Pælingar um nafnleysi

Í mótmælum undanfarna daga hefur fámennur hópur, að því er virðist ungs fólks, hulið andlit sitt. Af einhverjum ástæðum telja þessir aðilar að það sé annað hvort nauðsynlegt eða þá sniðugt tjáningar- eða merkingaratriði að vera óþekkjanlegir, nafnlausir. 

Tilgangur nafnleysis er að verja viðkomandi aðila gagnvart áreiti að einhverju því tagi sem viðkomandi vill láta verja sig fyrir og í mörgum tilfellum er nafnleysi nauðsynlegt og vel viðeigandi. Nafnleysi gerir viðkomandi ósnertanlegan. En nafnleysi er ekki ókeypis. Viðkomandi er ósnertanlegur og því einnig ábyrgðarlaus. Ábyrgð er það að vera opinn fyrir áreiti og jafnvel þannig að áreitið hafi áhrif á það hvernig viðkomandi hagar lífi sínu.  

Dagleg samskipti fólks byggjast yfirleitt á því að viðkomandi hafa andlit eða nafn til auðkenningar og við það skapast nauðsynlegt traust í samskiptunum. Í samfélagi manna fylgst yfirleitt að ábyrgð og áhrif. Þeir sem veljast til áhrifa veljast líka til ábyrgðar.  

Hvenær á nafnleysi við? 

Þetta snýst um ábyrgð. Nafnleysi gerir viðkomandi ábyrgðarlausan gagnvart þeim sem vilja láta hann sæta ábyrgð á einhverju sviði. 

Ef samfélagsleg eða persónuleg sjónarmið vega það þungt að æskilegt sé að firra fólk ábyrgð er æskilegt að nota nafnleysi. Annars er grundvallarreglan sú að sérhver ber ábyrgð á sínum aðgerðum. 

Dæmi.

Í lýðræðislegum kosningum er mikilvægt að hlutleysis sé gætt, þ.e.a.s. að kjósendur séu ekki látnir sæta ábyrgð gagnvart einhverjum vegna atkvæðis síns. Því eru hlutlausar kosningar nafnlausar þótt kjósandi sé þekktur kjörstjórn. Í þessu samhengi er vert að benda á að kosningar í þingsölum eru ekki nafnlausar því þingmenn eiga að bera ábyrgð á sínu atkvæði gagnvar þjóðinni sem þeir eru fulltrúar fyrir. Þessu fylgir sá annmarki að hagsmunahópar (t.d. stjórnmálaflokkar) geta haft áhrif á það hvernig þingmenn kjósa. Það er talið betra heldur en að þingmenn beri ekki ábyrgð gagnvart þjóðinni, enda reyndar flestir kosnir á þing innan raða stjórnmálaflokka. 

Uppljóstrarar eru oft nafnlausir. Þetta er nauðsynlegt til að verja þá. 

Skoðanir eru oft settar fram án nafns. Þetta kann einnig að vera æskilegt til að tryggja frjáls skoðanaskipti. 

Þegar sótt er um störf er oft óskað nafnleyndar. Þegar sótt er um opinber störf á þetta reyndar ekki við. Þannig er birtur listi umsækjanda um opinber embætti. Þessi skortur á nafnleysi fælir marga frá því að sækja um enda kann það að hafa slæm áhrif á frama viðkomandi hjá hans fyrirtæki ef upp kemst að hann sækist eftir starfi annars staðar. 

Viðskiptajöfrar óska stundum eftir nafnleysi. 

Andófsmenn óska stundum eftir nafnleysi og hylja andlit sín. 

Glæpamenn óska yfirleitt eftir nafnleysi og hylja andlit sín. 

Við skulum skoða aðeins síðustu þrjú dæmin. 

Mikið hefur verið rætt um dulið eignarhald fyrirtækja og fjölmiðla á Íslandi. Þannig virðis það hafa orðið mjög algengt á síðustu árum að stofnuð eru eignarhaldsfélög, oft á erlendri grund, það sem eignarhald er óþekkt og ekki unnt að afla upplýsinga um það. Þessi eignarhaldsfyrirtæki eru síðan virk í eignatöku í Íslenskum fyrirtækjum. Einnig er virðist það orðið algengt að notaðir eru leppar. Þ.e.a.s. að sá sem er skráður fyrir stöðu eða eignarhaldi er í raun ekki sá sem ræður eða á, heldur leppur fyrir annan og þiggur greiðslu fyrir. Er þetta æskileg þróun og er þetta nauðsynlegt fyrir viðkomandi nafnlausu aðilana? Fyrir hverju eru þeir að verja sig? Á slík nafnleynd rétt á sér og þá hvers vegna? Ef svo er, er þá t.d. rétt að takmarka hana þannig að ef nafnleynd ríkir þá megi viðkomandi ekki eiga fulltrúa í stjórn eða beita atkvæði á hluthafafundi í almenningshlutafélagi? (Slíkt kann að vera flókið í framkvæmd). 

Andófsmenn í einræðisríkjum fela oft andlit sín þar sem þeir njóta engrar verndar réttarríkis til þess að tjá skoðanir sínar. Andófsmenn í réttarríkjum fela andlit sín eða nöfn til að verja sig fyrir áreiti, t.d. frá almenningi, atvinnuveitanda eða jafnvel stjórnvöldum sem þau bera ekki traust til og draga þar með í efa vörn réttarríkisins. Réttarríki þar sem andófsmenn telja sig þurf að fela andlit sín þarf að skoða ástæður þess og hvort betrumbæta þurfi á einhvern hátt réttarvörn andófsmanna. Er Ísland réttarríki? Er nauðsynlegt fyrir hluta mótmótanda að hylja andlit sín? Hvers vegna? Fyrir hverju eru þeir að verja sig? Geta nafnlausir andófsmenn náð árangri? Varðandi síðasta atriðið þá tel ég að svarið sé nei. Þeir geta haft áhrif í þá veru að við andófi þeirra verður brugðist, en þeir hafa enga stjórn á þeim viðbrögðum og ná því ekki árangri. Eina undantekningin er sú ef þeir styðja nefnda aðila sem fulltrúa eða ef þeir verða svo margir að þeir geta með ofbeldi knúið fram breytingar sem þeim eru að skapi.  

Glæpamenn hafa engan rétt til þess að hylja andlit sín gagnvart réttlætinu. Þeir hafa hins vegar oft rétt til að fela sig gagnvart almenningi sem vill taka réttlætið í sínar hendur.  

Skilin milli andófsmanna og glæpamanna eru oft óljós, en þó má búa til ákveðin viðmið. Þeir sem vilja skemma og meiða eru glæpamenn. Þeir sem vilja breyta og laga eru andófsmenn. Andófsmenn sem verða fyrir skerðingu á tjáningarfrelsi eða hindraðir frá því að nota lýðræði eða dómstóla til að ná fram áhrifum mega grípa til varna og jafnvel ofbeldis. Þetta á við í óréttarríkjum. Ísland er ekki óréttarríki, heldur lýðræðisríki og réttarríki þar sem tjáningarfrelsi er virt og mikið notað og skoðanafrelsi ríkir. Ekki má mismuna fólki vegna skoðana og t.d. má ekki segja fólki upp eða hindra frama þess innan fyrirtækja vegna skoðana. Andófsmenn á Íslandi hafa því enga ástæðu til að fela andlit sín. Nema þeir séu í raun glæpamenn. Viðskiptamenn sem eiga í fyrirtækjum og fjölmiðlum hafa heldur enga ástæðu til að fela sig. Nema þeir séu í raun glæpamenn líka eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband