Kosningakvíði, valþreyta og efi

Ég er Kópavogsbúi og finnst gott að eiga heima þar. Held reyndar að mér myndi þykja gott að búa víðast annars staðar líka því vellíðan kemur að miklu leyti innan frá. Ytri aðstæður hafa vissulega áhrif en ég held að munurinn á milli sveitarfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu sé ekki svo mikill að það hafi teljandi áhrif á það hvernig mér líður. Staða efnahagsmála í landinu hafa t.d. mun meiri áhrif og þau eru svipuð um allt land. 

Nú eru að koma kosningar og ég þarf að gera upp hug minn til þeirra sem bjóða sig fram til að stjórna Kópavogi. Ég veit ekki hvað ég að kjósa. Hvað er það sem skiptir mig máli í því samhengi?  

Hmmm ... 

Útsvarið, hraðahindranir, háhýsi hér eða þar, græn svæði, skólarnir, samgöngur, íþróttir, sundlaugar, fjármál, samkomuhús, uppbygging? 

Hvaða breyting mun eiga sér stað í þessum málum eftir því hvað ég kýs? 

Einhvern vegin held ég að breytingarnar yrðu litlar. Allir flokkar virðast styðja góð málefni og allir eru á móti vondum málefnum. Einn flokkur er reyndar að gera gys að öllu. Hæðist að stjórnmálamönnum almennt en e.t.v sérstaklega þeim sem eru í landspólitík. Er það e.t.v. málið? 

Á ég að greiða atkvæði í mótmælaskyni við allt það sem ég tel hafa farið miður í landsmálum? Eru þessar kosningar um það? 

Vissulega tel ég að mótmælin eigi rétt á sér og séu nauðsynleg. Skoðanakannanir hafa líka sýnt fram á að þau þarf að taka alvarlega sem er merkilega hressandi upplifun. Er e.t.v. mesta vægið í atkvæðinu mínu fólgið í því að nota það til að mótmæla. Ekki bara með því að skila auðu, því það svíður ekki undan því, heldur með því að varna hefðbundnum stjórnmálaöflum því að fá menn kjörna. 

Atkvæðið er afl til þess að styðja eða fella. Eða réttara sagt styðja og fella sitt hvorn aðilann.  

Hvað vil ég fella? 

Vafasama viðskiptagjörninga, hyglun, mismunun, spillingu, of langa valdasetu, ... 

Hvað vil ég styðja? 

Heiðarleika, hreinskiptni, frelsi, jafnræði, dugnað, djörfung, fagmennsku, frumleika, sköpun, gleði, samstöðu, jákvæða framtíðarsýn, ... 

Hvað á ég að kjósa? 

Framsókn, Sjálfstæðis, Frjálslynda, Samfylkingu, Vinstri græna, Næst besta eða Kópavogslistann? 

Hvers vegna get ég ekki fengið að kjósa menn óháð því í hvaða flokki þeir eru? Þannig er það yfirleitt í félögum.Svo skiptir stjórnin með sér verkum. Þetta flokkafyrirkomulag virðist óhentugt í sveitarfélögum. 

Ég held ég verði að kjósa þá sem virðast heiðarlegir og hafa svipaða lífsskoðun og ég. Hvort tveggja er erfitt að meta og svo þvælast flokkarnir fyrir. Ég neyðist til að gera málamiðlun.  

Hvaða flokkur er með flesta frambjóðendur sem ég get stutt og fæsta sem ég get ekki stutt?  

Er þetta e.t.v. óvinnandi verk? Á ég e.t.v. bara að gefast upp og mótmæla með því að kjósa grínistana? Þeir hafa alla vega til að bera marga þá eiginleika sem ég vil styðja. En hvað standa þeir fyrir eftir kosningar? 

Þarna er líka siðbótarframboð Kópavogslista. Henta þeir mér? Er atkvæði mínu kastað á glæ með því að kjósa þá? Á það að ráða vali mínu?  Held reyndar ekki.  

Ég á að kjósa Framsókn, Sjálfstæðis, Frjálslynda, Samfylkingu, Vinstri græna, Næst besta eða Kópavogslistann. Ég ætla ekki að skila auðu. 

Ég held ég viti hvað ég á að kjósa á laugardag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ungi maður á þessum tíma er þetta erfitt(ég er ekki að hugsa um hvað klukkan er orðin,heldur þessum eftir-hrunstíma). Á þínum aldri ákvað ég oftast rétt áður,eða jafnvel um leið og ég sté inn í kjörklefann,hvað ég ætlaði að kjósa.Ég var samt alltaf ákveðin að nota atkvæði mitt. Ég trúi að stjórnmálamenn gæti sín betur eftir alla gagnrínina. Tel að stjórnendur Kópavogsbæjar hafi bara staðið sig vel,en engin sleppur við gagnrýni það er næstum því lögmál.  Svona að lokum vil ég upplýsa (eins og í ævisögu) að eina grínarann sem ég myndi kjósa væri Ladda.

Helga Kristjánsdóttir, 28.5.2010 kl. 03:50

2 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 28.5.2010 kl. 08:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband