbankans erlendis er hins vegar ríkisleynd.
Ekki má upplýsa um samsetningu eignasafn Landsbankans erlendis. Þar gæti t.d. leynst krafa á eignarhaldsfélag West Ham, eða lán til Baugs. Ekki fæst mikið upp í þær kröfur, en við erum ýmsu vanir Íslendingar og þolum alveg að lesa um slík mál. Væntanlega eru þarna líka góðar eignir. E.t.v. lán til opinberra aðila í Bretlandi.
Hvers konar ægilegt leyndarmál geymir þetta eignasafn? Hvað getur verið svona ægilegt við það? Hverja eða hvað er verið að vernda með því að upplýsa ekki um eignasafnið? Byggir verðmæti eignasafnsins á því að um það sé leynd og ef svo er, hvers vegna?
Sjá einnig þennan pistil: Alþingi og þjóðina þarf að upplýsa
Hagkerfið kemst í skjól | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.6.2009 | 01:00
Alþingi og þjóðina þarf að upplýsa
Mér þykir ekki að Alþingi hvað þá almenningur hafi fengið nægjanlegar upplýsingar um málið enn.
Eins og ég skil þetta þá byggja Hollendingar og Bretar sína kröfu á því að ekki megi mismuna þegnum EES þegar kemur að björgun innistæðueigenda. M.ö.o. að neyðarlögin sem Seðlabankinn undirbjó í marga mánuði fyrir hrun með vitneskju Geirs og Ingibjargar og með aðstoð erlendra ráðgjafa - þessi lög sem var kippt fram tilbúnum þegar hrunið varð til skyndisamþykkis á Alþingi af ráðvilltum þingmönnum - að þessi neyðarlög standist ekki löggjöf EES.
Af því að íslenska ríkisstjórnin kaus að bjarga eign þegnum í mikilli neyð sem á sér ekki fordæmi í heimssögunni, þ.e.a.s. algjöru hruni alls bankakerfis landsins, þá verði íslenska ríkisstjórnin líka að bjarga erlendum þegnum úr sömu klemmu.
Þetta hefur ekki komið nægjanlega skírt fram (þótt margt hafi verið sagt) og ekki hefur heldur legið fyrir hvort viðurkenning Geirs og Ingibjargar á að Íslendingar eigi að borga fyrir IceSave sé jafnframt viðurkenning á þessari lagatúlkun Breta og Hollendinga og hafi jafnvel verið þvinguð fram án möguleika á úrskurði dómstóla.
Nokkrar spurningar: Er vafi um þessa lagatúlkun? Eru neyðarlögin ólögleg? Er ekki neitt til sem heitir neyðarréttur? Var SÍ og erlendir ráðgjafar á villigötum og hvar liggur þá ábyrgðin? Glötuðu Íslendingar einhverjum rétti með samþykkt Geirs og Ingibjargar eða með móttöku AGS lánsins? Glötuðu Íslendingar rétti með því að láta fresti til andmæla líða hjá? Hafa Íslendingar verið beygðir undir kúgunarvald til að afsala sér dómstólaleið?
Þetta eru bara nokkrar spurningar sem vakna og ekki hefur komið óyggjandi svar við þótt ýmislegt hafi verið sagt.
Ég vil fá opinbera skýrslu frá stjórnvöldum sem skýrir afstöðu Íslendinga, afstöðu Breta og Hollendinga, orsakasamhengi og afleiðingum. Einnig hvers vegna menn vilja ekki fara dómstólaleiðina.
Einnig vil ég benda á annað. Innistæðueigendur eru LÁNVEITENDUR bankanna og eiga kröfu í þrotabúið eins og aðrir lánveitendur (t.d. aðrir bankar). Vissulega eru innistæðutryggingar fyrir innistæðueigendur, en þar voru bara 19 milljarðar til skiptanna. Þegar bankarnir fóru á hausinn þá var lánveitendum eiginlega skipt í þrjá hópa og mismunað með neyðarlögunum: íslenska innistæðueigendur (fengu allt bætt + megnið að peningamarkaðsspilafé sínu), erlenda innistæðueigendur (sem máttu eiga þessar 19 milljónir upp í 700 milljarða kröfuna), erlenda banka (sem máttu éta það sem úti frýs).
Nú liggur fyrir að erlendu innistæðueigendurnir fá líka upp í sínar kröfur. Hvað þá með þriðja hópinn? Mun hann krefjast bóta líka? Þar liggja þúsundir milljarða óbættir hjá garði? Mér þykir það reyndar ólíklegt að erlendir bankar geti gert slíka kröfu, en ég vil fá rökstutt svar þeirra sem til þekkja.
Loks vil ég benda á eitt í viðbótar: Mér skilst að erlendu innistæðueigendurnir séu að fá bætur upp að lágmarksupphæð innistæðutryggingar. M.ö.o. þá felur samkomulagið í sér viðurkenningu Breta og Hollendinga á því að mismuna megi þegnunum: Íslendingar fá 100%, hinir fá upp að lágmarksupphæð. Þessi niðurstaða er vissulega eftir samninga og einhverjir geta sagt að það sé það sem við græðum. Þ.e.a.s. að Bretar og Hollendingar gefa eftir og taka þá á sig mismuninn í stað þess að innheimta að fullu 100% bætur.
E.t.v. er þessi samningur sem nú er verið að deila um nauðsynlegur og það besta í stöðunni þótt harður sé. En ég vil vita hvort hann er til kominn vegna ótvíræðrar lagaskyldu, klúðurs (sem bjó til lagaskyldu), undanlátssemi eða kúgunnar.
Ef hið fyrsta er tilfellið, þá verður svo að vera þótt súrt sé. Ef um klúður er að ræða, þá verðum við líka að samþykkja, en ég vil að menn séu dregnir til ábyrgðar. Ef um undanlátssemi er að ræða, þá kemur það ekki til mála. Kúgun: Aldrei.
Bíðum með samþykki þar til þetta liggur klárt fyrir. Alþingi VERÐUR að gefa sér tíma til að fara í saumana á þessu mál.
Hugsanleg Icesave mótmæli á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |