Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
28.1.2009 | 09:52
Endurskoðendur og falskaupmenn
Íslenska efnahagsundrið virðist hafa verið keyrt áfram af falskaupmönnum (sjá færslu fyrri færslu mína) og endurskoðendur, eftirlitsstofnanir og bankarnir brugðist eftirlitshlutverki sínu. Reyndar virðast endurskoðendur og bankar hafa tekið virkan þátt með falskaupmönnunum. Meðvirknin felst í því að styðja við eða samþykkja ofmat á eignum sem svo eru teknar sem veð fyrir lánum.
Hér er hlutur endurskoðenda athygliverður (FME er að ganga í endurnýjun og bankarnir að hluta líka svo ég tala ekki um þá hér) en þeir hafa hingað til sloppið nokkuð vel frá gagnrýni. Þannig eru stóru endurskoðunarfyrirtækin sem endurskoðuðu bankana ennþá á fullu við að endurskoða þá þótt þeir hafi skipt um banka. Þetta er væntanlega ekki svo stór hópur fólks sem hefur gengið í sömu skóla og þekkist jafnvel ágætlega innbyrðis. Þeir hafa e.t.v. í mörgum tilfellum verið virkir sem ráðgjafar til falskaupmannanna líka og aðstoðað við stofnun eignarhaldafélaga til að fela eignartengsl.
Falin eignartengsl eru einmitt mikilvægur hluti í markaðsmisnotkun í þeim tilgangi að keyra upp markaðsverð eða ýkja verðmat á eignum falskaupmanna. Þannig geta endurskoðendur sem skoða kaup óþekkts aðila látið eins og hann sé óskyldur eigendum og verðið í viðskiptunum því marktækt sem markaðsvirði og þar með gangvirði fyrirtækisins. Ef um skylda aðila væri að ræða yrðu þeir að beita öðrum (og flóknari) aðferðum við verðmat.
Falið eignarhald er því mikilvægt til að endurskoðendur geti sett kíkinn fyrir blinda augað og látið eins og allt sé í lagi og verðmatið hátt. Þeir skrifa undir verðmatið og falskaupmaðurinn fer í bankann og fær lán út á veð í eigninni.
Mikilvægt er í uppgjörinu sem nú er í gangi að endurmeta allar eignir miðað við forsendur á þeim tíma sem viðskipti með þær fóru fram. Þar skiptir öllu að nota ekki markaðsvirði blint heldur meta gangvirði út frá væntum framtíðar afrakstri eða öðrum aðferðum. Ef misræmi er umfram eðlileg skekkjumörk, t.d. 10%, þá er ætti það að vekja grun um markaðsmisnotkun. Eru einhverjar líkur á því að endurskoðendur finni þá villu hjá sjálfum sér eða félögum sínum? Eða munu þeir áfram miða við markaðsvirði í viðskiptum óskyldra aðila?
Milljarðalán skömmu fyrir hrun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.1.2009 | 08:39
Trommubyltingin
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2009 | 00:47
Er verðbólgumælingin verðbólguhvetjandi?
Verðbólga er mæld með vísitölu neysluverðs en um hana gilda lög 12/1995 með breytingarlögum 27/2007. Lögin fela Hagstofu Íslands útreikning miðað við verðlag í hverjum mánuði á vörum í grunni sem Hagstofan ákveður þar sem vægi hverrar vöru er fundið út frá neyslukönnun. Sú neyslukönnun fer fram eigi sjaldnar en á fimm ára fresti, en er nú gerð árlega og uppfært í mars.
Í skýrslu Rósmunds Guðnasonar hjá Hagstofu Íslands (Hvernig mælum við verðbólgu? Fjármálatíðindi 51. árgangur fyrra hefti 2004, bls. 43) má lesa:
Neytendur bregðast við og ef þeir kaupa sömu vörur annars staðar, á lægra verði, þarf að taka tillit til þess í vísitöluútreikningi annars verður bjagi vegna innkaupa heimila í vísitölunni (e. shopping substitution bias). Hingað til hefur ekki verið hægt að fylgjast með slíkum breytingum vegna þess að upplýsingar skortir og slíkur bjagi er oftast nefndur bjagi vegna staðkvæmni verslana (e. outlet substitution bias). Umræða um þessa tegund bjaga hefur ekki verið mikil að umfangi alþjóðlega og leiðréttingar á vísitölum vegna þessa heyra til undantekninga.
Þegar ekkert tillit er tekið til breytinga á staðkvæmni heimilisinnkaupa í neysluvísitölum er gert ráð fyrir að allur verðmunur sem er á milli verslana stafi af því að þjónusta þeirra sé mismunandi að gæðum. Sé það gert mælist engin verðbreyting í vísitölum þegar neytendur breyta innkaupum. Vanmat á gæðabreytingum vöru eða þjónustu leiðir til ofmats á verðbólgu. Slík hætta er mest þegar verðbólga eykst snöggt og innkaup heimila breytast mikið.
Afleiðing af röngum forsendum útreiknings vísitölu neysluverðs er eignaupptaka og stangast því að öllum líkum á við stjórnarskrá. Hér er verkefni fyrir lögfræðinga að spreyta sig.
Hér skal gerð tilraun til að sýna hve mikið er í húfi. Fram hefur komið fram að hvert íslenskt skuldar að meðaltali um 10 milljónir verðtryggðra króna. Hvert prósentustig í verðbólgu á ári kostar því um 100.000 krónur í hækkuðum höfuðstól. Gengi íslensku krónunnar hefur fallið og valdið um 70% hækkun erlends gjaldmiðils frá byrjun árs.
Tölur um innflutning sýna ekki sérstaklega stökk til samræmis við gengi á sama tíma sbr. með-fylgjandi mynd sem sýnir FOB verðmæti innflutnings. Reyndar hefur innflutningur einungis aukist um 22% mælt í íslenskum krónum það sem af er ári. Athyglivert er að á tímabilinu ágúst til nóvember er innflutningur ekki nema um 20% meiri en árið áður þrátt fyrir um 70% hækkun erlends gjaldmiðils. Mismunurinn er samdráttur í neyslu á innfluttum vörum. Þessi samdráttur ætti að hafa áhrif til lækkunar þegar vísitala neyslu er reiknuð, en gerir það ekki samkvæmt núverandi aðferðum við útreikninginn. Ef gert er ráð fyrir að innfluttar vörur séu um 40% af neyslu og að innlendur kostnaður standi að öðru leyti í stað, þá ætti 70% hækkun á vörunum að valda um 28% verðbólgu. Þetta er einmitt svipað og sú verðbólgan sem við sjáum að vísitalan er að mæla nú um stundir. En vegna samdráttar í innflutningi þá var hækkunin á innfluttum vörum í raun einungis um 20% sem ætti að valda um 8% verðbólgu. Mismunurinn er heil 20 prósentustig eða tvær milljónir á ársgrundvelli. Það þýðir líka um 200.000 í viðbótar afborganir á ári. Verðbólgan er því ýkt um meira en tvo þriðju.
Þessar tvær milljónir munu núna næstu mánuði leggjast ofan á 10 milljóna króna lán meðalheimilis vegna þess að verðbólga er sögð vera 28% þegar hún í raun er einungis 8%. Fyrir hverjar verðtryggðar tíu milljónir sem almenningur eða fyrirtæki skulda er þetta tveggja milljóna króna eignartilfærsla án réttlætingar í raunveruleikanum. Og til að gera dæmið enn verra þá taka ýmsir samningar, t.d. leigusamningar, launasamningar o.fl. mið af þeirri verðbólgu sem sögð er vera í landinu og hækkanir verða í kjölfarið í samræmi við þessa uppgefnu verðbólgu. Þar með verður verðbólgumælingin ekki mæling heldur spá sem lætur sjálfa sig rætast.
Vegna þessara áhrifa af neysluvísitölu er ljóst að það er ekki verðtryggingin sem er vandinn heldur vísitalan sjálf. Þótt verðtryggingin yrði aflögð myndi víxlverkun vísitölu og verðlags valda sama skaða.
Taka þarf að upp aðrar aðferðir til að meta verðbólgu. Aðferðir sem henta litlu þjóðfélagi með hvikult efnahagslíf. Núverandi aðferðir eru stórskaðlegar. T.d. má benda á áhrif vísitölunnar á ákvarðanir Seðlabanka um stýrivexti. Ef vísitalan hækkar of ört þá eru stýrivexti hækkaðir.
Nú ríkir neyðarástand í efnahagsmálum sem kemur fram í mörgum myndum. Brýnasta úrlausnarefnið sem takast þarf á við er auðvitað að hækka gengi krónunnar. En það er jafnframt orðið brýnt að leiðrétta verðbólgumælinguna sem nú ofmetur verðbólgu og notar ofmatið er að knésetja fyrirtæki og almenning í landinu.
Notkun vísitölunnar er mistök sem hafa leitt til ólögmætrar eignatilfærslu og má því ætla að sé stjórnarskrárbrot. Leiðrétta þarf einhliða vísitöluna strax niður á við og án eftirmála.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)