Um Zeitgeist Addendum

Ég horfði á Zeitgeist Addendum og get tekið undir margt í greiningu þeirra. Hins vegar er ég ekki sammála öllu. Trú þeirra á að tæknin geti leyst allt (sbr Venus verkefnið) bara ef við afnemum peninga er barnaleg í besta falli. Það verða áfram til frekir einstaklingar, svindlarar og glæpamenn. Eiturlyfjaneytendur eru til þótt það sé engin þörf á því fyrir einn né neinn að taka eiturlyf til að byrja með. En tæknina má nota til góðra verka (og slæmra). Ein sýn á það hvernig tæknin getur leyst málin sést í myndunum um Terminator. Önnur í teiknimyndinni um WALL-E.

Fullkominn heimur?Peningar eru verkfæri og þetta verkfæri hefur fætt af sér ákveðna menningu og verkaskiptingu í þjóðfélögum heimsins alveg sama hvort það eru kommunista- eða kapítalistaríki. Atvinnuleysi, auðjöfrar og fl. er hrein afleiðing af peningakerfinu og getur ekki þrifist án þess. Peningahagkerfið er óstöðugt í eðli sínu vegna ákveðinna galla sem hafa fengið að viðgangast í því og sem menn missa iðulega tök á. Hér er ég að tala um verðbólgu (eignabólur), nafnleysi peninganna (enginn veit hver á hvað nema annað kerfi til hliðar haldi utan um það) og vexti að hluta til (leigugjald peninganna).

Það hvernig peningar eru búnir til úr engu með því að banki veitir lán er einfaldlega aðferðin við að 'prenta peninga'. Réttara væri að tala um að auka peningamagn í umferð því um það snýst málið.

greed-moneyVarðandi verðbólguna þá er hún versta vandamálið vegna þess að hún er ekki rétt mæld. Verðbólga í eignum (fasteignum og hlutabréfum eða t.d. kvóta) er yfirleitt haldið utan við mælingar á verðbólgu (á Íslandi er reyndar fasteignaverð í neysluvísitölu) en verðbólga á neysluvörum er nálguð með því að reikna út neysluvísitölu. Þetta gerir það að verkum að ef menn missa tökin á aukningu peningamagns og það fer í að búa til verðbólgu á eignahliðinni þá verður gífurleg eignatilfærsla í þjóðfélaginu eins og við höfum nú orðið vitni að. Þetta kemur ekki fram í neysluvísitölu. Afleiðingarnar eru skelfilegar. Um þetta má mikið ræða og löngu kominn tími til að menn opni augu sín fyrir þessu. Zeitgeist fær fólk vonandi til að hugsa um þessi mál á gagnrýninn máta og leita lausna. Zeitgeist er hins vegar ekki með réttu greininguna á orsökum að mínu mati þótt myndin bendi réttilega á afleiðingar peningakerfisins eins og það er rekið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband