Frelsi, ábyrgð og sjálfstæði

Markaðssetning á frelsi er mistúlkun á hugmyndum manna eins og John Stuart Mills. Hann talar um "borgaralegt eða félagslegt frelsi, um eðli og takmörk hins réttmæta valds þjóðfélagsins yfir einstaklingnum." [1] John Stuart Mill var að tala um Sjálfstæði einstaklinga, þ.e.a.s. frelsi hans til athafna berandi jafnframt ábyrgð á gjörðum sínum . "Í öllum skiptum einstaklings við aðra menn ber hann ábyrgð að lögum gagnvart þeim, sem eiga hagsmuni í húfi, og gagnvart samfélaginu sem verndara þeirra ef nauðsyn ber til." [2].

 

Frelsi í sjálfu sér er í almennum skilningi þess orðs nú um stundir án allrar ábyrgðar.

 

Frelsi, sem er án ábyrgðar, leiðir til óábyrgrar hegðunar. Slíkt frelsi byggist oft á nafnleysi eða leynd, hvort heldur er til skemmdarverka hjá hettuklæddum mótmælendum, þjófnaðar með peningaprentun hjá leynifélögum í skattaskjólum eða barnamisnotkunar hjá níðingum á Internetinu.

 

Sjálfstæði = Frelsi + Ábyrgð

 

Sjálfstæði felur í sér yfirlýsingu um frelsi með ábyrgð. Sjálfstæði og nafnleynd fara ekki saman. Ábyrgð er ekki hægt að heimfæra á réttan aðila ef nafnleynd er til staðar. Ábyrgð er órjúfanlegur hluti sjálfstæðis og því fæst sjálfstæði ekki þrifist í nafnleynd.

 

Taumlaus dýrkun frelsis sem hefur verið notað í markaðssetningu í um 100 ár hefur grafið undan ábyrgð og sjálfstæði einstaklinga og er rangtúlkun á kenningum helstu heimspekinga sem kenndir eru við frelsi.

 

Þegar menn tala um Bandaríkin sem "Land of the free" þá er í raun átt við land hinna sjálfstæðu, lausa undan erlendu oki, kúgun einræðisherra eða óþarfa afskiptum valdhafa. Slagorðið ætti því fremur að vera "Land of the independent".

 

Frelsið er líka blekking. Frelsi án ábyrgðar er í raun ekki til, því ábyrgðin, eða afleiðingarnar af frjálsum athöfnum lendir alltaf einhvers staðar. Bara ekki endilega á þeim sem eiga hana skilið.  Frelsi án ábyrgðar er því í raun eins konar þjófnaður. Ábyrgðarlaus hegðun  er andfélagsleg í eðli sínu.

 

"Land of the free" hljómar því í raun eins og "Land of the thieves" en ætti e.t.v. að vera "The independent land of the independent people" eða "The independent land of the independent individuals"  sem ég tel reyndar vera inntakið í merkingu upprunalegra slagorðsins og nái því sem átt er við hjá þeim sem hampa því.

 

Taumlaus dýrkun frelsis getur leitt menn til að hegða sér á óábyrgan máta, allt í nafni frelsis. Menn geta farið að hegða sér eins og þjófar. Og nota nafnleynd til að komast upp með það. Ábyrgðin leggst á samfélagið. [3].

 

Þeir sem trúa á sjálfstæði einstaklingsins, kraft einkaframtaks og sjálfstæði þjóðar geta með sanni sagt að þessi atriði hafi verið og séu enn grundvöllur framfara í þjóðfélögum hins vestræna heims. Um þessi gildi er t.d. Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður. Þessi gildi eru enn í fullu gildi.

 

Þeir sem trúa á samhjálp og samhyggju, t.d. Samfylking og Vinstri-græn geta með sanni sagt að taumlaus frelsisdýrkun hafi leitt til ófara og að snúa verði af þeirri braut.

 

Það er misskilningur að halda að lausnin gagnvart afleiðingum taumlausrar frelsisdýrkunar sé takmörkun á athafnarými sjálfstæðra einstaklinga eða fórnun á sjálfstæði þjóðar. Lausnin felst í því að átta sig á því að öllu frelsi fylgir ábyrgð. Ábyrgð með frelsi er sjálfstæði. Ábyrgðin næst með afnámi nafnleysis.

 

[1] Frelsið eftir John Stuart Mill, Hið íslenska bókmenntafélag 1978, bls. 33

[2] Sama bók, bls. 47-48

[3] Hvers vegna heitir nafnlaus símaþjónusta Símans Frelsi? Slík símanúmer eru mikið notaðir af glæpamönnum sem eiga jafnvel mörg þannig númer til að tryggja sér sem næst fullkomið frelsi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband