Óskilvirkar kosningar

Hvaða raunhæfu væntingar er unnt að bera í brjósti til þess að eitthvað breytist til hins betra í íslenskum stjórnmálum?

Er hægt að vænta þess að baráttu um stóla linni? Er hægt að vænta þess að allir getir starfað saman á siðmenntaðan máta í eins konar 'þjóðstjórn' (eða sveitarstjórn) allra kjörinna fulltrúa? Er hægt að vænta þess að baktjaldamakkið hverfi? Er hægt að vænta þess að talað verði hreint út um málin?

Ég held að svarið við öllum þessum spurningum sé nei.

Ákvörðunarvald hefur tilhneigingu til að vera samþjappað og þar af leiðandi takmarkað við ákveðnar stöður eða stóla. Þeir sem vilja hafa áhrif vilja komast í þá stóla. Dreift vald þýðir hæga ákvörðunartöku. Oft þarf að taka ákvarðanir með stuttum fyrirvara.

Mannlegt eðli er enn hið sama. Sumum lyndir saman, öðrum ekki. Heimssýn fólks er mismunandi og þolinmæði og umburðarlyndi takmörk sett. Líklegt er að allar tilraunir til að mynda þjóðstjórnir í sveitarfélögum verði skammlífar. Til þess að slíkt samstarf gangi upp þarf einhvern ytri samþjöppunarkraft sem ég sé ekki að sé til staðar.

Viðkvæmni mála er enn hin sama. Stundum er þörf á að tala um hluti í smærri hópi áður en mál eru borin á torg í stærri hópi.

Niðurstöður kosningarnar núna eru skilaboð til stjórnmálamanna og annarra um að eitthvað sé að. En hvað?

Að mínu mati er eitt helsta vandamálið það að niðurstöðurnar núna (og áður) senda mjög óljós skilaboð. Kosningarnar eru ekki nægjanlega afgerandi.

Kosningar á Íslandi eru óskilvirkar sem verkfæri lýðræðisins. Í raun er einungis verið að kjósa um fulltrúa sem eiga að sitja næstu 4 árin og vinna eftir bestu getu í hag sveitarfélagsins. En kerfið er ekki mjög skilvirkt í því að leyfa almenningi að kjósa þessa fulltrúa. Flokkakerfið þvælist fyrir og ver í raun þá sem eru mest virkir í hverjum flokki. Ef fyrri kjósendur vilja hætta að styðja viðkomandi og færa sig milli flokka, þá er líklegast að þeir plokki einhverja lægra setta á kjörlista flokksins burt en viðkomandi flaggberi sitji áfram með sína stefnu og viðhorf. Og þar að auki má vera að einhverjir lágt settir hjá þeim sem nú fengu atkvæðið komist inn þótt kjósandanum mislíki þeir og hafi einungis ætlað að styðja nýja forystumann. Ofan á þetta er allt eins líklegt að viðkomandi minnihlutaflokkur myndi meirihluta með einhverjum öðrum minnihlutaflokki, jafnvel gegn þeim sem hlutu flest atkvæði eða juku fylgi sitt mest.

Ég held að skilaboð kosninganna hafi verið æpandi neyðarkall frá kjósendum þessa lands um skilvirkt lýðræði. Strax!

Ég hef þær væntingar og geri þá kröfu að kjörnir fulltrúar vorir endurskoði kosningalög til sveitastjórnarkosninga með það í huga að einstaklingar verði kosnir beint. Sama mætti gera fyrir landið allt.

Einstaklingar sem eru í framboði verði að afla skriflegs stuðnings tiltekins hlutfalls kjósenda til að teljast framboðshæfir. Þeir mega gjarnan tilheyra ákveðnum flokkum en við kjósum ekki flokka heldur fólk.


mbl.is Málefnavinnu að ljúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

"Til þess að slíkt samstarf gangi upp þarf einhvern ytri samþjöppunarkraft sem ég sé ekki að sé til staðar."

Kannski þarf bara að útrýma sundrungaröflunum, flokkakerfinu. Flokkspólitík er mannskemmandi enda frampot og erjur harðkóðaðar í hana.

Svanur Gísli Þorkelsson, 1.6.2010 kl. 02:02

2 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Gallinn við að kjósa menn beint í sveitastjórnir, sem síðan hafi sama vægi í sveitastjórninni með öðrum, sem náðu inn óháð atkvæðamagni á bak við hvern og einn er sá að þá er líklegt að menn kjósi ekki þann, sem þeim líkar best við ef þeir telja hann öruggan inn og kjósa í staðinn annan aðila, sem þeir vilja líka styðja en þeir telja ekki eins öruggan inn. Það kæmi þá ekki fram í kosningunum raunverulegur stuðningur bak við hvern mann. Þar að auki er þá ekki hægt að lesa skoðanir fólks á málefnum eins vel út úr kosningunum eins og þegar flokkar eru kosnir. Þannig geta minnihlutaviðhorf orðið ráðandi í sveitastjórninni ef fylgismönnum þeirra hefur tekist betur til en stuðningmönnum meirihlutaviðhorfa að meta stjöðuna rétt og kjósa taktískt eftir því hverjar skoðanir frambjóðenda eru.

Þannig getur sterkur meður með ákveðnar skoðanir á því hvernig reka skal sveitafélagið, sem meirihluti íbúa hefur, tekið til sín megnið af atkvæðum þeirra, sem eru þeirrar skoðunar meðan atkvæði manna með önnur viðhorf til málefna sveitafélagsins dreifast jafnar á stuðningsmenn þeirra viðhorfa meðal frambjóðenda. Einnig getur mikill fjöldi frambjóðenda með tiltekin viðhorf tekið svo mikið af atkvæðum frá hvorum öðrum að fáir eða engir þeirra komist inn og þannig geti minnilhlutaviðhorf hjá kósendum samt orðið ráðandi í sveitastjórninni.

Því er það mín skoðun að ef kosningakerfinu er breytt með þeim hætti að menn séu kosnir beint þá eigi vægi þeirra í bæjarstjórninni að vera mismunandi eftir því hversu mörg atkvæði þeir fengu. Þannig ætti atkvæðavægi fulltrúa, sem fær 2.000 atkvæði að vera tvöfalt meira en fulltrúa með 1.000 atkvæði á bak við sig. Þá þurfa kjósendur ekki að vera að velta þessari taktík fyrir sér og þá er ekki hætta á að minnihlutaviðhorf verði ráðandi í sveitastjórninni vegna þess að meirihlutaviðhorfin dreifðust ekki með eins hagkvæmum hætti milli frambjóðenda eins og minnihlutaviðhorfin.

Annar kostur við þessa aðferð er sá að þá þurfa menn ekki að binda sig við oddatölu með fjölda bæjarfulltrúa því þó fjöldi þeirra sé slétt tala þá verða samt mjög litlar lýkur á að til geti komið að atkvæðagreiðslur endi á jöfnu.

Aðalatiriðið er þó það að þannig nýtast öll atkvæði kjósenda og engin atkvæði detta í raun dauð niður eins og er í dag og yrið í enn meira mæli ef allir kjörnir fulltrúar í persónukjöri hafi sama atkvæðavægi í sveitastjórninni.

Sigurður M Grétarsson, 6.6.2010 kl. 16:52

3 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Ekkert kerfi er gallalaust og þegar verið er að sníða galla af einu kerfi er e.t.v. aðrir búnir til.

Ég sé frekar fyrir mér að hver kjósandi hafi allt að t.d. þremur atkvæðum og merki við 1, 2 eða þrjá þeirra sem hann vill kjósa. Kjósandinn getur raðað öllum atkvæðum á fulltrúa eins flokks eða á fulltrúa þriggja flokka ef honum líkar það betur. Lesið yrði úr seðlunum rafrænt.

Svo þarf að aðskilja kosningar í fulltrúaráð (Alþingi eða bæjarstjórn) og kosningu um hver á að leiða ríkisstjórn (forsetakosningar eins og í Bandaríkjunum eða Frakklandi).

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 6.6.2010 kl. 20:34

4 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Hvernig, sem þetta er útfært í kosningunum sjálfum og hvernig kjósendur mega kjósa er nauðsynlegt að mínu mati að sveitarstjórnarfulltrúi með tvö þúsund atkvæði á bak við sig hafi meira vægi í sveitastjórninni en sveitastjórnarfulltrúi með eitt þúsund atkvæði. Ef svo er ekki þá eru menn meira og minna að kjósa taktískt í kosningunum heldur en að kjósa eftir sannfæringu sinni.

Málið er að ef atkvæði allra sveitastjórnarfulltrúanna gilda jafnt í seitastjórninni þá eru í raun öll atkvæði greidd þeim umfram það, sem þurfti til að komast inn að falla dauð. Menn munu því ekki kjósa mann, sem þeir styðja ef þeir telja hvort eð er öruggt að hann komist inn heldur kjósa annan mann, sem þeir vilja líka styðja en telja ekki eins öruggan inn.

Það er langt frá því óþekkt fyribæri hér á landi að menn hafi mismunandi atkvæðastyrk. Í hlutafélögum hafa menn atkvæðarétt í samræmi við eignarhluta sinn og það sama á við á félags- og aðalfundum húsfélaga þar, sem menn hafa mismunandi atkvæðavægi eftir því hvað þeir eiga stóra íbúð.

Það er mín skoðun að persónukjör án mismunandi atkvæðavægis eftir kjörfylgi sé mun verri kostur en flokkakerfið vegna þess að það eru mun minni líkur á að niðurstaða í kosningum í slíku kerfi endurspegli vilja kjósenda heldur en í flokkakerfinu þar, sem flokkar fá þó mismunandi vægi eftir því hvað þeir fá mörg atkvæði. Ýmyndaðu þér kosningakerfi þar, sem alllir flokkar, sem ná manni inn í sveitastjórn hafi sama vægi óháð því hversu mörg atkvæði þeir fá. Flokkur með tíu þúsund atkvæði hefði þá jafn mikil völd og flokkur með fimm hundruð atkvæði ef fimm hundruð atkvæði nægja til að komast í sveitastjórnina.

