Færsluflokkur: Tölvur og tækni
22.6.2009 | 22:49
Leikurinn heldur áfram
Hvernig á raunhagkerfið að keppa við þetta gíraða Excel hagkerfi? Það er ekki nokkur leið meðan leikreglurnar eru eins og þær eru.
Fyrir lánað fé (að þessu sinni frá skattborgurum) eru keypt og seld til skiptis smáhlutir í fyrirtækjum á síhækkandi verði, en allur hluturinn látinn hækka í sama takti. T.d. 1% keypt á 10% hærra verði en í gær og öll 100 prósentin látin hækka um 10%. Svona er auðvelt að spinna upp hagnaðinn og borga svo út bónusa.
Fólkið sem fær snjallar hugmyndir að nýrri framleiðsluvöru eða betri aðferð við framleiðslu getur aldrei grætt eins mikið og þeir sem gíra upp hagnað í fjármálafyrirtækjunum. Á þennan máta draga þeir til sín fjármagnið í hagkerfinu (verðbólga á hlutabréfaverði og í bónusum) þar til annað hvort að allt hrynur eins og við höfum orðið vitni að eða verðbólgan smitast út í raunhagkerfið og dregur úr kaupmætti almennings.
Með leynifélögum er svo unnt að leika þennan ljóta leik á margföldum hraða.
Þetta er skrumskæling kapítalismans. Hvenær ætla ráðamenn að átta sig á þessum galla og lagfæra hann? Er einhver von um að þeir geri það yfirleitt?
Meðan leikreglurnar eru svona mun verða erfitt að byggja upp raunhagkerfið, þ.e.a.s. framleiðslu og þjónustu aðra en peningaprentun auðmanna og fjármálaþjónustu fyrir þá.
Risabónusar þökk sé kreppu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |