Alþingi og þjóðina þarf að upplýsa

Mér þykir ekki að Alþingi hvað þá almenningur hafi fengið nægjanlegar upplýsingar um málið enn.

Eins og ég skil þetta þá byggja Hollendingar og Bretar sína kröfu á því að ekki megi mismuna þegnum EES þegar kemur að björgun innistæðueigenda. M.ö.o. að neyðarlögin sem Seðlabankinn undirbjó í marga mánuði fyrir hrun með vitneskju Geirs og Ingibjargar og með aðstoð erlendra ráðgjafa - þessi lög sem var kippt fram tilbúnum þegar hrunið varð til skyndisamþykkis á Alþingi af ráðvilltum þingmönnum - að þessi neyðarlög standist ekki löggjöf EES.

Af því að íslenska ríkisstjórnin kaus að bjarga eign þegnum í mikilli neyð sem á sér ekki fordæmi í heimssögunni, þ.e.a.s. algjöru hruni alls bankakerfis landsins, þá verði íslenska ríkisstjórnin líka að bjarga erlendum þegnum úr sömu klemmu.

Þetta hefur ekki komið nægjanlega skírt fram (þótt margt hafi verið sagt) og ekki hefur heldur legið fyrir hvort viðurkenning Geirs og Ingibjargar á að Íslendingar eigi að borga fyrir IceSave sé jafnframt viðurkenning á þessari lagatúlkun Breta og Hollendinga og hafi jafnvel verið þvinguð fram án möguleika á úrskurði dómstóla.

Nokkrar spurningar: Er vafi um þessa lagatúlkun? Eru neyðarlögin ólögleg? Er ekki neitt til sem heitir neyðarréttur? Var SÍ og erlendir ráðgjafar á villigötum og hvar liggur þá ábyrgðin? Glötuðu Íslendingar einhverjum rétti með samþykkt Geirs og Ingibjargar eða með móttöku AGS lánsins? Glötuðu Íslendingar rétti með því að láta fresti til andmæla líða hjá? Hafa Íslendingar verið beygðir undir kúgunarvald til að afsala sér dómstólaleið?

Þetta eru bara nokkrar spurningar sem vakna og ekki hefur komið óyggjandi svar við þótt ýmislegt hafi verið sagt.

Ég vil fá opinbera skýrslu frá stjórnvöldum sem skýrir afstöðu Íslendinga, afstöðu Breta og Hollendinga, orsakasamhengi og afleiðingum. Einnig hvers vegna menn vilja ekki fara dómstólaleiðina.

Einnig vil ég benda á annað. Innistæðueigendur eru LÁNVEITENDUR bankanna og eiga kröfu í þrotabúið eins og aðrir lánveitendur (t.d. aðrir bankar). Vissulega eru innistæðutryggingar fyrir innistæðueigendur, en þar voru bara 19 milljarðar til skiptanna. Þegar bankarnir fóru á hausinn þá var lánveitendum eiginlega skipt í þrjá hópa og mismunað með neyðarlögunum: íslenska innistæðueigendur (fengu allt bætt + megnið að peningamarkaðsspilafé sínu), erlenda innistæðueigendur (sem máttu eiga þessar 19 milljónir upp í 700 milljarða kröfuna), erlenda banka (sem máttu éta það sem úti frýs).

Nú liggur fyrir að erlendu innistæðueigendurnir fá líka upp í sínar kröfur. Hvað þá með þriðja hópinn? Mun hann krefjast bóta líka? Þar liggja þúsundir milljarða óbættir hjá garði? Mér þykir það reyndar ólíklegt að erlendir bankar geti gert slíka kröfu, en ég vil fá rökstutt svar þeirra sem til þekkja.

Loks vil ég benda á eitt í viðbótar: Mér skilst að erlendu innistæðueigendurnir séu að fá bætur upp að lágmarksupphæð innistæðutryggingar. M.ö.o. þá felur samkomulagið í sér viðurkenningu Breta og Hollendinga á því að mismuna megi þegnunum: Íslendingar fá 100%, hinir fá upp að lágmarksupphæð. Þessi niðurstaða er vissulega eftir samninga og einhverjir geta sagt að það sé það sem við græðum. Þ.e.a.s. að Bretar og Hollendingar gefa eftir og taka þá á sig mismuninn í stað þess að innheimta að fullu 100% bætur.

E.t.v. er þessi samningur sem nú er verið að deila um nauðsynlegur og það besta í stöðunni þótt harður sé. En ég vil vita hvort hann er til kominn vegna ótvíræðrar lagaskyldu, klúðurs (sem bjó til lagaskyldu), undanlátssemi eða kúgunnar.

Ef hið fyrsta er tilfellið, þá verður svo að vera þótt súrt sé. Ef um klúður er að ræða, þá verðum við líka að samþykkja, en ég vil að menn séu dregnir til ábyrgðar. Ef um undanlátssemi er að ræða, þá kemur það ekki til mála. Kúgun: Aldrei.

Bíðum með samþykki þar til þetta liggur klárt fyrir. Alþingi VERÐUR að gefa sér tíma til að fara í saumana á þessu mál.


mbl.is Hugsanleg Icesave mótmæli á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband