8.4.2014 | 20:04
Hvað eru nokkur þúsund milljarðar milli vina?
Það er athyglivert að í skýrslu Alþjóðamálastofnunnar HÍ fyrir SA, ASI og fleiri þá er m.a. fjallað um afnám hafta og aðstoð ESB við að afnema höftin. Þessi aðstoð felst í raun í því að veita Íslendingum lán til þess að unnt sé að borga út snjóhengjuna. Þar eru m.a. þessir 960 milljarðar sem eru í slitabönkunum. ESB (aðildarlöndin öll) leggja á það áherslu að þetta mál sé leyst áður en Ísland getur orðið aðili.
M.ö.o. þá lýtur dæmið út þannig að ef þjóðin bætir við sig skuldum sem nema ríflega hálfri þjóðarframleiðslu eða meira þá sé hægt að halda áfram inn í ESB og taka upp evru. Skýrslan segir einungis frá því að lán standi til boða og að það sé ekkert hámark á þeim (sic).
Ekkert kemur fram í skýrslunni um hversu íþyngjandi þetta lán yrði Íslendingum í afborgunum sem verður að teljast mjög undarlegt svo ekki sé meira sagt.
Lán af þessu tagi væri auðvitað happafengur fyrir kröfuhafa gömlu bankanna. Þetta er í raun hagsmunamál upp á fleiri hundruð milljarða fyrir þá. E.t.v. á bilinu 300-400 milljarðar (sbr. mat um hvað þurfi að afskrifa af eignum slitabankanna (10-13%)) auk þess sem þeir gætu fengið peninginn sinn strax.
Íslendingar sætu þá uppi með þá staðreynd að hafa borgað ansi dýran aðgangseyri að ESB. Lífskjör þjóðarinnar til framtíðar myndu bera þess merki að borga þyrfti þetta 1000 milljarða lán með vöxtum til baka ofan á allar aðrar skuldir þjóðarinnar sem eru ekki smáar í sniðum. SÍ metur þessa upphæð jafnvel enn hærra (yfir 3000 milljarða) ef fé íslenskra aðila (t.d. lífeyrissjóða) sem vill úr landi er talið með.
Erlendur eigandi að kröfum í gömlu bankana myndi líklega leggja það á sig að leggja orð í belg á Íslandi þegar kemur að umræðu um hvort ganga eigi í ESB (og láta Íslendinga taka 1000 milljarða lán til að borga sér) og jafnvel fá einhverja til að skrifa greinar til að hafa áhrif á almenningsálitið. Erlendi eigandinn gæti jafnvel skrifað áhrifamönnum í sínu landi til að biðja þá að hafa hagsmuni sína í huga þegar kemur að viðræðum við Íslendinga.
Slíkur erlendur eigandi, eða jafnvel íslenskur eigandi sem er sama um hagsmuni þjóðarinnar, myndi væntanlega ekki verða hrifinn af því ef aðildarumsókn að ESB yrði dregin til baka.
Það er óhugsandi að þessir aðilar leggi ekki á sig nokkur blaða-, blogg- og bréfaskrif fyrir fleiri hundruð milljarða. Menn hafa gert margt verra fyrir mun minni hagsmuni.
Það er merkilegt að ekki skuli vera fjallað um þetta mál í fjölmiðlum. Hvers vegna ætli það sé?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.