5.4.2014 | 20:19
Nokkrar hugleiðingar um uppruna ESB, samkeppnishæfni Þýskalands, hugsjónir og almenna umræðu.
Kola- og stálsambandið (ECSC 1951) er upphaf ESB. Markmiðið var að tryggja sameiginlegan markað fyrir þessar tvær auðlindir Þýskalands og Frakklands (sem voru grunnurinn að efnahagslegum styrk þeirra) og þar með að leggja grunninn að friði og velmegun.
Kenningin var sú að heimsstyrjaldirnar tvær hefðu verið vegna baráttu um auðlindir fyrst og fremst (ekki fyrst og fremst um hugmyndafræði).
Grunnurinn er sem sagt sameiginleg stjórnun á auðlindum, en t.d. veiðar Spánverja og fleiri þjóða í breskum sjávarmiðum er dæmi um sameiginlega nálgun í þessi mál.
Þess vegna er það mjög áhugaverð afstaða margra íslenskra ESB sinna að halda að við fáum að halda okkar auðlindum undanskildum við inngöngu í ESB og/eða að þegar kemur að sameiginlegri stjórn auðlindanna að við höfum þar eitthvað vægi.
Hitt er svo annað að hugmyndir eru ekki alltaf kynntar á þann máta að hinn raunverulegi tilgangur komi fram. Hugmyndinni er pakkað inn í fallegar umbúðir svo hún seljist betur.
Í raun má líta svo á að Kola- og stálsambandið hafi verið verkfæri (og hugmynd Frakka) til að koma stjórn á kola- og stáliðnað Þjóðverja. Þ.e.a.s. í þeim tilgangi að takmarka möguleika Þýskalands til að vaxa og verða ný ógn við frið og stöðugleika í Evrópu. Það má því líta á ESB sem framhald af hersetningu Þýskalands og þeirri ákvörðun Banda(ríkja)manna að stofna sjálfstætt ríki í V-Þýskalandi (og leyfa þeim að byrja að endurvopnast frá 1951). Þaðan kom tímapressan á að stofna ECSC. Frá kynningu Schuman (utanríkisráðherra Frakka) á hugmyndinni í maí 1950 til formlegrar stofnunnar í apríl 1951 þrátt fyrir margvíslega andstöðu og að Bretar voru ekki með. Tryggja varð að Frakkar hefðu áhrif á notkun Þjóðverja á sínum auðlindum þegar hið nýja ríki var stofnað og gat farið að hervæðast á ný. Bandaríkjamenn höfðu einnig hönd í bagga við stofnun ECSC og kalda stríðið var í fullum gangi. Koreustríðið hófst í júní 1950 og hafði áhrif á stefnu Bandaríkjamanna varðandi hervæðingu Þýskalands.
Þess má geta að kola- og stáliðnaðurinn í bæði Þýskalandi og Frakklandi voru almennt á móti (óttuðust samkeppni og miðstýringu). Þjóðverjar ætluðu að ganga frá málinu í janúar 1951 en Bandaríkjamenn þvinguðu þá til að samþykkja tillögur Frakka (skipta upp stóru stálrisunum í Þýskalandi og sameiginlega yfirstjórn auðlinda).
Það má deila um hversu vel hefur tekist til varðandi sameiginlegu stjórnina á auðlindunum og einnig hvort tekist hafi að halda Þýskalandi í skefjum og hindra óstöðugleika í Evrópu.
Að mörgu leyti má segja að þetta hafi tekist ágætlega framan af en fór að verða erfiðara þegar A- og V-Þýskaland sameinuðust og síðar þegar evran var tekin upp.
Það sem mörgum mönnum (öðrum en t.d. Þjóðerjum og Bretum) yfirsást þegar evran var tekin upp er að sameiginleg mynt styður undir kjarnann, en ekki jaðarinn.
Þjóðverjar vor nýbúnir að sameinast austur-Þýskalandi þar sem austu- og vesturþýsku mörkin voru sett á gengið 1:1. Áhrifin af því voru að austur-Þýskaland var ekki samkeppnishæft og V-Þýskaland tók yfir. Áhrifin voru líka þau að sameiginlega D-markið varð lægra virði en ella og það ýtti undir aukinn útflutning þýskra iðnaðarvara.
Svo kom evran til skjalanna og þar sáu Þjóðverjar sé leik á borði. Þeir voru kjarninn í efnahagnum og ef þeir hefðu minni verðbólgu en hinir þá myndi sameiginleg mynt styðja undir samkeppnishæfni Þýskalands utan ESB og jafnframt myndu lönd innan ESB fá ímyndaðan kaupmátt til að kaupa meira af Þýskalandi.
Þar til stund sannleikans rann upp og ímyndin hvarf. Kaupmáttarleysið varð öllum augljóst.
Þegar þar er komið þurfa jaðarsvæðin að flytja út fólk til Þýskalands. Og Þýskaland getur keypt upp auðlindir hinna á lágu verði því þau lönd eru skuldsett og með takmarkaðar tekjur og samkeppnishæfni.
Okkur er holt að átta okkur á þessu samhengi. Við þurfum að átta okkur á því að með því að taka upp sameiginlega mynt með einhverjum öðrum mun sterkari efnahagskjarna erum við til lengri tíma að styðja undir þann kjarna og auðlindir okkar munu á endanum renna þangað.
Eins og ég hef lýst hér þá er upphaflega ástæða og grunnhugmyndin sem leiddi til ESB sú að hafa stjórn á efnahagslegum styrk Þýskalands. Þeirri hugmynd var fundinn staður í ECSC og hún kynnt undir áhrifum frá jákvæðum hugsunum ýmissa heimspekinga og stjórnmálamanna um sameiningu og frið.
Með tímanum gleymdist hin upprunalega ástæða og hin jákvæða ímynd og hugsjón sem nýtt var til kynningar á arftökum ECSC tók yfir. Þannig hefur hugsjóninni um frið og jafnrétti verið beitt fyrir vagninn þegar kemur að því að kynna ESB og fá fólks til stuðnings.
Þetta er jákvæð og falleg hugsjón og eitthvað sem allir vilja styðja.
En það er með þessa hugsjón eins og margar aðrar að þær geta í framkvæmd orðið yfirþyrmandi og jafnvel snúist upp í andhverfu sína.
Móðurást, ættjarðarást og verndarhyggja eru allt dæmi um hugsjónir og jákvæða strauma sem geta orðið til ills ef þeim er ekki sett mörk. Ekki vegna þess að þau sé slæm í eðli sínu heldur vegna þess að ekki er hægt að stigmagna þau í hið óendanlega.
Það að gagnrýna framkvæmd á einhverju út frá því að nóg sé komið, er ekki sama og að gagnrýna hugsjón sem beitt er innan marka. Á þessu tvennu verður að gera greinarmun.
Fólk getur haft mismunandi skoðanir og smekk á því hvar mörkin eiga að liggja. En þegar farið er að nota hugsjónirnar sem einhvers konar merkimiða sem eru 100% jákvæðir eða 100% neikvæðir í umræðunni um einhver málefni þá verður erfitt að meta stöðuna á yfirvegaðan máta.
Þess vegna er ekki hægt að meta aðildarumsókn í ESB með þvi að stilla upp t.d. ættjarðarást á móti ást á friði og jafnrétti.
Það eina sem fæst út úr slíku er skrípaleikur þar sem hvor aðilinn um sig keppist við að gera hinn aðilann sem fáranlegastann og hengja hann upp sem svikara við einhverja hugsjón.
Nokkrar heimildir:
The theory and reality of ECSC
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.4.2014 kl. 01:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.