2.6.2010 | 01:09
Ísrael og Ísland
Ég hef komið til Ísraels og Vestur-bakkans (lagst á Dauðahafið), en einnig lauslega kynnt mér landið og sögu þess. Nokkrum sinnum á ævinni hef ég hitt Ísraelsmenn og rætt við þá um landið og hin langvarandi átök við Araba. Ég hef einnig hitt Araba og rætt við þá um það sama.
Hér er minn sjónarhóll:
Ísrael og Ísland eru andstæðir pólar að mörgu leyti: heitt/kalt, stríð/friður, landamæri við óvini/eyja á hafi milli vini.
En það er einnig margt svipað með þessum ríkjum og þegar nánar er skoðað: Sjálfstæði upp úr seinni heimsstyrjöld, sókn til betri lífskjara, fulltrúalýðræði.
Í báðum löndum hefur fulltrúalýðræðið með hlutfallskosningu og flokkaskipan valdið því að einn flokkur fær yfirleitt ekki meirihluta og samsteypustjórnir eru reglan. Litlir flokkar um þrönga hagsmuni ráða miklu. Kosningakerfið er óskilvirkt og til verður valdastétt sem sér um sig og sína. Spilling þrífst þar sem kjósendur ná ekki til þeirra sem ráða. Valdahlutföll hnikast til í kosningum en breytingin er lítil sem engin í raun þegar búið er að semja um allar málamiðlanir og mynda samsteypustjórn.
Ég skynjaði uppgjöf og vonleysi hjá þeim sem ég ræddi við gagnvart því að leysa vandamálin. Stjórnmálin í Ísrael eru stöðnuð og því miður föst í þeirri stöðu að viðhalda ófrið. Kosningakerfið er óskilvirkt (eins og hér) og almenningur nær ekki að kalla fram breytingar. Þátttaka í kosningum í Ísrael hefur lækkað úr um 80% fram til ársins 2000 í um 65% árin 2001, 2003, 2006 og 2009. Almennt virðist viðurkennt að harðlínustefnan gangi ekki til framtíðar en valdastéttin í sínum málamiðlunum við smáa harðlínuflokka heldur öllu í sama farinu.
Spilling meðal ísraelskra stjórnmálamanna virðist grassera á öllum sviðum: valdníðsla, auðsöfnun, mútuþægni, ofbeldisverk, kynferðisafbrot. Dómskerfið tekur á einhverjum þessara mála en valdastéttin kemst sjálfsagt upp með margt.
Fyrir Íslendinga er athyglivert að kynna sér ísraelsku bankakreppuna 1983. Þar er uppskrift að íslensku bankakreppunni þótt betur hafi farið þar en hér. Þó fór svo á endanum að ríkið varð að taka yfir alla stærstu bankana. Samspil banka, lífeyrissjóða, stjórnmála, skuggafyrirtækja til að ráðskast með hlutabréfaverð í bönkunum, uppgjörsskýrsla og svo sú niðurstaða að enginn var saksóttur (verður það líka þannig hér?) eru allt atriði sem Íslendingar kannast við.
"Masada fellur ekki aftur" var kjörorð ísraelskra hermanna og vísuðu þar til sigurs Rómverkja á síðustu andspyrnu Gyðinga í uppreisninni um 70 eftir Kristsburð. "Aldrei aftur Helförin" er nýrra afbrigði sömu hugsunar að skilgreina sjálfa sig sem fórnarlömb og nauðsyn þess og réttmæti að berjast til síðasta manns. Þessi hugsun hefur smátt og smátt fjarlægt Ísrael pólitískt séð frá vestrænum þjóðum og virðist einungis geta endað á einn veg: í hörmungum.
Atburðirnir þegar Ísraelsmenn réðust um borð í skipalestina eru einungis enn eitt dæmið um þá hörmungarstöðu sem ríkið er fast í. Hófsamur almenningur hvort heldur er meðal Ísraelsmanna eða Araba þráir frið en ræður ekki við aðstæðurnar. Í stað þess að lægja öldurnar eru þær magnaðar upp stig af stigi.
Við þessar aðstæður er ekki rétt að hella enn frekar olíu á eldinn og skerpa línurnar. Aðgerðir eins og að slíta stjórnmálasambandi eða viðskiptabann ætti ekki að ráðast í nema raunhæfar væntingar séu um að þær skili árangri. Þ.e.a.s. að þær færi okkur nær friði og fjær hörmungunum. Einspil Íslands í þeim málum er í besta falli kjánalegt. Aðgerðir eins og þær að reyna að "tala eitthvert vit" í aðilana og fá þá til að sættast eru líka dæmdar til að mistakast enda er með þeim einungs verið að ráðast á birtingarmynd undirliggjandi vanda sem er margbrotinn og flókinn en liggur að miklum hluta í stjórnskipan beggja deiluaðila sem gerir harðlínuöflum of hátt undir höfði.
Mín tillaga er að báðir aðilar ættu að byrja á að einbeita sér að því að byggja upp skilvirkt lýðræði. Fyrsta skref í því hjá Ísrael ætti að vera að laga kosningakerfið.
Íslendingar gætu vísað veginn með því að laga sitt kosningakerfi fyrst og gera það skilvirkt og til fyrirmyndar.
Ef þú vilt breyta heiminum, byrjaðu þá á sjálfum þér.
Hrikalegir atburðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:48 | Facebook
Athugasemdir
Já friðarferli er dæmt til að mistakast. Værir þú diplomat,litist mér vel á þig sem sáttasemjara,en það eru glóandi hraunmolar í höfði aðila.
Helga Kristjánsdóttir, 2.6.2010 kl. 02:20
Þetta er þrusugóður pistill.
Guðmundur Ásgeirsson, 2.6.2010 kl. 02:51
Það er dæmigert fyrir Icesave-flokkana að ætla að keyra af afli mál eins og stjórnmálaslit við Ísrael. Þetta fólk kann sér ekki hóf og er tilbúið að fórna hagsmunum Íslendinga fyrir glórulausar öfgar sínar. Þannig hefur verið staðið að ESB-málinu og þannig hefur verið staðið að Icesave-málinu.
Aðild okkar að Evrópska efnahgssvæðinu er svo enn eitt málið sem keyrt var í gegn með offorsi og naumum meirihluta á Alþingi. Þessu auma fólki datt ekki í hug að spyrja almenning álits, og barátta þess gegn þjóðaratkvæðinu 6. marz 2010 sýndi enn einu sinni hversu fjarlægt Sossar allra flokka eru lýðræðinu.
Loftur Altice Þorsteinsson, 5.6.2010 kl. 17:08
Góður og upplýsandi pistill. Skynsöm niðurstaða.
Jón Baldur Lorange, 5.6.2010 kl. 22:46
En er ekki þing Ísraels lýðræðislega kjörið þar sem landið er eitt kjördæmi ? Ég hef haldið því fram að ógæfa Íslendinga stafi af fasismanum í kjördæmaskipuninni, þar sem sveitavargurinn ræður alltof miklu, stelur öllum bensínpeningunum af þéttbýlinu í skjóli þess osfrv. Er það ekki best að taka upp stjórnarskrá Bandaríkjanna hráa ? Þjóðkjósa forsætisráðherrann í tveimur umferðum ef fleiri en tveir keppa. Ákveða þetta á stjórnlagaþinginu sem vísar því til Alþingis sem gerir auðvitað ekkert með tillögurnar, því þeir láta aldrei völdin með góðu sem hafa fengið þau með illu
Halldór Jónsson, 15.6.2010 kl. 22:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.