Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
28.1.2009 | 11:38
Gangverk svindlsins
Viðskipti með hlutabréf (eða fasteignir eða kvóta) eiga sér stað á einhverju gengi sem tekið er sem markaðsvirði sem er lagt til grundvallar sem gangvirði í efnahagsreikningi (ef aðilar eru skyldir þá verður að meta gangvirðið með öðrum aðferðum).
Svindlkerfið er svona:
- Leynt eignarhald falskaupmanns til að blekkja utanaðkomandi (og veita endurskoðendum skálkaskjól) sem eru látnir halda að um óskylda aðila sé að ræða
- Ofmat á eignum byggt á meintu markaðsvirði (sem er tilkomið vegna eigin viðskipta eigenda) sem svo er tekið sem gangvirði á eignum á efnahagsreikningi
- Endurskoðendur samþykkja (eða ákveða) matið (þ.e.a.s. nota markaðsverð sem viðmið fyrir gangvirði) þótt það sé ekki rétt þar sem um skylda aðila var að ræða
- Bankar taka matið gilt sem gangvirði og veita lán gegn veði í viðkomandi eign
- Bankar bera tapið sem er falið í bókhaldi eða fara á hausinn þegar upp kemst að eignirnar voru ofmetnar. Lítið fæst upp í kröfur enda efnahagsreikningur og hagnaður ýktur og innistæðulaus.
Þetta hefur ekkert með galla markaðshagkerfis að gera. Þetta hefur allt með markaðsmisnotkun að gera. Eftirlitsaðilar (endurskoðendur, bankar og FME brugðust) og löggjöfin (sem er alþjóðleg) er of slöpp. Verja þarf markaðshagkerfið betur fyrir svona svindli.
28.1.2009 | 09:52
Endurskoðendur og falskaupmenn
Íslenska efnahagsundrið virðist hafa verið keyrt áfram af falskaupmönnum (sjá færslu fyrri færslu mína) og endurskoðendur, eftirlitsstofnanir og bankarnir brugðist eftirlitshlutverki sínu. Reyndar virðast endurskoðendur og bankar hafa tekið virkan þátt með falskaupmönnunum. Meðvirknin felst í því að styðja við eða samþykkja ofmat á eignum sem svo eru teknar sem veð fyrir lánum.
Hér er hlutur endurskoðenda athygliverður (FME er að ganga í endurnýjun og bankarnir að hluta líka svo ég tala ekki um þá hér) en þeir hafa hingað til sloppið nokkuð vel frá gagnrýni. Þannig eru stóru endurskoðunarfyrirtækin sem endurskoðuðu bankana ennþá á fullu við að endurskoða þá þótt þeir hafi skipt um banka. Þetta er væntanlega ekki svo stór hópur fólks sem hefur gengið í sömu skóla og þekkist jafnvel ágætlega innbyrðis. Þeir hafa e.t.v. í mörgum tilfellum verið virkir sem ráðgjafar til falskaupmannanna líka og aðstoðað við stofnun eignarhaldafélaga til að fela eignartengsl.
Falin eignartengsl eru einmitt mikilvægur hluti í markaðsmisnotkun í þeim tilgangi að keyra upp markaðsverð eða ýkja verðmat á eignum falskaupmanna. Þannig geta endurskoðendur sem skoða kaup óþekkts aðila látið eins og hann sé óskyldur eigendum og verðið í viðskiptunum því marktækt sem markaðsvirði og þar með gangvirði fyrirtækisins. Ef um skylda aðila væri að ræða yrðu þeir að beita öðrum (og flóknari) aðferðum við verðmat.
Falið eignarhald er því mikilvægt til að endurskoðendur geti sett kíkinn fyrir blinda augað og látið eins og allt sé í lagi og verðmatið hátt. Þeir skrifa undir verðmatið og falskaupmaðurinn fer í bankann og fær lán út á veð í eigninni.
Mikilvægt er í uppgjörinu sem nú er í gangi að endurmeta allar eignir miðað við forsendur á þeim tíma sem viðskipti með þær fóru fram. Þar skiptir öllu að nota ekki markaðsvirði blint heldur meta gangvirði út frá væntum framtíðar afrakstri eða öðrum aðferðum. Ef misræmi er umfram eðlileg skekkjumörk, t.d. 10%, þá er ætti það að vekja grun um markaðsmisnotkun. Eru einhverjar líkur á því að endurskoðendur finni þá villu hjá sjálfum sér eða félögum sínum? Eða munu þeir áfram miða við markaðsvirði í viðskiptum óskyldra aðila?
![]() |
Milljarðalán skömmu fyrir hrun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2009 | 09:14
Falskaupmenn
Það er oft talað um fjárfesta og spákaupmenn sem þá hópa sem versla á hlutabréfamarkaði. Ég tel réttara að tala um þrjá hópa og bæti við falskaupmönnum.
Fjárfestar
Þeir sem fjárfesta raunverulegt fjármagn eða verðmæti í uppbyggingu fyrirtækis til lengri tíma með það í huga að hljóta ávinning af rekstri og verðmætasköpun fyrirtækisins
Spákaupmenn
Þeir sem fjárfesta raunverulegt fjármagn eða verðmæti í fyrirtæki til skamms tíma með það í huga að hljóta ávinning af hækkun (eða lækkun) verðs. Spákaupmenn stuðla að því að markaðsvirði nálgist gangvirði og halda þannig uppi virkri verðmyndun.
Falskaupmenn
Þeir sem fjárfesta ímyndað fjármagn (þ.e.a.s. án þess að leggja fram eigið fé að neinu marki) í fyrirtæki með það í huga að hljóta ávinning af hækkun (eða lækkun) verðs. Veð er oft allt að 100% í fyrirtækinu sem fjárfest er í. Þessir aðilar fela oft eignarhald og beita leynd og markaðsmisnotkun til að hækka verðmat á fyrirtækjunum með það í huga að búa til meira veðrými til að sækja raunfjármagn til banka. Falskaupmenn fara oft hratt um með mjög stórum fjárfestingum í gegnum flókið net eignarhaldsfyrirtækja sem oft eru í skattaparadísum og eignarhald er ekki vitað um. Bankarnir tapa þegar veðin reynast verðlítil. Falskaupmenn eru stórhættulegir efnahagslífi hvers lands og valda ójafnvægi og óhagkvæmni í viðskiptalífinu, þar sem heilbrigður rekstur er ekki grundvöllur starfsemi þeirra heldur rangmat á eignum á efnahagsreikningum og fjárdráttur úr bankakerfum. Endurskoðendur, opinberar eftirlitsstofnanir og bankarnir sjálfir eiga að sinna eftirliti til að koma í veg fyrir að falskaupmenn nái sínu fram.
26.1.2009 | 14:28
Trommubyltingin tókst
![]() |
Stjórnarsamstarfi lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 09:28
Réttlætisgjáin
Megn óánægja er í þjóðfélaginu með það óréttlæti að þjóðin skuli þurfa að bera byrðarnar meðan hinir nýríku útrásarvíkingar sem flestir virðast sammála um að eru höfuðorsakavaldar íslensku kreppunnar eru enn ríkir þótt auður þeirra hafi vissulega dregist saman. Nýríku Íslendingarnir, eins og svo margir slíkir erlendis líka, urðu ofurríkir fyrst og fremst vegna tilfæringa á efnahagsreikningi fyrirtækja en ekki afreka í rekstri. Tilfæringa sem ásamt markaðsmisnotkun töfruðu fram hagnað og eignir úr engu. Verðbólgupeninga sem bankarnir síðan veittu lán út á. Lán sem nú er ekki hægt að innheimta því aldrei var raunveruleg eign á bakvið veðin.
Mótmælin á götum og strætum eru líklega fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnin virðist ekki vera að gera það sem þarf til að brúa réttlætisgjána. Mótmælin eru einnig vegna þess að ríkistjórnin virðist ekki vera að gera nóg til að létt byrðum af heimilunum og fyrirtækjunum og vegna þess að ríkisstjórnin virðist ekki vera að segja sannleikann um alvarleika málsins. Hversu djúp verður kreppan? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að dreifa byrðunum? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að ná hinum seku og hinu illa fengna fé af þeim? Kerfið hefur sinn gang og aðferð sýslumannsins á Selfossi til að innheimta skuldir er bara sú sem kerfið notar. Hann er ekki ríkisstjórnin. Hann á að sjá til þess að kerfið sé skilvirkt og virki samkvæmt lögum og reglum. Hann á ekki að taka upp á því í sínu sjálfdæmi að sleppa því að innheimta skuldir. Það er ríkisstjórnin sem á að koma í veg fyrir að það ástand skapist að vinnandi og heiðarlegt fólk sé dregið fyrir sýslumann og gert alslaust. Það er á ábyrgð Alþingis og ríkisstjórnarinnar að breyta kerfinu ef það er óréttlátt.
26.1.2009 | 08:39
Trommubyltingin
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2009 | 12:14
Um neyðaraðstoð
Almenn aðferðarfræði fyrir þá sem koma á slysstað er að ganga fram á eftirfarandi máta:
- Tryggja öryggi og koma í veg fyrir frekari slys
- Óska eftir hjálp
- Sinna neyðaraðstoð
- Almenn aðstoð
Þetta eru atriðin sem þarf að sinna og í þessari röð. Þetta á við slys þar sem fólk skaðast, .t.d. bílslys.Ísland hefur lent í bankakreppu og gjaldeyriskreppu í kjölfarið. Við höfum lent í efnahagslegu slysi líkt og margar aðrar þjóðir. Nú vil ég ekki fullyrða að sama aðferðarfræði eigi við eða sama röð en þó má notast við þessa aðferðarfræði sem viðmið.
Við höfum kallað eftir hjálp (AGS=IMF), sinnt neyðaraðstoð (haldið rafræna greiðslukerfinu í gangi, stofnað nýja banka, komið á einhverjum gjaldeyrisviðskiptum) og erum núna að sinna almennri aðstoð þótt hægt gangi og ríkisstjórnin hafi ekki gert margt sýnilegt eða sem vegur mikið eða upplýst um það sem hún hefur gert og er að gera.
Við höfum ekki tekið á fyrsta atriðinu, þ.e.a.s. tryggt öryggi og komið í veg fyrir frekari slys. Þetta er líklega ein helsta ástæðan fyrir reiði almennings í garð ríkisstjórnarinnar.Helst má benda á umræðu um aðild að Evrópusambandinu og upptöku erlends gjaldmiðils, en það er í fyrsta lagi einungis viðbrögð við afleiðingum bankakreppunnar (þ.e.a.s. gjaldeyriskrepppunni) og auk þess einungis umræða, ekki aðgerðir.
Ekkert hefur verið gert varðandi rót vandans eða til að koma í veg fyrir að meinsemdin haldi áfram. Umræða um markaðsmisnotkun auðjöfra og banka ásamt umræðu um leynifélög (óþekktir eigendur) og grunsamlegar millifærslur er ómarkviss og rannsókn á þeim málum í höndum sömu aðila og fylla hugsanlegan hóp gerenda (eru undir grun), þ.e.a.s. bankastarfsmanna og endurskoðenda.
Hvers vegna hrundu bankarnir? Hvers vegna reynast eignir bankanna vera verðlausar (alþjóðlegt vandamál)? Hvers vegna fengu sumir lán fyrir ekki neitt raunverulegt veð? Hvers vegna komast menn upp með markaðsmisnotkun (koma í veg fyrir að starfsmenn selji hlutabréf, kaupa eigin bréf, fá leppa til að kaupa eigin bréf) til að halda uppi verði? Hvað er verið að gera til að tryggja að þetta endurtaki sig ekki? Hvað er verið að gera til að sækja þá seku og láta þá skila illa fengnu fé?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2009 | 11:06
Þjóð í sjálfsblekkingu
Umræðan á Íslandi nú snýst um mótmæli gegn ríkisstjórninni og þá lausn á vanda þjóðarinnar sem margir telja líklegasta til að hjálpa okkur, þ.e.a.s. það að ganga í Evrópusambandið. Fréttir berast frá Írlandi og Möltu þar sem fullyrt er að staðan væri enn verri ef löndin væru ekki í Evrópusambandinu. Lausnin fyrir okkur hlýtur því að vera sú að fara í Evrópusambandið... eða hvað?
Stjórnmálaflokkar endurskoða fyrri stefnur og hressa upp á afstöðu til Evrópusambandsins því sú stefna hefur pólitískan býr um þessar mundir. En bíðum nú við. Er ekki Írland einmitt líka í miklum vandræðum þrátt fyrir að vera í Evrópusambandinu og með evru. Eða Spánn? Og hvað með öll löndin sem eru í Evrópusambandinu en án evru? Eru þau ekki líka í vanda? Hvað með Kaliforníu, ríki (fylki) í Bandaríkjunum sem er með dollara? Er það ekki á barmi gjaldþrots?
Er það virkilega svo að rót vandans sé smár gjaldmiðill eða vera utan stærra ríkjasambands? Hrundi gjaldmiðillinn ofan á bankana eða bankarnir ofan á gjaldmiðilinn?
Við erum mitt í tveimur kreppum. Bankakreppu og gjaldeyriskreppu. Sú seinni er afleiðing af þeirri fyrri. Sú fyrri er ekki afleiðing af smáum gjaldmiðli þótt smár gjaldmiðill hafi takmarkað mögulegan vöxt banka. Bankar eru að hrynja á dollarsvæðum, evrusvæðum og víðar.
Rót vandans er því ekki gjaldeyriskreppan og lausnin því ekki útskipting gjaldmiðilsins eða innganga í Evrópusambandið. Rót vandans verður að leita í orsökum bankakreppunnar. Líklega sama orsök hér á landi sem og erlendis þótt hlutföll geti verið önnur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2009 | 09:23
Pælingar um nafnleysi
Í mótmælum undanfarna daga hefur fámennur hópur, að því er virðist ungs fólks, hulið andlit sitt. Af einhverjum ástæðum telja þessir aðilar að það sé annað hvort nauðsynlegt eða þá sniðugt tjáningar- eða merkingaratriði að vera óþekkjanlegir, nafnlausir.
Tilgangur nafnleysis er að verja viðkomandi aðila gagnvart áreiti að einhverju því tagi sem viðkomandi vill láta verja sig fyrir og í mörgum tilfellum er nafnleysi nauðsynlegt og vel viðeigandi. Nafnleysi gerir viðkomandi ósnertanlegan. En nafnleysi er ekki ókeypis. Viðkomandi er ósnertanlegur og því einnig ábyrgðarlaus. Ábyrgð er það að vera opinn fyrir áreiti og jafnvel þannig að áreitið hafi áhrif á það hvernig viðkomandi hagar lífi sínu.
Dagleg samskipti fólks byggjast yfirleitt á því að viðkomandi hafa andlit eða nafn til auðkenningar og við það skapast nauðsynlegt traust í samskiptunum. Í samfélagi manna fylgst yfirleitt að ábyrgð og áhrif. Þeir sem veljast til áhrifa veljast líka til ábyrgðar.
Hvenær á nafnleysi við?
Þetta snýst um ábyrgð. Nafnleysi gerir viðkomandi ábyrgðarlausan gagnvart þeim sem vilja láta hann sæta ábyrgð á einhverju sviði.
Ef samfélagsleg eða persónuleg sjónarmið vega það þungt að æskilegt sé að firra fólk ábyrgð er æskilegt að nota nafnleysi. Annars er grundvallarreglan sú að sérhver ber ábyrgð á sínum aðgerðum.
Dæmi.
Í lýðræðislegum kosningum er mikilvægt að hlutleysis sé gætt, þ.e.a.s. að kjósendur séu ekki látnir sæta ábyrgð gagnvart einhverjum vegna atkvæðis síns. Því eru hlutlausar kosningar nafnlausar þótt kjósandi sé þekktur kjörstjórn. Í þessu samhengi er vert að benda á að kosningar í þingsölum eru ekki nafnlausar því þingmenn eiga að bera ábyrgð á sínu atkvæði gagnvar þjóðinni sem þeir eru fulltrúar fyrir. Þessu fylgir sá annmarki að hagsmunahópar (t.d. stjórnmálaflokkar) geta haft áhrif á það hvernig þingmenn kjósa. Það er talið betra heldur en að þingmenn beri ekki ábyrgð gagnvart þjóðinni, enda reyndar flestir kosnir á þing innan raða stjórnmálaflokka.
Uppljóstrarar eru oft nafnlausir. Þetta er nauðsynlegt til að verja þá.
Skoðanir eru oft settar fram án nafns. Þetta kann einnig að vera æskilegt til að tryggja frjáls skoðanaskipti.
Þegar sótt er um störf er oft óskað nafnleyndar. Þegar sótt er um opinber störf á þetta reyndar ekki við. Þannig er birtur listi umsækjanda um opinber embætti. Þessi skortur á nafnleysi fælir marga frá því að sækja um enda kann það að hafa slæm áhrif á frama viðkomandi hjá hans fyrirtæki ef upp kemst að hann sækist eftir starfi annars staðar.
Viðskiptajöfrar óska stundum eftir nafnleysi.
Andófsmenn óska stundum eftir nafnleysi og hylja andlit sín.
Glæpamenn óska yfirleitt eftir nafnleysi og hylja andlit sín.
Við skulum skoða aðeins síðustu þrjú dæmin.
Mikið hefur verið rætt um dulið eignarhald fyrirtækja og fjölmiðla á Íslandi. Þannig virðis það hafa orðið mjög algengt á síðustu árum að stofnuð eru eignarhaldsfélög, oft á erlendri grund, það sem eignarhald er óþekkt og ekki unnt að afla upplýsinga um það. Þessi eignarhaldsfyrirtæki eru síðan virk í eignatöku í Íslenskum fyrirtækjum. Einnig er virðist það orðið algengt að notaðir eru leppar. Þ.e.a.s. að sá sem er skráður fyrir stöðu eða eignarhaldi er í raun ekki sá sem ræður eða á, heldur leppur fyrir annan og þiggur greiðslu fyrir. Er þetta æskileg þróun og er þetta nauðsynlegt fyrir viðkomandi nafnlausu aðilana? Fyrir hverju eru þeir að verja sig? Á slík nafnleynd rétt á sér og þá hvers vegna? Ef svo er, er þá t.d. rétt að takmarka hana þannig að ef nafnleynd ríkir þá megi viðkomandi ekki eiga fulltrúa í stjórn eða beita atkvæði á hluthafafundi í almenningshlutafélagi? (Slíkt kann að vera flókið í framkvæmd).
Andófsmenn í einræðisríkjum fela oft andlit sín þar sem þeir njóta engrar verndar réttarríkis til þess að tjá skoðanir sínar. Andófsmenn í réttarríkjum fela andlit sín eða nöfn til að verja sig fyrir áreiti, t.d. frá almenningi, atvinnuveitanda eða jafnvel stjórnvöldum sem þau bera ekki traust til og draga þar með í efa vörn réttarríkisins. Réttarríki þar sem andófsmenn telja sig þurf að fela andlit sín þarf að skoða ástæður þess og hvort betrumbæta þurfi á einhvern hátt réttarvörn andófsmanna. Er Ísland réttarríki? Er nauðsynlegt fyrir hluta mótmótanda að hylja andlit sín? Hvers vegna? Fyrir hverju eru þeir að verja sig? Geta nafnlausir andófsmenn náð árangri? Varðandi síðasta atriðið þá tel ég að svarið sé nei. Þeir geta haft áhrif í þá veru að við andófi þeirra verður brugðist, en þeir hafa enga stjórn á þeim viðbrögðum og ná því ekki árangri. Eina undantekningin er sú ef þeir styðja nefnda aðila sem fulltrúa eða ef þeir verða svo margir að þeir geta með ofbeldi knúið fram breytingar sem þeim eru að skapi.
Glæpamenn hafa engan rétt til þess að hylja andlit sín gagnvart réttlætinu. Þeir hafa hins vegar oft rétt til að fela sig gagnvart almenningi sem vill taka réttlætið í sínar hendur.
Skilin milli andófsmanna og glæpamanna eru oft óljós, en þó má búa til ákveðin viðmið. Þeir sem vilja skemma og meiða eru glæpamenn. Þeir sem vilja breyta og laga eru andófsmenn. Andófsmenn sem verða fyrir skerðingu á tjáningarfrelsi eða hindraðir frá því að nota lýðræði eða dómstóla til að ná fram áhrifum mega grípa til varna og jafnvel ofbeldis. Þetta á við í óréttarríkjum. Ísland er ekki óréttarríki, heldur lýðræðisríki og réttarríki þar sem tjáningarfrelsi er virt og mikið notað og skoðanafrelsi ríkir. Ekki má mismuna fólki vegna skoðana og t.d. má ekki segja fólki upp eða hindra frama þess innan fyrirtækja vegna skoðana. Andófsmenn á Íslandi hafa því enga ástæðu til að fela andlit sín. Nema þeir séu í raun glæpamenn. Viðskiptamenn sem eiga í fyrirtækjum og fjölmiðlum hafa heldur enga ástæðu til að fela sig. Nema þeir séu í raun glæpamenn líka eða hvað?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2009 | 00:47
Er verðbólgumælingin verðbólguhvetjandi?
Verðbólga er mæld með vísitölu neysluverðs en um hana gilda lög 12/1995 með breytingarlögum 27/2007. Lögin fela Hagstofu Íslands útreikning miðað við verðlag í hverjum mánuði á vörum í grunni sem Hagstofan ákveður þar sem vægi hverrar vöru er fundið út frá neyslukönnun. Sú neyslukönnun fer fram eigi sjaldnar en á fimm ára fresti, en er nú gerð árlega og uppfært í mars.
Í skýrslu Rósmunds Guðnasonar hjá Hagstofu Íslands (Hvernig mælum við verðbólgu? Fjármálatíðindi 51. árgangur fyrra hefti 2004, bls. 43) má lesa:
Neytendur bregðast við og ef þeir kaupa sömu vörur annars staðar, á lægra verði, þarf að taka tillit til þess í vísitöluútreikningi annars verður bjagi vegna innkaupa heimila í vísitölunni (e. shopping substitution bias). Hingað til hefur ekki verið hægt að fylgjast með slíkum breytingum vegna þess að upplýsingar skortir og slíkur bjagi er oftast nefndur bjagi vegna staðkvæmni verslana (e. outlet substitution bias). Umræða um þessa tegund bjaga hefur ekki verið mikil að umfangi alþjóðlega og leiðréttingar á vísitölum vegna þessa heyra til undantekninga.
Þegar ekkert tillit er tekið til breytinga á staðkvæmni heimilisinnkaupa í neysluvísitölum er gert ráð fyrir að allur verðmunur sem er á milli verslana stafi af því að þjónusta þeirra sé mismunandi að gæðum. Sé það gert mælist engin verðbreyting í vísitölum þegar neytendur breyta innkaupum. Vanmat á gæðabreytingum vöru eða þjónustu leiðir til ofmats á verðbólgu. Slík hætta er mest þegar verðbólga eykst snöggt og innkaup heimila breytast mikið.
Afleiðing af röngum forsendum útreiknings vísitölu neysluverðs er eignaupptaka og stangast því að öllum líkum á við stjórnarskrá. Hér er verkefni fyrir lögfræðinga að spreyta sig.
Hér skal gerð tilraun til að sýna hve mikið er í húfi. Fram hefur komið fram að hvert íslenskt skuldar að meðaltali um 10 milljónir verðtryggðra króna. Hvert prósentustig í verðbólgu á ári kostar því um 100.000 krónur í hækkuðum höfuðstól. Gengi íslensku krónunnar hefur fallið og valdið um 70% hækkun erlends gjaldmiðils frá byrjun árs.
Tölur um innflutning sýna ekki sérstaklega stökk til samræmis við gengi á sama tíma sbr. með-fylgjandi mynd sem sýnir FOB verðmæti innflutnings. Reyndar hefur innflutningur einungis aukist um 22% mælt í íslenskum krónum það sem af er ári. Athyglivert er að á tímabilinu ágúst til nóvember er innflutningur ekki nema um 20% meiri en árið áður þrátt fyrir um 70% hækkun erlends gjaldmiðils. Mismunurinn er samdráttur í neyslu á innfluttum vörum. Þessi samdráttur ætti að hafa áhrif til lækkunar þegar vísitala neyslu er reiknuð, en gerir það ekki samkvæmt núverandi aðferðum við útreikninginn. Ef gert er ráð fyrir að innfluttar vörur séu um 40% af neyslu og að innlendur kostnaður standi að öðru leyti í stað, þá ætti 70% hækkun á vörunum að valda um 28% verðbólgu. Þetta er einmitt svipað og sú verðbólgan sem við sjáum að vísitalan er að mæla nú um stundir. En vegna samdráttar í innflutningi þá var hækkunin á innfluttum vörum í raun einungis um 20% sem ætti að valda um 8% verðbólgu. Mismunurinn er heil 20 prósentustig eða tvær milljónir á ársgrundvelli. Það þýðir líka um 200.000 í viðbótar afborganir á ári. Verðbólgan er því ýkt um meira en tvo þriðju.
Þessar tvær milljónir munu núna næstu mánuði leggjast ofan á 10 milljóna króna lán meðalheimilis vegna þess að verðbólga er sögð vera 28% þegar hún í raun er einungis 8%. Fyrir hverjar verðtryggðar tíu milljónir sem almenningur eða fyrirtæki skulda er þetta tveggja milljóna króna eignartilfærsla án réttlætingar í raunveruleikanum. Og til að gera dæmið enn verra þá taka ýmsir samningar, t.d. leigusamningar, launasamningar o.fl. mið af þeirri verðbólgu sem sögð er vera í landinu og hækkanir verða í kjölfarið í samræmi við þessa uppgefnu verðbólgu. Þar með verður verðbólgumælingin ekki mæling heldur spá sem lætur sjálfa sig rætast.
Vegna þessara áhrifa af neysluvísitölu er ljóst að það er ekki verðtryggingin sem er vandinn heldur vísitalan sjálf. Þótt verðtryggingin yrði aflögð myndi víxlverkun vísitölu og verðlags valda sama skaða.
Taka þarf að upp aðrar aðferðir til að meta verðbólgu. Aðferðir sem henta litlu þjóðfélagi með hvikult efnahagslíf. Núverandi aðferðir eru stórskaðlegar. T.d. má benda á áhrif vísitölunnar á ákvarðanir Seðlabanka um stýrivexti. Ef vísitalan hækkar of ört þá eru stýrivexti hækkaðir.
Nú ríkir neyðarástand í efnahagsmálum sem kemur fram í mörgum myndum. Brýnasta úrlausnarefnið sem takast þarf á við er auðvitað að hækka gengi krónunnar. En það er jafnframt orðið brýnt að leiðrétta verðbólgumælinguna sem nú ofmetur verðbólgu og notar ofmatið er að knésetja fyrirtæki og almenning í landinu.
Notkun vísitölunnar er mistök sem hafa leitt til ólögmætrar eignatilfærslu og má því ætla að sé stjórnarskrárbrot. Leiðrétta þarf einhliða vísitöluna strax niður á við og án eftirmála.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)