Versti kostur af mörgum vondum

Vissulega eigum við einungis mismunandi slæma kosti. Þessi sem Steingrímur tók er mjög slæmur. Hann veldur 2,7+8 milljarða kostnaði hjá heimilum landsins en fær bara 2,7 til sín en fjármagnseigendur fá 8.

Þessir 8 milljarðar eru vaxtaberandi til framtíðar.

Betra hefði verið að gera 10,7 milljarða upptæka hjá heimilunum. Það hefði gefið meira í ríkissjóð. Heimilin finna jafn mikið til.

Svo má ekki gleyma því að þessir 2,7 milljarðar koma af neyslufé almennings sem einnig þarf að nota í aðrar vörur og til að borga af lánum. Almenningur eyðir þá minna í annað og þar koma þá minni neysluskattar. Þetta er því algjörlega að pissa í skóna og mjög slæmur kostur af mörgum slæmum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Solheim

Það er alveg hreint óþolandi að gott mál eins og að hækka áfengi og tóbakk skuli leiða til þeirra hörmunga að lán almennings hækka um 8 milljarða. Allt út af krónunni sem þér þykir svo vænt um.

Einar Solheim, 29.5.2009 kl. 11:30

2 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Mikið ertu duglegur að snúa útúr Einar minn og gera mér upp skoðanir.

Krónan er eins og íslenska veðrið, ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Við kúldrumst hér uppi á þessu skeri ekki til að njóta veðursins og galla krónunnar, heldur vegna þess að hér eru okkar rætur og hér getum við ræktað okkar menningu og byggt upp fjölbreytt og kröftugt þjóðlíf með góðum lífskjörum. Þessum gæðum viljum við ekki fórna.

Líklega er þess virði að þola veðrið, en það er ekki þar með sagt að það sé gott eða öllum þyki vænt um það (þó þeir finnist sjálfsagt). Krónan hefur farið illa með okkur og við illa með krónuna. Fáum þykir sérstaklega vænt um krónuna og ég vildi fegin skipta henni út ef ég tryði því að það væri til bóta almennt séð.

Að fórna krónunni fyrir t.d. evru kann hins vegar að valda því að við fórnum einhverju af því sem ég vil að sé á Íslandi: velmegun, fullt atvinnustig, fjölbreytni atvinnumöguleika, góð lífskjör, vaxandi þjóð. Þá vil ég frekar lélega krónu en fórna þessu.

Ég veit að margir halda því fram að ég hafi rangt fyrir mér og að taka upp annan gjaldmiðil sé einmitt það sem þarf til að tryggja þetta sem ég er að tala um og ég vil gjarnan trúa þeim. Þrátt fyrir tilraunir til að láta sannfærast hefur mér ekki tekist það. Ég sé dæmi um að þessi málflutningur ESB aðildarsinna er rangur. Ég sé mörg dæmi um það að þrátt fyrir sannanlega ágalla krónunnar þá höfum við náð betri árangri en flestar þjóðir. Ég er hins vegar sannfærður um það að við höfum farið mjög illa með krónuna og erum enn að. Við verðum að hætta því.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 29.5.2009 kl. 11:46

3 Smámynd: Einar Solheim

well... ég held að þú þurfir bara aðeins að hugsa málið ;)

Þú gerir þér grein fyrir því að þú kýst að halda í krónu sem við vitum að er vond, í stað þess að taka upp evru sem væri kannski vond ef spár verstu bölsýnismanna ganga eftir. Þetta er íhaldssemi af verstu gerð, og það er alveg ljóst að hugsuðu allir eins og þú þá værum við enn í torfkofum. ...sem ég gruna reyndar að sumir ESB andstæðingar væru alveg til í.

Einar Solheim, 29.5.2009 kl. 11:55

4 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Þú heldur áfram að trampa í spínatinu og gera fólki upp skoðanir. Þú færir e.t.v. að geta metið málin hlutlaust ef þú létir af þessum ósið.

Ég hef ekki bara hugsað málið. Ég hef kynnt mér málið í langan tíma. Mín niðurstaða er sú að það borgar sig ekki að fara í ESB. Ég er opinn fyrir rökrænni umræðu því markmiðið er að byggja upp íslenskt þjóðfélag. Breyta því til batnaðar. Þú getur kallað þá stefnu það sem þú villt, en ég er hræddur við að þá sértu enn og aftur að gera mér upp skoðanir sem ég kannast ekki við.

Þessi hérna hjá þér er góður, eða þannig: "Ef allir hugsuðu eins og ég væru Íslendingar í törfkofum". Ha ha ha.

En þú toppar þig með því að bæta við:

"sem ég gruna reyndar að sumir ESB andstæðingar væru alveg til í".

Ég væri sjálfsagt máttlaus úr hlátri ef þetta væri fyndið.

Rökfimi þín er sláandi.

Hættu nú að gera þér erfitt fyrir í að öðlast þann skilning sem þú segist vera að leita að með bloggi þínu. Ekki gera öðrum upp skoðanir heldur athugaðu hvers vegna þeir (sem færa rök fyrir máli sínu) eru á móti. Þú munt væntanlega komast að því að flestir Íslendingar, með eða á móti, vilja byggja hér upp öflugt og lífvænlegt þjóðfélag og að það er í raun lítill munur á því fyrirmyndarþjóðfélagi sem fólk vill. Þú munt líka komast að því að flestir óttast það sama, þ.e.a.s. að ekki takist að byggja upp þetta þjóðfélag.

Munurinn er ekki sá að sumir vilja fyrirmyndarþjóðfélag en aðrir glötun.

Munurinn liggur í því hvað menn telja að stuðli að fyrirmyndarþjóðfélaginu og hvað menn óttast að leiði til vandræða.

Þegar þú ert búinn að skilja þetta þá hættir þú vonandi að gera fólki upp skoðanir og getur farið að rökræða orsaka og afleiðingatengsl á vitrænan máta.

Þá ferðu e.t.v. að sjá svarið við spurningu þinni: Hvernig stendur á því að til eru íslendingar sem telja að hagsmunum okkar sé betur varið utan ESB en innan sambandins? 

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 29.5.2009 kl. 12:17

5 Smámynd: Einar Solheim

Ef þú tókst eftir því þá setti ég þetta merki " ;) " á eftir því að þú ættir að kynna þér málið. Ég hélt að þú værir nægilega sjálfsöruggur til að vita að með þessu var ég að djóka. Þér að segja þá tek ég ekki meira mark á neinum ESB andstæðing en þér. Mér finnst þú hafa tiltölulega yfirgripsmikla þekkingu, þú ert tiltölulega frumlegur í þínum málflutning (hann er ekki tekinn beint upp úr kennslubókum LÍÚ og Heimssýnar) og þú ert sérlega góður í að koma sjónarmiðum þínum á framfæri. Ég var sem sagt að djóka þegar ég sagði að þú ættir að kynna þér málin. Þú ert reyndar það skynsamur í málflutningi að ég á erfitt með að átta mig á hvernig þú ferð að því að komast að þeirri niðurstöðu að þú sért andstæður inngöngu Íslands í ESB. Flestir sem láta á sér bera í ESB andstöðu eru annaðhvort gífurlegir íhaldsseggir, heimskir eða eru með tiltölulegum augljósum hætti að vernda einhverja sérhagsmuni. Þú ert greinilega ekki heimskur, ég veit ekki með sérhagsmunina, en íhaldssemi virðist vera til staðar.

Ég sé ekki hvernig ég er að gera þér upp skoðanir. Hvar er ég að gera þér upp skoðanir í því sem ég skrifaði síðast? Þú vilt frekar krónu en Evru með inngöngu í ESB. Ég hef aldrei séð þig halda öðru fram.

Mér finnst líka alveg óþarfi að hlæja. Mér finnst ekkert fyndið við það að menn trúi eigin hræðsluáróðri, sem skilar sér í öfgaíhaldssemi. Það er kannski smá hlægilegt, en ekki á góðan máta.

Ég vil fyrirmyndarþjóðfélag og því vil ég ganga í ESB. Ég vil að Íslendingar losi sig við þá kvöð að þurfa að vinna meira en allir aðrir til að vega upp á móti þeim kostnaði sem krónan leiðir af sér. Með krónunni er það sjálfgefið að við þurfum að vinna meira og betur fyrir sömu lífskjörum. Ég hef líka í störfum mínum unnið mikið með norðurlandaþjóðum og evrópuþjóðum, og í hjarta mínu veit ég að þetta er félagsskapur þar sem við eigum heima í. Við erum norræn þjóð og eigum heima í samfélagi Evrópuþjóða. Ég hef reynslu af því að búa erlendis, og ég þekki á eigin skinni þau áhrif sem óstöðugleikinn á Íslandi hefur í för með sér.

Ég hef eflaust lesið mun meira sem ESB andstæðingar hafa skrifað en þeir sem vilja ganga inn í ESB. Mér finnst þú á köflum færa ágætis rök fyrir þinni skoðun, og þú fellur ekki í þá gildru að halda stöðugt fram einhverju rugli sem löngu er búið að sýna fram á að sé kjaftæði. Það er þó þannig að þín rök mega sín einfaldlega lítils gegn þeim staðreyndum sem öskra á okkur.

...og að lokum: Svarið við spurningunni þinni er:

Heimska, íhaldsemi, blinda á stöðu almennings og/eða eiginhagsmunagæsla.

Einar Solheim, 29.5.2009 kl. 14:26

6 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Allt í góðu Einar.

Svarið við spurningunni er auðvitað margþætt og mismunandi eftir því sem við á. Eitt svar vantar: Að viðkomandi hafi kynnt sér málið og vegið það út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar og komist að þeirri niðurstöðu að aðild að ESB sé ekki ráðleg.

Í þessu samhengi vil ég benda á: Det økonomiske råd um evru í stað danskrar krónu

Ég get upplýst þig að ég er ekki að berast fyrir hagsmunum einhvers þröngs hóps nema þá auðvitað minnar fjölskyldu (það eru auðvitað eiginhagsmunir). Ég á engan kvóta. Ég hef heldur betur fundið fyrir kreppunni á eigin skinni og skil ekki nálgun ríkisstjórnarinnar í málefnum heimilanna.

Mér blöskrar að ekki er unnt að ræða raunveruleg vandamál þjóðarinnar vegna þess að ESB er sett á dagskrá, að því er virðist einungis til að halda okkur frá því að ræða það hvernig við leysum vandann og finnum hina seku.

Það er margt að peningamálastefnu okkar í víðum skilningi. Þar má margt bæta og þar með sníða helstu vankanta af krónunni. Þetta þarf að skoða og ræða

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 29.5.2009 kl. 16:36

7 Smámynd: Einar Solheim

Hárrétt - það er margt að peningamálastefnunni, en krónan á sér enga framtíð. Þetta þarf að skoða og ræða. Það væri samt ótrúlega lélegt ef við gætum ekki skoðað það og rætt á meðan aðildarumsókn til ESB þvælist um innanhúspóstkerfið í Brussel. Umsókn um aðild að ESB er engin afsökun eða ástæða fyrir því að ekki sé tekið rétt á málum hérna heima að öðru leyti.

Þú skýtur sjálfan þig reyndar smá í fótinn með því að vitna í þessa grein. Á bls. 28 sem þú vitnar sérstaklega til stendur:

"Altså har vi gennem fastkurspolitikken allerede høstet en stor del af de økonomiske fordele der er ved euroen - og de yderligere fordele der måtte være er beskedne."

Þeir segja hér að stór hluti ávinningsins við Evruna sé fenginn með fastgengisstefnunni. Það er alveg rétt. Danski og Evrópski seðlabankinn standa sameiginlega að því að halda dönsku krónunni innan skekkjumarka við evruna. Í þessu felst gífurlegur ávinningur, og þá enn frekar fyrir okkur en fyrir dani. Það er því skiljanlegt að lítið til viðbótar ávinnist með því að ganga alla leið og taka upp Evru. Það hefur þó verið sagt að vextir til almennings gætu mögulega lækkað um allt að 0,5%, og ég er nú viss um að margir danir væru ágætlega sáttir við það.

Tenging dönsku kr við evru er einmitt fyrirmynd að því sem við eigum að sækjast eftir að verði fyrsta skref okkar í kjölfar samnings við ESB. Tenging ISK við EUR með stuðningi evrópska seðlabankans myndi tryggja þann stöðugleika og trúverðugleika sem við þurfum.

Einar Solheim, 29.5.2009 kl. 19:09

8 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Ég er opinn fyrir öllum tillögum og vil komast til botns í þessu máli. Ég hef ekki gefið mér niðurstöðu fyrir fram eins og þú gerir þegar þú segir að krónan eigi sér enga framtíð. Ég stend vel í báða fætur.

Þetta með fastgengisstefnu er eitthvað sem Samtök Iðnarðarins hafa verið að nefna nýlega sem lausn sem stefna megi að og má vissulega skoða. Samningar við Evrópska Seðlabankann er ein lausn. Slíkir samningar þurfa ekki að fela í sér aðild að ESB nema að pólitísk óvild sé að baki andstöðu við það.

Um þetta efni á ég eftir að skrifa meira seinna.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 29.5.2009 kl. 19:45

9 Smámynd: Einar Solheim

Ég er ekkert að dæma krónuna eitthvað út í loftið. Krónan var líka ónýt fyrir fallið. Ég er búinn að tala um það í 10 ár að við ættum að losa okkur við þessa ónýtu krónu. Fyrir almenning hefur krónan alltaf verið ónýt. Það var reyndar kynslóð sem stórgræddi á krónunni þegar þeir gátu tekið óverðtryggt lán í krónum sem varð að engu vegna verðrýrnun krónunnar og þ.a.l. hækkandi verðlags. Sú reynsla leiddi af sér verðtryggingu, en verðtryggingin er fjárhagslegur tvíburi krónunnar. Verðtryggingin er í sjálfu sér ekkert svo hræðilega slæm. Það væri lítið að því að vera með verðtryggt lán í Evrulandi þar sem vísitala neysluverðs breytist lítið á milli ára. Það eru þær aðstæður sem gera verðtryggingu NAUÐSYNLEGA sem er vandamálið - það er íslenska krónan.

Í langan tíma hefur krónan tryggt fákeppni á flestum sviðum á Íslandi. Krónan er eins og virkismúr sem heldur áhugasömum fjárfestum í burtu frá landinu. Krónan er tól einangrunnar- og einokunarsinna. Krónan getur því svo sannarlega þjónað ákveðnum sérhagsmunahópum, en almenningur hefur alltaf liðið fyrir hana, fyrirtæki sem sækjast eftir erlendri fjárfestingu líða fyrir hana, fyrirtæki sem horfa út fyrir landsteinana í starfsemi sinni líða fyrir hana. Stjórnmálamenn og þeir sem stjórna peningarmálum hafa hins vegar um áratugaraðir getað falið mistök sín með krónunni. Stærsta vandamálið er að hingað til hefur krónan bara verið stór hindrun. Nú er hinns vegar traustið á henni líka farið og þekki ég marga sem vinna stöðugt að því að koma öllum sínum eignum fyrir í öðrum gjaldmiðlum. Ef íslendingar eru að gera það, þá getur þú rétt ímyndað þér hversu viljugir útlendingar eru að eiga eignir í íslenskum krónum.

Varðandi hvort við getum notað krónuna áfram, t.d. með því að binda/festa hana er í raun örvæntingarfull tillaga ANESB-ara (Allt Nema ESB). Ég vildi óska þess að við hefðum fleiri góða valkosti en að ganga í ESB til að losna við krónuna. Það er hins vegar algjörlega ómögulegt að festa einhliða án nokkurs stuðnings. Gætum við fengið ESB eða USA til að styðja okkur í slíkri festingu? Það eru a.m.k. engin fordæmi fyrir slíku. Getum við tekið aðra mynnt upp einhliða? Flestir segja það ómögulegt, en ég vildi óska að við gætum það. Ástæðan fyrir því að þessi tillaga lyktar samt gífurlega af ANESB er að ef þú ert til í að festa krónuna, þá ertu jafnframt búinn að dæma okkur í þitt ímyndaða atvinnuleysi sem þú telur að væri afleiðing þess að ganga í ESB. Það segir manni að hræðsluáróður um atvinnuleysi er ekkert nema fyrirsláttur manna sem einfaldlega vilja ekki ganga í ESB.

Einar Solheim, 30.5.2009 kl. 07:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband