Hraðastilling

Ég er með hraðastilli á bílnum mínum sem ég nota mikið á langkeyrslum enda þægilegt fyrir alla farþega að keyra á jöfnum hraða auk þess sem ég kem þá í veg fyrir að ég keyri óhóflega hratt, en til þess hef ég tilhneigingu á góðum fáförnum vegum. Þægindin lýsa sér í afslöppun farþega sem láta hugann reika og dunda sér ýmislegt til dægrastyttingar án truflunar frá breytilegum aksturshraða. HraðastillirHelsti gallinn við hraðastillinn er að stundum lendi ég fyrir aftan bíl sem keyrir á ójöfnum hraða eða hægar en ég. Þá þarf ég að taka hraðastillinn af til að forðast árekstur. Einnig er vandamál þegar vegurinn beygir, ég tala ekki um þegar beygjan er kröpp, þá þarf ég að taka hraðastillinn af til að keyra ekki útaf. Þetta breytir ekki því að hraðastillirinn er góður á beinu köflunum og ég vil síður vera án hans á langferðalagi. Það er ótvírætt til bóta að hafa jafnan hraða þegar ekið er óháð því hvert farartækið er. T.d. er jafn hraði sérstaklega mikilvægur í strætó þar sem margir eru standandi og jafnvel labbandi um vagninn í akstri (sjá myndbönd hér að neðan).

Efnahagslífið er stundum á beinu brautinni með jafnan hagvöxt og atvinnustig. Þá er gott að hafa stöðugleika í gengi gjaldmiðilsins. Stundum beygir efnahagslífið af leið, tekur jafnvel krappar beygjur. Þá er gott að geta slegið svolítið af hraðanum (lækkað gengið) til að sigla efnahagslífinu ósködduðu í gegn varðandi hagvöxt og atvinnustig. Þessi hraðabreyting veldur vissulega truflun og óþægindum, sérstaklega hjá þeim sem ekki eru í kyrfilega festir í sæti.   Kröpp beygja

Það er staðreynd að efnahagslífið sveiflast alltaf og mun gera það bæði af manna völdum og náttúrunnar. Að hafa einn sama hraða (gengi) í kröppum beygjum eins og á beinu brautinni er hættulegt. Ansi hætt við því að atvinnulífið laskist þegar keyrt er útaf. Stöðugleikinn í gengi kemur því niður á atvinnulífinu. Hvert áfall sem á dynur dregur þrótt úr atvinnulífinu. Svipað og sést hefur t.d. á landsbyggðinni á Íslandi, en hún hefur verið í myntbandalagi með höfuðborgarsvæðinu eins og kunnugt er. Smátt og smátt hefur mátturinn verið dreginn úr byggðarlögunum.

Nú vilja sumir setja Ísland allt í svipaða spennitreyju og landsbyggðin hefur verið í. Læsa landið allt inni í sama gengi og meginland Evrópu. Læsa hraðastillinn og miðað við meðalhraðan á breiðstrætum Berlinar. Þessi hraði skuli notaður á torfærum Íslands óháð aðstæðum. Það skal gert því jafn hraði er góður. Bílasölumaðurinn ofselur hraðastillinn.

Vissulega er jafn hraði góður. Á góðum vegum þar sem allir eru á sama hraða eða fátt um bíla. En það er gott að geta slegið af í ófærum eða beygjunum. Sérstaklega kröppu beygjunum. Það er reyndar nauðsynlegt.

Hér eru nokkur myndskeið sem sýna hvað getur gerst ef ekið er of hratt. Er hraðastillir lausnin? Eða skynsamara aksturslag ökumannsins?

http://www.youtube.com/watch?v=tzZm94675bw

http://www.youtube.com/watch?v=P5OoWQaWeRs&feature=related 

http://www.youtube.com/watch?v=zQ6rOYbcemk

P.S. Ísland hafði tækifæri árið 2006 til að hlusta á aðvaranir um fyrirsjáanlega krappa beygju framundan og bregðast við með því að slá af hraðanum með því að láta gengið síga í átt að jafnvægisgengi í kringum vísitöluna 135-145. Nú komum við inn í krappa beygju á miklum hraða og verðum að bremsa harkalega þannig að heimilin og fyrirtækin kastast illilega til eða hendast útbyrðis nema þeir sem eru í öryggisbeltum. Þá er eðlilegt að allir öskri á jafnara aksturslag og vilji e.t.v yfirgefa vagninn hið snarasta eða bendi á hraðastillinn sem lausn. En hann er bara lausn á beinu köflunum og breytir ekki þeirri staðreynd að ökumaðurinn verður að slá af hraða fyrir krappar beygjur.
mbl.is ESB-tillaga lögð fram á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Solheim

Skemmtileg samlíking.

Bara skemmtilegt - hefur ekkert með ESB að gera í raun og veru.

Einar Solheim, 25.5.2009 kl. 16:14

2 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Hefur allt með evruna að gera og þarmeð aðalröksemdina fyrir umsókn um aðild.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 25.5.2009 kl. 16:19

3 Smámynd: Einar Solheim

kannski eins og þú sérð Evruna.
Það sem ég sé er að á 40 árum þá borga ég 60 milljónir af 30 milljóna fasteignaláni mínu í stað þess að greiða 130 milljónir með áframhaldandi krónu.
Setur einhvern hraðastillisbrandara í svolítið raunverulegt samhengi.

Einar Solheim, 25.5.2009 kl. 16:23

4 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Svona athugasemdir fylla mig skelfingu. Þú setur að jöfnu verðbólgna krónu eftir 40 ár við krónuna nú. Það sýnir að þú veist ekki hvað verðbólga er og þar af leiðandi ekki hvað þú ert að tala um og raunverulega samhengið er þarmeð horfið.

Það sem skiptir þig og mig máli er hvor þú getir borgað af láninu þínu næstu 40 árin án þess að greiðslurnar séu of mikill hluti af þínum heildartekjum á tímabilinu. Og hvort þú nærð að borga lánið upp á þeim tíma.

Núna, skömmu eftir hrun hefur afborgunarhlutfallið snaraukist á skömmum tíma. Ýmsar aðgerðir hafa verið kynntar til sögunnar til að laga það en betur má og verður að gera.

Ég er sjálfur með lán (til 25 ára) og þarf að borga af þeim. Ég finn fyrir skellinum af fullum þunga í auknum útgjöldum, samdrætti í tekjum og hrapi í eignarverði. Þrátt fyrir mikla fyrirhöfn hefur mér ekki tekist að finna ástæður þess að ESB aðild ætti að hjálpa mér nokkurn skapaðan hlut.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 25.5.2009 kl. 16:33

5 Smámynd: Einar Solheim

Ég skil vel að þú sért skítrhæddur við ESB ef þessi athugasemd fyllir þig skelfingu.
Það sem skiptir mig máli er ekki hvort ég get borgað af lánum mínum.  Ég myndi aldrei taka lán sem ég get ekki borgað af.  Það sem skiptir mig máli er hversu mikið er eftir þegar ég er búinn að borga af láninu.  Þú gerir þér grein fyrir að verðbólga er ekkert annað en dulbúnir vextir, sem gerir það að verkum að raunvextir hér eru að jafnaði mikið mun hærri en í öðrum vestrænum ríkjum.  Heldur þú því virkilega fram að skuldarar á Íslandi séu ekki í verri aðstöðu en skuldarar t.d. í Noregi eða Þýskalandi?  Í útreikningum mínum notaði ég hóflega verðbólgu, en það væri gífurlega mikil bjartsýni að gera ekki ráð fyrir 2-3 verðbólguskotum upp á 10-20% á 40 ára tímabili.
Til lengri tíma er dæmið einfaldlega eins og ég lýsi.  Vissulega getum við gert okkur vonir um að laun hækki meira hér en þar sem verðbólgan er lægri og að 130 milljónir og 60 milljónirnar séu ekki alveg samanburðarhæfar.  Þær eru það samt fyrir t.d. erlendann fjárfesta þar sem hann þarf að horfa upp á eignir sýnar á Íslandi rýrna stöðugt vegna verðbólgu - enda vandfundnir þeir aðilar sem hafa áhuga á að fjárfesta á Íslandi meðan við erum með krónuna.
Þú mátt því mín vegna vera sáttur við að greiða þinn krónuskatt, en ég ætla ekki að gera það.

Einar Solheim, 25.5.2009 kl. 17:26

6 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Góður pistill Þorsteinn,

Einar, Greinin er ágætt innlegg í ESB umræðuna því Evran er ein af aðalröksemdum þeirra sem telja ESB inngöngu vænlega fyrir Ísland. Þeir tala gjarnan um stöðugleikann sem helsta kost Evrunnar. 

Stöðugleikinn getur hins vegar orðið mikið vandamál fyrir þjóð eins og okkar sem lifir í allt öðru umhverfi en Evran miðast við. Hagkerfið hættir ekki að sveiflast þótt við tökum upp stöðuga mynt. En við missum mikilvægt stjórntæki til að bregðast við breytingum í okkar aðstæðum. Afleiðingin yrði atvinnuleysi eða ofþensla. Athugaðu að atvinnuleysi upp á 10% er meðaltalið í ESB og við köllum það kreppu..

Evrulönd eru núna að upplifa mikla erfiðleika, fyrir sum er Evran of sterk og fyrir önnur er hún of veik. Seðlabankinn kemur ekki til hjálpar. Hann er jú tilbúinn að lána Evruþjóðum peninga (hver vill meiri lán?) eða vísar þeim á AGS.

Frosti Sigurjónsson, 25.5.2009 kl. 18:16

7 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Ég held að Vinstri Græn og Sjálfstæðisflokkur séu eina Ríkisstjórnarúrræðið í þessari stöðu.

Samfylkingin virðist komin í hlutverk þeirra sem drápu Snorra Sturluson á Sturlungaöld af því að hann vildi ekki selja Ísland í hendur Noregskonungs. Það er ekki hægt fyrir Íslenska fullveldissinna að vinna með slíkum flokk, sama hvar þú stendur á vinstri-hægri skalanum.

Vilhelmina af Ugglas, 25.5.2009 kl. 19:21

8 Smámynd: Einar Solheim

Frosti - Það er óþolandi að hlusta á þetta rugl með atvinnuleysið. Staðreyndin er að atvinnuleysi hefur verið mjög misjafnt hjá ESB þjóðum. Sumar með hátt atvinnuleysi, aðrar lágt. Það er ekkert sem bendir til þess að Ísland myndi raða sér í hóp þeirra þar sem atvinnuleysi er hæst. Hins vegar hefur atvinnuleysi oft á tíðum verið of lágt á Íslandi og átt þátt sinn í að skapa þá öfga sem við búum við.

Hagsmunir almennings á Íslandi eru gífurlegir að við fáum hér stöðugan gjaldmiðil og getum gengið að verðmætum okkar tiltölulega óbreyttum þrátt fyrir almennt efnahagsástand. Það er ekki eðlilegt að það teljist til áhættufjárfestinga að kaupa sér ferð til sólarlanda. Það er heldur ekki eðlilegt þegar framleiðni tapast því menn eru alltaf að eltast við gengisbreytingar. Ég gæti vel trúað því að bara verðmiðabreytingar vegna stöðugt hækkandi verðlags kosti þjóðina tugi ef ekki hundruð milljóna á ári.

Ég neita því ekki að það getur verið gott að hafa gjaldmiðil sem sveiflast. Það er samt ekki gott fyrir íslenskan almenning. Það er gott fyrir stjórnvöld til að fela hagstjórnarmistök, það er gott fyrir óhæfa stjórnendur sem þurfa gjaldfellingu krónu til að bjarga andlitinu, og það getur verið gott fyrir fjármagnseigendur. Það er hinns vegar ALDREI gott fyrir almenning sem vinnur sína 8-17 vinnu og skuldar sín fasteignalán.

Það pirrar mig mig ekki að menn séu á móti ESB, en það pirrar mig verulega að margir setja andstöðu sína í einhvern felubúning (t.d. ruglið með að við missum fullveldi og að ESB taki allar auðlindir okkar) þegar raunverulegar ástæður eru nánast undantekningarlaust eiginhagsmunagæsla fyrir hagsmunum sem eru andstæðir almannahagsmunum....

Einar Solheim, 25.5.2009 kl. 20:10

9 Smámynd: Júlíus Björnsson

30 milljóna fasteigna lán á skuldsetningareyjunni Íslandi innlimaðs innan ES:EU þegar við uppfyllum stöðugleikakröfur um hlutfallslega meðlimakostnað m.a.

Þá má búast við því að Þýsku bankarnir kaupi [yfirtaki og breyti í Evrur] [ó]lánið með meir en 50% afföllum. Bankarnir í ES:EU er alls ekki aumingjagóðir. Þeir eru sér í lagi yfirstéttargóðir.   

Það er samhengi milli íbúðafasteignaverðs og tekna viðkomandi efnahagseiningar: Borgar eða meðlima ríkis.

Júlíus Björnsson, 25.5.2009 kl. 21:09

10 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Einar. Þú ert viti þínu fjær í rangfærslum þínum.

Ég hef hvergi fullyrt það sem þú setur fram í spurningunni: "Heldur þú því virkilega fram að skuldarar á Íslandi séu ekki í verri aðstöðu en skuldarar t.d. í Noregi eða Þýskalandi?".  Má ég biðja þig um að vera ekki að gera mér upp skoðanir né fullyrðingar. Ég hef nóg af eigin skoðunum þótt mér séu ekki eignaðar aðrar.

Þú átt væntanlega við verðtryggingu en ekki verðbólgu þegar þú segir "Þú gerir þér grein fyrir að verðbólga er ekkert annað en dulbúnir vextir"

Það örlar á skilningi hjá þér þegar þú segir "Það sem skiptir mig máli er hversu mikið er eftir þegar ég er búinn að borga af láninu." sem er það sem ég var að segja þér í minni fyrri athugasemd.

Eignir erlendra fjárfesta rýrna ekki vegna verðbólgu. Þær vaxa. Þær rýrna hins vegar við gengisfellingu.

Það er samhengi milli verðbólgu og atvinnuleysis. Það er kallað Phillips kúrfan. Þú getur googlað það þér til fróðleiks.

Lönd (eða svæði) sem ekki geta brugðist við með gengisfellingu eða verðbólgu verða að grípa til annarra ráða og þau eru bara tvö: lækka laun yfir línuna eða segja upp fólki. Það er erfitt að lækka laun og því enda viðbrögðin í atvinnuleysi. Oft er hvorttveggja tilfellið (lág laun og atvinnuleysi eða brottflutningur). Svæði sem ítrekað lenda í þessu sjá ítrekað atvinnulausa fólkið hverfa á braut til annarra svæða þar sem atvinnu er að hafa. Svipað og t.d. á Vestfjörðum undanfarna áratugi. Ég vil EKKI læsa Ísland í slíkri stöðu. Frekar vil ég borga aðeins hærri vexti. Athugaðu að sú aðferð (þótt leiðinleg og óþægileg sé) skilaði þessari þjóð úr því að vera ein sú fátækasta í Evrópu í það að vera ein sú ríkasta í heimi (og það jafnvel eftir kreppu).

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 25.5.2009 kl. 21:30

11 Smámynd: Einar Solheim

Ég hræri þessu etv aðeins saman út af þessu einfalda samhengi:

Krónan = Stöðug veiking gengis = verðbólga = verðtrygging

Í ljósi þessa er er flest sem þú segir útúrsnúningur.  Nema síðasta málsgreinin.  Þar ertu loksins inni á alvöru málefni sem er þess virði að ræða. Þú hins vegar gefur þér að atvinnuleysi mun aukast  á Íslandi við inngöngu í ESB.  Ég er bara algjörlega ósammála því.  Ég tel að innganga í ESB geri okkur samkeppnishæfari, laði fram fjármagn sem er tilbúið að fjárfesta í þeim dugnaði og krafti sem hér er að finna, stækki heimamarkað þeirra fyrirtækja sem hér eru fyrir og eykur möguleika í nýsköpun og þróun.  

Við urðum svo sannarslega ekki ein ríkasta þjóð í heimi þökk sé krónunni - okkur tókst það þrátt fyrir krónuna með því að vinna meira og nýta auðlindir okkar með hagkvæmum hætti.  Og við erum í dag síðar en svo ein ríkasta þjóð í heimi (eftir kreppu).  Í dag, við núverandi gengi, erum við fátæk láglaunaþjóð þar sem fjárhagsleg staða almennings er með því verra sem gerist í hinum vestræna heimi (ég geri ekki ráð fyrir að þú sért að miða okkur við 3.heimsríki).

Einar Solheim, 26.5.2009 kl. 14:19

12 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Sæll Einar aftur.

Það er gott að við erum farnir að nálgast hvorn annan í samskriftum okkar og vonandi báðir orðnir betri í að íhuga rök hvors annars. Við verðum samt ekki sammála um að innganga í ESB geri okkur samkeppnishæfari.

Ég tel að það erlenda fjármagn sem hingað kann að leita verði að mestu leyti í frumatvinnugreinum sem nýta okkar auðlindir aðrar en mannauð. Varðandi heimamarkað þá erum við þegar í EES og höfum frelsi til að semja við aðrar þjóðir utan EES.

Varðandi atvinnuleysi, þá held ég að það verði ekki mikið hér til lengri tíma litið. Ef við göngum í ESB eða ef við getum ekki unnið okkur út úr þessu þá mun fólk einfaldlega flytja burtu. Ég held að það muni örugglega gerast ef við göngum í ESB og einnig að það muni hugsanlega gerast ef við göngum ekki í ESB. Málið er að við verðum að vanda mun betur til verka í efnahagsstjórninni, en hún hefur verið röng í mörgum veigamiklum atriðum síðasta áratug. Ég set hér inn hlekk á samskipti okkar Jóns Baldvins um þessi mál á bloggi hans:

http://www.jbh.is/default.asp?ID=167

Kreppan er slæm og illa er farið með þjóðina, þig og mig. Fjárhagsleg staða skuldsetts almennings er hörmuleg. Við munum samt, þrátt fyrir samdrátt í þjóðartekjum, vera með þjóðartekjur svipaðar á Hollendingar en vorum með mun hærri fyrir kreppu. Hér er vissulega spurning um hvað er verið að bera saman. Ef þú notar þjóðarframleiðslu í krónum og notar síðan gengið til að umreikna þá lítur dæmið vissulega verr út í bili, en er það réttur mælikvarði? Hvað varðar PPP þá stendur þjóðin sig betur.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 26.5.2009 kl. 15:07

13 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ég tel að innganga í ESB geri okkur samkeppnishæfari, laði fram fjármagn sem er tilbúið að fjárfesta í þeim dugnaði og krafti sem hér er að finna, stækki heimamarkað þeirra fyrirtækja sem hér eru fyrir og eykur möguleika í nýsköpun og þróun.

Hverjir verða samkeppnishæfari gagnvart hverjum?

Íslendingar undafarin ár hafa flutt dugnaðinn og kraftinn inn ekki satt?

Ef þú Einar ert að tala um að leigja erlendum auðhringum verksmiðjuaðstöðu  hér á landi með innflutningi dugnaðs og krafts þá kemur það ES:EU inngöngu ekkert við.

Eftir Viðreisn [Evrópu Sósíal-Demókrata ríkisstjórnarhættir]  þá fóru stórir hópar Íslendinga til Ástralíu.

Júlíus Björnsson, 26.5.2009 kl. 15:25

14 Smámynd: Einar Solheim

Júlíus:

Þegar é tala um aukna samkeppnishæfni þá byggir það m.a. á því að í dag fer ótrúlegur tími, orka og fjármagn að vega og meta áhrif framtíðargengisþróunar á rekstur fyrirtækja.  Fyrirtæki þurfa m.a. að verja sig fyrir gengisbreytingum og bara það kostar sitt.  Krónan hefur einnig fælingarmátt, enda eykur hún á óvissu og veldur því að menn leggi síður í áhættusamari rekstur.  Sjálfur hef ég staðið í því að selja vörur/þjónustu til ESB-lands, og það var óþolandi að vita ekki hversu mikið skilaði sér í budduna þegar það kom að uppgjöri.

Í dag eru erlendar fjárfestingar á Íslandi bundnar við rekstur sem gengur nánast án þess að menn þurfi að velta fyrir sér stöðu íslensku krónunnar, t.d. álrisar sem gera samninga í dollurum/evrum.  Aðrir halda sér í burtu.  Það þótti til tíðinda að erlend verslunarkeðja sá ástæðu til að taka sénsinn á rekstri á Íslandi (Bauhaus) og ég býst við að þeir sjái eftir því!  Fyrir erlenda fjárfesta er málið mjög einfallt:  Af hverju að fjárfesta í góðri hugmynd á Íslandi og taka á sig áhættu vegna gengisbreytinga, þegar hægt er að fjárfesta í góðri hugmynd án þess að vera háður því lottói sem krónan er?   Því miður - til að bæta gráu ofan á svart - þá vilja íslenskir fjármagnseigendur nú ekki heldur fjárfesta á Íslandi.  Mér er til efs að þú finnir íslenskan aðila sem á einhvern pening að ráði sem ekki er búinn að koma honum fyrir utan lögsögu krónunnar að mestu leyti.

Ef við viljum fá aðra fjárfestingu inn í landið en stóriðju, þá verðum við að losa okkur við krónunna.

Þorsteinn:   Fólk er auðvitað að flytja í burtu í stórum stíl.  Sjálfur keypti ég mér lóð í Noregi fyrir 2 árum og er nú að flýja land.  Kreppann gerði reyndar lítið annað en að flýta minni brottför, en það má segja að ég sé að leggja mitt af mörkum við að draga úr ríkisútgjöldum (enda ríkisstarfsmaður) ;)  Það er alveg ljóst að það eina sem getur forðað okkur frá stórfelldum landsflótta er styrking krónunnar.  Þar er innganga í ESB lykilatriði, en að mínu mati þá sé ég ekki krónunna ávinna sér það traust sem hún þarf til að styrkjast eitthvað að ráði - a.m.k. ekki næstu 5 árin. 

Þú segir að við verðum að vanda mun betur til verka í efnahagsstjórninni.  Þetta er óraunhæft.  Efnahagsstjórn á Íslandi hefur alltaf verið léleg og ég held reyndar að í svona litlu landi þar sem LITLIR sérhagsmunahópar eiga jafn greiðan aðgang að stjórnvöldum, þá sé góð hagstjórn einfaldlega ekki möguleg.  Við verðum líka að líta á þetta í samhengi við fólksfjöldann - við eignust ca. 1 framúrskarandi knattspurnumann  á 10 ára fresti.  Hæfileikar til efnahagsstjórnunar eru líka af skornum skammti, og þá ekki síst á Alþingi.  Til að geta haft stjórn á krónunni þyrfti efnahagsstjórnin að takast 100%, en það er einfaldlega ekki raunhæft.  Hvorki hér né annarsstaðar.