Sigurður M Grétarsson, 6.6.2010 kl. 23:31

5 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Þakka þér gott innlegg. Ég reyni að átta mig á þessu með dæmi: 

10000 kjósendur. Eitt atkvæði á mann (1:1). 10 sæti. 100 í framboði.

1 fær 2000, 2 fær 1500, 3 fær 1500, 4 fær 1000, 5-10 fá 500 hver, 11-100 fá 1000 samanlagt en komast ekki inn.

Ætti þá #1 að hafa 4x atkvæðamagn á við #5-#10? Það gengur ekki upp. Niðurstaðan gæti orðið sú að 3 vinsælustu gætu ráðið öllu. Í versta tilfelli sá vinsælasti aleinn.

Vandamálið er hins vegar að aðilar #5-#10 gætu myndað meirihluta á móti #1-#4 sem væri þvert á vilja kjósenda sem er það sem þú átt við (ef ég skil þig rétt).

Ef við látum fulltrúana falla í vægisflokka (eins og ég skil að þú leggir til) t.d. : 2x vægi og 1x vægi og skiptum í flokkana þannig að ef einhver fær t.d. 3x fleiri atkvæði en sá sem fékk fæst þá væri staðan svona:

#1=2x, #2=2x, #3=2x, #4-10=1x. Samtals 13 atkvæði. Efstu 3 ásamt einum í viðbót (55% atkvæða) gætu ráðið með 7 atkvæði sín á milli, eða þá neðstu 7 saman (45% atkvæða) hver með 1 atkvæði.

Þetta er nauðsynleg viðbót við persónukjörið. Sérstaklega þegar haft er í huga að yfirleitt er ólíklegt að #1 og #2 séu af sama flokki. Það væri því líklegra að meirihluti sem yrði myndaður væri með meirihluta atkvæða á bak við sig.

Aukaatkvæðið sem 2x mennirnir fá mætti kalla jöfnunaratkvæði.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 7.6.2010 kl. 01:46

6 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það er vissulega varasamt að láta einn mann ráða öllu þó hann fái persónulega meira en 50% atkvæða. Því mætti til dæmis setja girðingu við því að einn maður hafi meira en til dæmis 33% eða 25% vægi í sveitarstjórn þó hann fái hærra hlutfall atkvæða en það. Hins vegar finnst mér ekkert að því að tveir eða þrír menn með yfir 50% atkvæða á bak við sig ráði. Það gerist í raun með formenn flokka í dag.

Einnig mætti hugsa sér þá reglu að ákveðinn aukinn meirihluti kjörinna fulltrúa til sæmis 60-67% gætu haft neitunarvald í ákveðnum málum jafnvel þó þeir hafi samtals innan við 50% atkvæða á bak við sig. Þá þyrfti hinn fámenni meirihluti alltaf að semja um slík mál við hins kjörnu fulltrúanna.

Í dæminu þínu eru þrír efstu með 50% heildaratkvæð á bak við sig þó þeir hafi 55% atkvæða þeirra, sem náðu kjöri. Þetta stafar af því að atkvæði greidd þeim, sem ekki náðu kjöri falla dauð. Ég er þeirrar skoðunr að persónukjör eigi að vera þannig að menn kjósi aðalval og varaval. Ef sá, sem kosinn er aðalvali nær ekki kjöri þá fær sá atkvæðið, sem kjörinn er varavali. Javnvel mætti hafa fleiri en eitt varaval í ákveðinni númeralröð þannig að gengið er niður listann og ef þar er einhver eða einhverjir, sem náðu inn í fyrstu umferð þá fær sá efsti meðal þeirra atkvæði þess kjósanda. Þannig féllu væntanlega mjög fá atkvæði dauð og einnig hefur þetta þann kosta að menn geta óhræddir kosið þann, sem þeir telja besta kostinn þó skoðankananir gefi til kynna að hann nái ekki kjöri. Gangi það eftir er alltaf varavalið eftir til að styðja þá, sem líklegra er að nái kjöri.

Reyndar er ég þeirrar skoðunar að þetta mætti líka gera í núverandi flokkafyrirkomulagi. Þá geta menn óhræddir kosið flokk, sem skoðanakannanir sýna að nái ekki inn manni en síðan sett varavalð á einhvern hinna flokkanna til að láta sitt atkvæði ekki falla niður dautt ef flokkurinn, sem kosinn er í aðalvali nær ekki inn manni. Þannig ættu lítil framboð, sem skoðanakannanir sýna að vafi er á að nái inn manni auðveldara með að ná í atkvæði því þá virkar illa sú aðferð stærri flokkana að segja við fólk að það kasti hugsanlega atkvæði sínu á glæ með því að kjósa ltila flokkinn.

Sigurður M Grétarsson, 8.6.2010 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband