20.5.2009 | 11:31
Um ESB umræðuna
"Það er enginn búmaður nema hann barmi sér" segir máltækið. Margir Íslendingar hafa í gegnum tíðina verið duglegir við að finna landi og þjóð allt til foráttu. Það er ekki bara verðrið, heldur líka stjórnmálin, heimska stjórnmálamanna, krónan, verðbólgan, vextirnir, lífskjörin, réttindi almennings, yfirstéttin, agaleysi, lýðræðishallinn, spillingin, gengissveiflur, verðlagið, launin og ýmislegt fleira sem er ómögulegt og mun verra hér en annars staðar. Íslendingar tjá sig á þennan máta í bloggi, í fjölmiðlum og á förnum vegi þegar þeir ræða hver við annan.
Á móti kemur að þegar þeir ræða við útlendinga þá hefur hin hliðin fremur verið uppi, þ.e.a.s. að Ísland sé best í heimi. Þessi neikvæðni í eigin garð hefur þannig verið mest megins til heimabrúks og því fremur saklaus þótt hvimleið sé, enda Ísland á flest alla mælikvarða það land í heiminum sem hefur staðið sig hvað best í að bæta kjör þjóðarinnar síðustu 70 árin eða svo. Hér hafa orðið gífurlegar framfarir á flestum sviðum þótt stundum hafi komið bakslag í seglin um tíma.
Á árunum upp úr 2000 tók að bera á nýrri stefnu á Íslandi í efnahagsmálum. Þessi stefna var kölluð útrás og var leidd af bönkunum og einstaka viðskiptajöfrum. Þessi nýja stefna kom í kjölfar smákreppu sem var á alþjóðavísu og var kölluð endalok dot-com bólunnar. Sú kreppa lýsti sér hér á landi fyrst og fremst sem samdráttur í nýsköpunarfyrirtækjum í hugbúnaðargeiranum. Í raun má segja að útrásarstefnan hafi átt sér nokkurra ára eldri rætur, því hún kom fram fullmótuð og tók í raun upp slakann strax þegar dot-com bólan sprakk. Þannig óx bankakerfið þrátt fyrir kreppu í tæknigeiranum.
Þessi nýja stefna samfara gífurlegum fjárfestingum og framkvæmdum í orkuiðnaði ýtti undir hagvaxtarbólu á Íslandi. Kynnt var undir þessari hagvaxtarbólu enn frekar með rangri stjórnun efnahagsmála sem fólst í lækkun skatta, auknu aðgengi að lánsfjármagni, lækkun vaxta og aðgengi að erlendum lánum á jafnvel enn lægri vöxtum. Seðlabankinn lækkaði bindiskyldu, hleypti inn jöklabréfum og einblíndi á neysluvísitöluna við ákvörðun vaxta án þess að skoða heildahagkerfið.
Þessi hagvaxtarbóla sprakk með miklum hvelli eins og kunnugt er. Þá bregður svo við að barlómarnir missa móðinn og fara að trúa eigin rausi um að hér sé allt ómögulegt og hafi alltaf verið og svo kunni að verða áfram enda séu Íslendingar vitleysingar of fífl sem ekki séu færir um að stjórna sjálfum sér og hafi aldrei verið. Jafnvel er fullyrt að mistök hafi verið að segja skilið við Danmörku. Þeir sem ekki sjá þetta séu mestu fífl og afturhaldsseggir og ef þeir séu ekki tilbúnir að koma landinu undir erlenda stjórn skynsamra manna með hraði sem geta haft fyrir okkur vit þá séu þeir einangrunarsinnar sem vilji halda öllu hér áfram á vonarvöl. Firra barlómanna er algjör.
Þeir sem leyfa sér að gagnrýna barlómana eru umsvifalaust gerðir tortryggilegir, fáránlegir eða snúið út úr þeirra málflutningi með því að gera þeim upp skoðanir.
Sjá t.d. http://eyjan.is/silfuregils/2009/05/19/gamlir-kommar-a-moti-esb/
Þetta eru samskonar vinnubrögð í stjórnmálaumræðunni eins og gagnvart þeim sem gagnrýndu útrásina sem kom þjóðinni í þann mikla vanda sem við blasir. Ekki má færa fram gagnrýni og ræða málin. Áfram skal keyrt með hraði, blink, og ekki íhuga skynsemina í aðgerðunum. Það er alveg sama þótt aðvörunarraddirnar séu háværar og staðfastar og beri rök fyrir máli sínu. Þær skulu hunsaðar, rægðar og lítilsvirtar.
Athyglivert er að svo virðist sem það séu að miklu leyti sömu aðilar sem gagnrýndu útrásina án árangurs og gagnrýna umsókn til ESB þrátt fyrir mótlæti. Athyglivert er líka að þeir sem rægja gagnrýnendur nú virðast að miklu leyti sömu aðilar og dásömuðu útrásina. Á þessu eru vissulega undantekningar, en eitt er víst að gagnrýnendur hafa núna vítið til varnaðar varðandi það að gefa eftir og verða undir. Gagnrýnin á útrásina var ekki nógu öflug og skilaði ekki árangri. Gagnrýni á ESB aðild verður að vera öflug og skila árangri. Það er um framtíð okkar að tefla.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.