Egill Helgason fjallar um vaxtaokur lífeyrissjóðanna

Ég setti inn athugasemd á pistil hjá Agli Helgasyni sem heitir "Hagfræðingur: Ávöxtunarkrafa lífeyrissjóða heldur hagkerfinu í gíslingu". Athugasemd mín er hér á eftir (líklega er betra að lesa hana í samhengi á vef Egils - Ég vil einnig benda á fyrri færslu mína um sama efni: Stórmerkileg grein um ástæður hás vaxtastigs á Íslandi):

Ég fagna því að þetta mál er komið í umræðuna. Már Wolfgang Mixa skrifar einnig um þetta í dag (23.maí, 2010) í Fréttablaðið. Þetta er ein af risa stóru kerfisskekkjunum í hagkerfi okkar Íslendinga.

Þess má einnig geta að lífeyrissjóðirnir eru með samstarfsvettvang (samráð?) og fólkið þar virðist vinna á mjög svipaðan máta en það ýtir undir hjarðhegðun og einnig það að samkeppni milli þeirra er lítil bæði varðandi meðlimi og fyrir þá sem leita þurfa til þeirra með ósk um lán (fjármagnsstofnanir, orkufyrirtæki og aðrir).

Allt þetta gerir lífeyrissjóðina að gífurlega sterku afli sem hefur komist upp með að ganga hart að þjóðinni (einstaklingum og fyrirtækjum) með óraunhæfri ávöxtunarkröfu, en einnig það að lána peninga á óábyrgan máta hlaupandi eftir þeim sem bauð mesta ávöxtun og þar með mestu áhættuna. Tap sjóðanna á hruninu sýnir þetta vel.

Það sem Seiken er að benda á hér að ofan er sláandi. Það er ekki aðeins að sjóðirnir þvinga fram óbærilegt vaxtastig í krafti yfirburðastöðu á markaði og samráðs og hrekja þar með þjóðina í erlendar lántökur, heldur tapa þeir stórt á því þegar eignabólan springur sem þeir voru með í að skapa og ætla síðan að kreista síðasta blóðdropann úr hagkerfinu með kröfu um upptöku á eignum almennings og fyrirtækja.

Þetta er ein helsta ástæðan fyrir því að fólk vill kasta krónunni og tryggja sér framtíðaraðgengi að lægri vöxtum. Umræðan um upptöku Evru snýst að miklu leyti um flótta frá ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna, þ.e.a.s. að losna undan háum íslenskum (lífeyrissjóðs-)vöxtum.

Ég styð heils hugar kröfuna um að miða við raunstýrivexti Seðlabanks.

Einnig legg ég til að með lögum verði lífeyrissjóðum gert skylt að láta meðlimi kjósa stjórn sjóðanna og að eftirlit verði haft með samráði þeirra og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Það losar þá að einhverju leyti undan hjarðhegðun og það losar einnig verkalýðshreyfinguna úr álögum.

Loks vil ég hvetja Egil Helgason til að fylgja þessu stórmáli eftir með umfjöllun í Silfri Egils.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Íbúðalán bera minnst 8% raunvaxtakröfu hér á landi þegar heildarvaxtakrafa er allan lánstímann er borin sama við þróun neysluvísitölu. Góða við verðtrygginguna er að á föstu heildar umsömdu vaxtakröfunni er að hún sannar að hér er svindlað á jafngreiðslukerfinu með því að uppreikna fyrirframreiknaðar greiðslur. Með nýjum vöxtum , Þetta eru kallað verðbætur hér en fraud erlendis.  Þessum mánaðar ofreikuðu vöxtum er svo bætt á höfuðstólinn til að verðtryggja þá.

Verðbólgu leiðréttingar eiga að hækka höfuðstól greiðslunnar með vöxtum og afborgunum inn í sér. Síðan er nýi samsetti höfuðstólinn margfeldi þeirra gjaldadaga sem eftir er.  Þetta er alþjóðlega aðferðin við að halda sig laga megin.

Júlíus Björnsson, 29.5.2010 kl. 03:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband