Þorvaldur Gylfason dregur ranga niðurstöðu af réttum rökum

Þorvaldur Gylfason ritar ágæta grein sem andsvar við grein Anne Silbert: "Undersized: Could Greenland be the new Iceland? Should it be?" nema hvað hann dregur ranga niðurstöðu af máli sínu.

Anne skrifar kostulega grein um að líklega sé betra fyrir Grænland að reyna ekki að feta í fótspor Íslendinga í sókn eftir betri lífskjörum og opinberar þar vanþekkingu sína á íslenskri og grænlenskri sögu. Hún bendir á að meiri sveiflur séu í litlum hagkerfum en stórum í ýmsum hagstærðum máli sínu til stuðnings þótt vandséð sé að það komi málinu nokkuð við frekar en að benda á aðra augljósa staðreynd eins og að hitastig fari almennt lækkandi eftir því sem norðar dregur. Svo segir hún að erfiðara sé að manna stöður embættismanna vegna fámennis og nefnir Davíð Oddson í því samhengi. Niðurstaða hennar virðist vera að lönd geti verið of smá til að vera sjálfstæð, en hún setur þá niðurstöðu reyndar fram sem spurningu.

Þorvaldur bendir réttilega á að "Reynslan sýnir, að smáþjóðum vegnar í efnahagslegu tilliti engu síður en stórþjóðum á heildina litið og stundum betur að því tilskildu, að smálöndin bæti sér upp óhagræði smæðarinnar með miklum viðskiptum við önnur lönd."

Þetta er alveg rétt hjá Þorvaldi. En hann segir líka "Heimurinn er nú safn smáríkja, því að smálöndin eru mörg og stórveldin fá. ESB er smáríkjasamband."

Nú er það þannig að í ESB eru vissulega margar smáþjóðir og í þeim skilningi er ESB smáríkjasamband. En staðreyndin er sú að í ESB er meirihluti íbúa í ríkjum sem eru síður en svo smáþjóðir meðal þeirra þjóða sem í sambandinu eru (þótt jafnvel Þýskaland sé smátt í samanburði við nokkur ríki utan ESB eins og Bandaríkin, Kína og Indland). Þessi ESB stórríki ráða ferðinni sbr. tilraunir Frakka í október á síðasta ári til að fá stórríkin í álfunni til að bregðast við kreppunni. Smáríkjunum var ekki boðið á þann fund. Jaðarsvæði hafa ekki mikið vægi innan ESB (þótt þau hafi vissulega hlutfallslega meira vægi en kjarninn þá dugar það ekki til).

Svo lýkur Þorvaldur greininni á orðunum: "Íslendingar tóku rétta ákvörðun í sjálfstæðismálinu á sínum tíma. Engin efnahagsáföll munu nokkurn tímann raska þeirri niðurstöðu. Mannfæð þarf ekki að standa í vegi fyrir skilvirku fullveldi, hagvexti og velferð, sé vel á málum haldið, þótt færa megi rök að því, líkt og Einar Benediktsson gerði, að fleira fólk myndi lyfta landinu. Aðild að ESB stefnir að stækkun Íslands."

Allt er þetta rétt nema síðasta setningin. Hvernig aðild að ESB getur stækkað Ísland er mér óskiljanlegt. Aðild Íslands að ESB stækkar ESB en gerir lítið úr sjálfstæði Íslendinga og frelsi til að eiga viðskipti við aðrar þjóðir en innan ESB. Þessi síðasta setning Þorvaldar hljómar í mín eyru eins og að segja: "meðalhitastig á Íslandi hækkar við að landið gerist meðlimur að ESB".

Grein Þorvaldar öll fyrir utan þessi ESB innskot er röksemdarfærsla fyrir sjálfstæði smáþjóðarinnar Íslands sem þarf að stunda góð viðskipti við sem flestar aðrar þjóðir og getur þannig náð (og hefur náð) betri árangri en flestar aðrar þjóðir.

Við megum ekki villast af leið þótt á mót blási nú um stundir. Saga Íslands frá sjálfstæði er ótrúlega glæsileg og ætti að vera Grænlendingum okkur sjálfum óhrekjanlegur vitnisburður um getu og möguleika smárra þjóða til að ná árangri. Við eigum að halda áfram á sömu braut, vinna okkur út úr kreppunni og halda áfram að byggja upp land og þjóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ef maður er á móti ESB er enginn vandi að finna fyrir því rök. Eru það nógu haldbær rök? Það er vandamálið. Ég get ekki séð að Þorvaldur Gylfason flani að neinni ályktun. Auðvitað verður Ísland sem hagkerfi stærra í samhengi ESB enda þar um að ræða tollfrjálst viðskipti upp á hálfan milljarð manna. Getum við nýtt okkur þetta? Að sjálfsögðu svo lengi sem við vitum hvað 'við' erum og getum unnið sameiginlega útfrá því. ESB kemur ekkert í veg fyrir það að hver sé sjálfum sér næst nú einsog endranær.

Gísli Ingvarsson, 13.8.2009 kl. 13:56

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Góð grein hjá þér!

Ásgeir Rúnar Helgason, 13.8.2009 kl. 14:03

3 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Já þetta eru skrítin rök hvernig sem maður túlkar þau.  Svipað og þegar Vestmannaeyingar segja að Ísland sé stærsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum :)
Almennt er ég sannfærður um að það sé styrkur í smæðinni ef þjóðin heldur rétt á spilunum. Það veitir okkur gífurlega möguleika og tækifæri að vera sjálfstæð þjóð miðað við t.d. einhvern 300 þúsund manna bæ í USA eða Evrópu.

Þorsteinn Sverrisson, 13.8.2009 kl. 22:42

4 identicon

Frábær athugun hjá þér. Eitt reku sig á annars horn hjá prófessornum.

HALLDÓR JÓNSSON (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband