26.1.2009 | 09:28
Réttlætisgjáin
Megn óánægja er í þjóðfélaginu með það óréttlæti að þjóðin skuli þurfa að bera byrðarnar meðan hinir nýríku útrásarvíkingar sem flestir virðast sammála um að eru höfuðorsakavaldar íslensku kreppunnar eru enn ríkir þótt auður þeirra hafi vissulega dregist saman. Nýríku Íslendingarnir, eins og svo margir slíkir erlendis líka, urðu ofurríkir fyrst og fremst vegna tilfæringa á efnahagsreikningi fyrirtækja en ekki afreka í rekstri. Tilfæringa sem ásamt markaðsmisnotkun töfruðu fram hagnað og eignir úr engu. Verðbólgupeninga sem bankarnir síðan veittu lán út á. Lán sem nú er ekki hægt að innheimta því aldrei var raunveruleg eign á bakvið veðin.
Mótmælin á götum og strætum eru líklega fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnin virðist ekki vera að gera það sem þarf til að brúa réttlætisgjána. Mótmælin eru einnig vegna þess að ríkistjórnin virðist ekki vera að gera nóg til að létt byrðum af heimilunum og fyrirtækjunum og vegna þess að ríkisstjórnin virðist ekki vera að segja sannleikann um alvarleika málsins. Hversu djúp verður kreppan? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að dreifa byrðunum? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að ná hinum seku og hinu illa fengna fé af þeim? Kerfið hefur sinn gang og aðferð sýslumannsins á Selfossi til að innheimta skuldir er bara sú sem kerfið notar. Hann er ekki ríkisstjórnin. Hann á að sjá til þess að kerfið sé skilvirkt og virki samkvæmt lögum og reglum. Hann á ekki að taka upp á því í sínu sjálfdæmi að sleppa því að innheimta skuldir. Það er ríkisstjórnin sem á að koma í veg fyrir að það ástand skapist að vinnandi og heiðarlegt fólk sé dregið fyrir sýslumann og gert alslaust. Það er á ábyrgð Alþingis og ríkisstjórnarinnar að breyta kerfinu ef það er óréttlátt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.