ESB andstæðingar gera mikið að því að bera saman þjóðhagslegar stærðir.  Atvinnuleysi þjóða, PPP, þjóðarframleiðsla, hagvöxtur, o.s.frv.  Auðvitað eru þessar stærðir mikilvægar til lengri tíma, en eitt stærsta hlutverk hagkerfa er að vernda almenna borgara fyrir öfgafullum breytingum á þjóðhagslegum mælikvörðum.  Það sem upp úr stendur er að það er kreppa á Íslandi og almenningur fer á hausinn.  Það er líka kreppa í flestum löndum Evrópu, en almenningur finnur takmarkað fyrir vandamálinu (nema þeir sem missa vinnuna).  Á Íslandi erum við almenningur gjörsamlega berskjölduð fyrir öllu klúðri.  Banki fer á hausinn, krónan hrynur, verðlag hækkar, lánin hækka, almenning blæðir.  Þorskstofninni minnkar, krónan veikist, verðlag hækkar, lánin hækka, almenning blæðir.  Stjórnmálamenn taka heimskulegar ákvarðanir => almenning blæðir.  Það er sama hver klúðrar hverju, alltaf fá íslenskir skuldarar reikninginn.  Við eigum betra skilið.  Við eigum skilið að fá Evru.  Fyrst þá geta ráðamenn ekki falið eigið vanhæfi með gengisfellingum.

Einar Solheim, 26.5.2009 kl. 16:08

15 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Einar, takk fyrir þetta innlegg.

Samkeppnishæfni þjóðarinnar til útflutnings er mikil núna. Útflutningsfyrirtæki munu keyra okkur út úr þessum vanda. Þar er verið að ráð fólk núna. Verst að öll uppbygging tekur tíma og það er líklegt að þetta taki nokkur ár. Fjárfesting í útflutningi getur verið mjög ábatasöm. Enn ríkir óvissa um gengið á krónunni, m.a. vegna gjaldeyrishaftanna sem e.t.v. (líklega?) voru og eru mistök. Meðan þessi óvissa er þá er eðlilegt að menn séu varkárir til fjárfestinga.

Krónan verður að styrkjast og raungengi hennar mun styrkjast.

Við verðum að vanda betur til efnahagsstjórnunar. Þú getur bara litið til Portugals til að sjá að það er ekki nóg að ganga í ESB, taka upp evru og fá styrki. Það verður líka að reka hagkerfið á hagkvæman máta til að vinna sig upp. Það er alls ekki óraunhæft að við vöndum okkur betur, enda er þetta ekki og á ekki að vera spurning um hetjulegt framtak eins einstaklings heldur vel ígrundaðar stefnum sem byggir á raunhæfum kenningum og aga í framkvæmd. Markmiðið er ekki að hafa stjórn á krónunni (það eru einmitt ein af mistökum SÍ undanfarin ár að halda krónunni stöðugri án tillits til annars) heldur er markmiðið að hafa hér skilvirkt og öflugt efnahagslíf. það getur vel verið að það kosti það að láta gengið siga undan og styrkjast eftir atvikum, en slík stefna hefði e.t.v. getað bjargað okkur frá þessu alsherjarhruni sem varð.

Bankahrun er ekki daglegt brauð sem betur fer. Bankahrun af þeirri stærðargráðu sem hér hefur orðið er einsdæmi. Hrunið hér er meðal stærstu gjaldþrota heimssögunnar. Út úr þessu verðum við að vinna okkur og það munum við gera enda höfum við getu, vilja og aðstoð til. Við skulum gæta þess að fórna ekki framtíðarmöguleikum okkar í þessum tímabundnu erfiðleikum.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 26.5.2009 kl. 16:34

16 Smámynd: Einar Solheim

Furðulegt að svona skynsamur maður skuli komast að þeirri niðurstöðu að Íslandi sé betur borgið utan ESB :)

Bankahrun er ekki daglegt brauð, en gengishrun krónunnar er það hins vegar.  Flest sem þú segir er þannig séð "rétt", okkur greinir bara á um hvort umhverfið sé líklegra til að skila árangri - þ.e. einangrunarstefna með almennu vantrausti á gjaldmiðil okkar og efnahagslíf, eða að vera hluti af Evrópu með upptöku Evru.  ESB bjargar engu, en veitir okkur það umhverfi sem við þurfum til að fóta okkur.  Fyrst og síðast er það vernd fyrir ALMENNING. 

Ég skal þó viðurkenna að ég hef jafnvel efasemdir um að stjórnvöld í dag nái að rífa okkur upp þrátt fyrir aðild að ESB.  

Einar Solheim, 26.5.2009 kl. 16:56

17 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Einangrunarstefna er ekki eitthvað sem ég skrifa undir. Smáum þjóðum er nauðsynlegt að eiga öfluga bandamenn og eins er þeim hollt að vera opnir fyrir samskiptum og viðskiptum við sem flesta ef þeir vilja ekki staðna í lífskjörum.

Ég búið og starfað í 3 ESB löndum og tekið þátt í vinnu á vegum nefnda framkvæmdastjórnarinnar. Oft verið í Brussel og kynnst þessu af eigin raun. Einnig kynnt mér þetta í bak og fyrir. Tel mig sæmilega skynsaman (takk) en ekki alvitran. Mín niðurstaða er sú að Ísland eigi ekki að vera meðlimur að ESB. Tækifæri okkar fyrir utan ESB eru mun fleiri og framtíðarmöguleikar því fjölbreyttari og vænlegri.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 26.5.2009 kl. 17:13

18 Smámynd: Júlíus Björnsson

Einar! Dollar er sterkari en EU:ES er ekki samkeppnisfærasti lokaði markaður heimsins.  Dollar gerir okkur samkeppni hæfastan til langframa opnar hin 91% heimsins. 

Ástæður Skuldsetningar [fjárfestinga og lánafyrirgreiðslna] EU: Fjármálakerfisins með velvild Seðlabanka EU eru augljósar í stöðunni í dag. 30 ára plön er stjórnarskrábundin raunverleiki EU stórveldanna. Það tengist hinum margra ára fjárlaga ramma. Útvíkunnar áformin á sínum tíma hvað áttu þau að kosta og hvað ætlaði EU sér að uppskera. Hver er ráðandi aðili í samskiptum Íslands og EU:ES?

Hver ráðandi aflvaki viðskipta milli Íslands og ES:EU?

Vandamálið með Evru er að þá gefum við upp á bátinn að losa okkur við reglugerðapakka sem fylgir núverandi efnahagsaðild. Tækifærum til að hafa hæstu þjóðartekjur í heimi per fáa einstaklinga.

Annað er  að hvert er rétt gengi að mati EU:ES? Það mun nú vera svipað og í dag.

Flutningskostnaður [ kostnaðarsöm fjarlægðarhindrun] til Íslands og smæð heimamarkaðar Íslendinga  veldur því í augum ráðamanna EU að vara komin til Íslands frá EU sé umtalsvert dýrari.  80% innflutt flyst aftur út til EU:ES með sama umtalsverða flutningskostnaði.

EU liðið : úrvalsdeildin Þjóðverjar t.d. elska að búa til nákvæmi reiknilíkön fyrir allskonar rekstrakostnað t.d. nákvæmni kannski með  0,01% skekkju. Sem er nauðsynleg samkeppnihæfisforsenda hjá milljóna lávörusvæðum.

Fyrir þessu er engin hefð á Íslandi og hér er slumpað og hermt eftir næsta.

Það er fyrirfram dauðadæmt að einangrast inn í innbyrðis samkeppni miðstýrðra meðlimaríkja ES:EU.

Júlíus Björnsson, 26.5.2009 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband