Partnership banking

Ekki er haft fyrir því í fréttinni að skýra út þessi nýju slagorð: "Partnership banking" sem hljólma svo jákvæð. Smá leit á netinu skilar þessari merkingu:

Bankinn veitir fyrirtæki (eða stofnun) lán og fyrirtækið veitir bankanum upplýsingar um starfsmenn sína svo bankinn geti sniðið beina sölustarfsemi sína að hverjum og einum starfsmanni þegar kemur að lánatilboðum.

Nú hef ég ekki séð hvernig Kvika skilgreinir sítt "Bankasamstarf" (mín þýðing), en sú lýsing er væntanlega með svipaða merkingu. Ég ætla alla vega að gefa mér það þar til annað kemur í ljós.

Þetta er sem sagt ný og enn beinni markaðssetningarleið fyrir bankann en áður til að selja óumbeðnar bankaþjónustur til útvalinna einstaklinga.

Hér vakna nokkrar spurningar:

  • Hvaða upplýsingar lætur viðskiptavinurinn (fyrirtækið eða stofnunin) bankanum í té um starfmenn sína? Fylgja t.d. launaupplýsingar?
  • Er þetta skilyrði fyrir lánveitingu frá Kviku til viðskiptavinarins eða hagnast fyrirtækið á því að veita þessar upplýsingar (t.d. í formi lægri lántökukostnaðar)?
  • Hversu gegnsæ verður þessi upplýsingaveita?
  • Hafa starfsmenn ekkert um þetta að segja?
  • Er þetta í samræmi við persónuverndarlög?

Ég vil ekki gefa mér að "Bankasamstarf" sé óhagstætt fyrir starfsmenn fyrirtækjanna sem þarna verða skotmörk markaðsdeilda bankanna. Væntanlega fá "þeir heppnu" ómótstæðileg tilboð sem þeir eiga erfitt með af hafna.

Saga bankastarfsemi hér heima og erlendis gefur þó tilefni til að vera á varðbergi gagnvart bönkunum og þeirra markaðssetningu.


mbl.is MP Straumur verður Kvika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér er mikið um mikið frá miklu til mikils

Menn henda miklu af einhverju


mbl.is Íslendingar henda miklu af raftækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hverjir borga skatt sem lagður er á önnur fyrirtæki en banka?

Verð að taka undir orð Vilhjálms að bankarnir hegða sér óásættanlega, en skil hinsvegar ekki alveg rökin fyrir því af hverju bankar borgi ekki skatt eins og önnur fyrirtæki.


mbl.is „Bankarnir hegða sér óásættanlega“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menningarbyltingin á Íslandi

Að ýmsu leyti virðist ástandið á Íslandi minna á hina svokölluðu Menningarbyltingu í Kína. Atburði sem einkenndust af myndun alls kyns grasrótarhreyfinga, oft undir merkjum Rauða varðliðsins sem beindu spjótum sínum að öllu því sem talið var borgaralegt. Milljónir manna voru ofsóttar. Mao virðist hafa komið þessar hreyfingu af stað en ekki beinlínis stutt hana, enda sá hann hana fyrst og fremst sem verkfæri til að styrkja eigin völd. Að lokum var hún bæld niður með valdi.

Í Menningarbyltingunni var ráðist gegn þeim sem unnu í stjórnsýslunni, fyrirtækjaeigendum, menningarverðmætum og fl. Einstaklingar vor þvingaðir til að koma fram með sjálfsgagnrýni af auðmýkt. Efnt var til mótmæla til að bola einstaklingum frá og jafnvel taka þá af lífi á götum úti. Þetta átti einnig við um einstaklinga innan Kommunistaflokksins, enda gat það hentað Mao vel. Allir áttu að hugsa eins og rétt eins og varðliðið skilgreindi það. Allir áttu að gagnrýna alla og tilkynna um frávik frá rétthugsuninni. Börn áttu að tilkynna foreldra sína ef svo bar við. Allir áttu að uppfylla viðmið um hinn fullkomna byltingasinnaða alþýðumann. Allt var þetta gert í nafni réttlætis sem minnir á það að ofbeldi er nánast alltaf réttlætt af þeim sem beita því. Upp undir 3 milljónir manna misstu lífið í þessari Menningarbyltingu.

Hér á Íslandi eru atburðirnir auðvitað og sem betur fer ekki eins öfgakenndir og í Kína, en mörg einkenni þjóðfélagsumræðu og stjórnmálaþróunar síðustu ára bera svip af Menningarbyltingunni. Sama á við um ýmsar uppákomur sem tengjast íslenskri menningu er virðist orðin blóraböggull fyrir alls sem vont er og hindrun fyrir þróun í átt að draumaríkinu. Það að vilja hlúa að því sem er íslenskt er beinlínis óæskilegt og þeir sem það vilja eru útskúffaðir af múgnum og frammámönnum varðliðanna. Vettvangurinn fyrir átökin er fjölmiðlar, bloggmiðlar og Austurvöllur.

Menningarbyltingin í Kína hafði mikil skaðleg áhrif, stjórnmálalega, félagslega og menningarlega, en ekki síst efnahagslega. Þetta reyndist bylting fyrir hið ómenningarlega, stöðnun og kúgun.

Vonandi verða ekki of mikil skaðleg áhrif af hinni íslensku Menningarbyltingu.


Hvernig varð Detroit gjaldþrota?

Rakst á áhugaverða grein um Detroit.

Það er áhugavert að skoða sögu skuldasöfnunar og skattheimtu í borginni sem óx til þess að verða fimmta stærsta borg Bandaríkjanna eftir stríð og hversu samdrátturinn varð mikill og langvarandi.

Þarna urðu óeirðir og aukning glæpa, en spurningin er hvað er orsök og hvað er afleiðing. Voru óeirðirnar orsök hnignunar borgarinnar (efnahagsins) eða var því öfugt farið?

Það er ljóst að eftir stríðið dróst framleiðsla þarna hratt saman enda ekki lengur þörf á öllum þeim búnaði sem þarna var framleiddur til hernaðar. Pantanir frá hernaðaryfirvöldum í Bandaríkjunum og Bretlandi urðu færri.

En borgaryfirvöld og fyrirtæki á staðnum virðast hafa brugðist rangt við. 

Fyrirtækin tóku að spara meðan þau biðu eftir því að eftirspurn ykist á ný. Borgaryfirvöld hækkuðu skatta og söfnuðu skuldum. Milli áranna 1975 og 1985 virðast þeir vera að fara að ná tökum á málunum og skuldir lækka. Það hægir á samdrætti í tekjum og þær aukast jafnvel nokkuð í lok tímabilsins.

Bjartsýnin tekur við og borgin tekur á sig nýjar skuldir til að fá nýja Chrysler verksmiðju í borgina. Þrátt fyrir nýja verksmiðju, fjárfestingu (skuldaaukningu) og hækkun skatta þá dragast tekjur saman í kjölfarið. 

Samkeppni kemur frá Japan og Evrópu sem njóta þess að Bandaríkjadollarinn stóð hátt enda gengi hans miðað við stöðu fjármálakjarnans á austursröndinni og iðnaðar og þjónustu á vesturströndinni. Detroit var ekki samkeppnihæf á því gengi.

Síðan ráðast þeir í ævintýralega fjármálagjörninga (enn meiri skuldir) til að "endurskipuleggja" lífeyrisskuldbindingar og allt fer úr böndunum.

Nú er borgin gjaldþrota.

Borgin (miðbærinn) er eins og draugabær. Búið að jafna fjölda húsa við jörðu og eftir standa hús á stangli við götur með tómum lóðum þar sem áður var þétt byggð.

Afleiðing af fjármálaflótta (skorti á fjárfestingu), of mikilli skattheimtu og skuldasöfnun. Í raun skortur á samkeppnishæfni eða getu til að aðlaga sig þeirri skertu samkeppnihæfni sem þeir upplifðu.

Ekki gátu þeir fellt gengið á dollarnum.

Detroit center


Hvað eru nokkur þúsund milljarðar milli vina?

Það er athyglivert að í skýrslu Alþjóðamálastofnunnar HÍ fyrir SA, ASI og fleiri þá er m.a. fjallað um afnám hafta og aðstoð ESB við að afnema höftin. Þessi aðstoð felst í raun í því að veita Íslendingum lán til þess að unnt sé að borga út snjóhengjuna. Þar eru m.a. þessir 960 milljarðar sem eru í slitabönkunum. ESB (aðildarlöndin öll) leggja á það áherslu að þetta mál sé leyst áður en Ísland getur orðið aðili. 

M.ö.o. þá lýtur dæmið út þannig að ef þjóðin bætir við sig skuldum sem nema ríflega hálfri þjóðarframleiðslu eða meira þá sé hægt að halda áfram inn í ESB og taka upp evru. Skýrslan segir einungis frá því að lán standi til boða og að það sé ekkert hámark á þeim (sic).

Ekkert kemur fram í skýrslunni um hversu íþyngjandi þetta lán yrði Íslendingum í afborgunum sem verður að teljast mjög undarlegt svo ekki sé meira sagt. 

Lán af þessu tagi væri auðvitað happafengur fyrir kröfuhafa gömlu bankanna. Þetta er í raun hagsmunamál upp á fleiri hundruð milljarða fyrir þá. E.t.v. á bilinu 300-400 milljarðar (sbr. mat um hvað þurfi að afskrifa af eignum slitabankanna (10-13%)) auk þess sem þeir gætu fengið peninginn sinn strax. 

Íslendingar sætu þá uppi með þá staðreynd að hafa borgað ansi dýran aðgangseyri að ESB. Lífskjör þjóðarinnar til framtíðar myndu bera þess merki að borga þyrfti þetta 1000 milljarða lán með vöxtum til baka ofan á allar aðrar skuldir þjóðarinnar sem eru ekki smáar í sniðum. SÍ metur þessa upphæð jafnvel enn hærra (yfir 3000 milljarða) ef fé íslenskra aðila (t.d. lífeyrissjóða) sem vill úr landi er talið með.

Erlendur eigandi að kröfum í gömlu bankana myndi líklega leggja það á sig að leggja orð í belg á Íslandi þegar kemur að umræðu um hvort ganga eigi í ESB (og láta Íslendinga taka 1000 milljarða lán til að borga sér) og jafnvel fá einhverja til að skrifa greinar til að hafa áhrif á almenningsálitið. Erlendi eigandinn gæti jafnvel skrifað áhrifamönnum í sínu landi til að biðja þá að hafa hagsmuni sína í huga þegar kemur að viðræðum við Íslendinga.

Slíkur erlendur eigandi, eða jafnvel íslenskur eigandi sem er sama um hagsmuni þjóðarinnar, myndi væntanlega ekki verða hrifinn af því ef aðildarumsókn að ESB yrði dregin til baka.

Það er óhugsandi að þessir aðilar leggi ekki á sig nokkur blaða-, blogg- og bréfaskrif fyrir fleiri hundruð milljarða. Menn hafa gert margt verra fyrir mun minni hagsmuni.

Það er merkilegt að ekki skuli vera fjallað um þetta mál í fjölmiðlum. Hvers vegna ætli það sé?


Upptaka evru er ekki ókeypis

Í kafla 4.1.2 í skýrslunni stendur:

"það hefur verið skýlaus krafa annarra aðildarlanda að Íslendingar leysi úr haftavandræðum sínum áður en þeir gerast aðilar"

"... embættismenn Evrópusambandsins ... undirstrika samt sem áður ávallt tvennt. Í fyrsta lagi að ákvörðun um aðstoð ... hljóti ávallt að vera tekin á pólitískum grunni á síðustu metrunum í aðildarviðræðum"

"Í öðru lagi nefna þeir það að framkvæmdin sjálf hljóti ávallt að vera á ábyrgð Íslendinga sjálfra en með aðkomu ... Alþjóðagjaldeyrissjóðsins"

"Árið 1990 var stofnaður sérstakur sjóður, svonefndur Macro-Financial Assistance Fund (MFA), til þess að styðja Evrópusambandslönd við haftaafnám með lausafjárfyrirgreiðslu og/eða bregðast við alvarlegum vandræðum vegna greiðsluflæðis."

"Ef Íslandi er ætlað að afnema fjármagnshöft áður en til aðildar kemur hlýtur MFA- sjóðurinn að koma til greina sem farvegur fyrir aðstoð sambandsins, enda er þessi sjóður að einhverju leyti sniðinn til þess að aðstoða tilvonandi aðildarríki við afléttingu fjármagnshafta"

Nú liggur fyrir að höftin á Íslandi eru vegna greiðsluflæðisvanda. Okkur stendur því til boða að taka lán til að leysa þann vanda. Það lán er væntanlega upp á um 1000 milljarða eða meira miðað við eignir þrotabúanna í íslenskum krónum. Mat Seðlabanka Íslands á því hversu mikill peningur vill frá landinu er reyndar vel yfir 3000 milljarða.

"Ef afnámsferlinu væri aftur á móti leyft að frestast fram yfir þann tíma þegar Ísland fengi fulla aðild myndi landið öðlast rétt á aðstoð frá svokölluðum greiðslujafnaðarhjálparsjóði, sem getið er sérstaklega um í 143. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Þessum sjóði er ætlað að bregðast við greiðslujafnaðarvandamálum þeirra aðildarríkja sem ekki hafa enn tekið upp evruna. Sjóðurinn hefur 12 milljarða evru hámark á útlánum og er líkt og MFA-sjóðnum ætlað að vera viðbót við lánafyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hluti af prógrammi AGS. Þetta er sjóður með þjálli stofnskrá og því auðveldara að lána úr honum með litlum fyrirvara. Árið 2008 leituðu þrjú aðildarlönd aðstoðar þessa sjóðs, það er Ungverjaland, Lettland og Rúmenía, til þess að bregðast við miklu fjármagnsútstreymi."

"Færsluvandamálið hverfur við upptöku evru, þar sem landið verður hluti af mun stærra myntsvæði og íslenskar fjármagnsfærslur munu ekki hafa nein áhrif á gengi evrunnar. Auk þess þurfa engin gjaldeyrisskipti að koma til ef færslurnar eru innan evrusvæðisins. Þó er ekki þar með sagt að miklir fjármagnsflutningar frá landinu verði átakalausir, þar sem íslenskar fjármálastofnanir gætu fundið illa fyrir því að missa frá sér mikið lausafé. Við þeim vandamálum er þó hægt að bregðast með öðrum hætti, s.s. lausafjáraðstoð frá Seðlabankanum sem fjallað er betur um í kafla 4.4. hér að neðan."

Hér er sagt að "færsluvandamálið" hverfi við upptöku evru. Skömmu síðar er sagt: "íslenskar fjármálastofnanir gætu fundið illa fyrir því að missa frá sér mikið lausafé". Vandamálið var því varla horfið með upptöku evrunnar. 

Svo er bent á aðrar lausnir í kafla 4.4. Það er hins vegar enginn kafli 4.4. í skýrslunni. 


Nokkrar hugleiðingar um uppruna ESB, samkeppnishæfni Þýskalands, hugsjónir og almenna umræðu.

Kola- og stálsambandið (ECSC 1951) er upphaf ESB. Markmiðið var að tryggja sameiginlegan markað fyrir þessar tvær auðlindir Þýskalands og Frakklands (sem voru grunnurinn að efnahagslegum styrk þeirra) og þar með að leggja grunninn að friði og velmegun. 

Kenningin var sú að heimsstyrjaldirnar tvær hefðu verið vegna baráttu um auðlindir fyrst og fremst (ekki fyrst og fremst um hugmyndafræði).

Grunnurinn er sem sagt sameiginleg stjórnun á auðlindum, en t.d. veiðar Spánverja og fleiri þjóða í breskum sjávarmiðum er dæmi um sameiginlega nálgun í þessi mál.

Þess vegna er það mjög áhugaverð afstaða margra íslenskra ESB sinna að halda að við fáum að halda okkar auðlindum undanskildum við inngöngu í ESB og/eða að þegar kemur að sameiginlegri stjórn auðlindanna að við höfum þar eitthvað vægi. 

Hitt er svo annað að hugmyndir eru ekki alltaf kynntar á þann máta að hinn raunverulegi tilgangur komi fram. Hugmyndinni er pakkað inn í fallegar umbúðir svo hún seljist betur.

Í raun má líta svo á að Kola- og stálsambandið hafi verið verkfæri (og hugmynd Frakka) til að koma stjórn á kola- og stáliðnað Þjóðverja. Þ.e.a.s. í þeim tilgangi að takmarka möguleika Þýskalands til að vaxa og verða ný ógn við frið og stöðugleika í Evrópu. Það má því líta á ESB sem framhald af hersetningu Þýskalands og þeirri ákvörðun Banda(ríkja)manna að stofna sjálfstætt ríki í V-Þýskalandi (og leyfa þeim að byrja að endurvopnast frá 1951). Þaðan kom tímapressan á að stofna ECSC. Frá kynningu Schuman (utanríkisráðherra Frakka) á hugmyndinni í maí 1950 til formlegrar stofnunnar í apríl 1951 þrátt fyrir margvíslega andstöðu og að Bretar voru ekki með. Tryggja varð að Frakkar hefðu áhrif á notkun Þjóðverja á sínum auðlindum þegar hið nýja ríki var stofnað og gat farið að hervæðast á ný. Bandaríkjamenn höfðu einnig hönd í bagga við stofnun ECSC og kalda stríðið var í fullum gangi. Koreustríðið hófst í júní 1950 og hafði áhrif á stefnu Bandaríkjamanna varðandi hervæðingu Þýskalands.

Þess má geta að kola- og stáliðnaðurinn í bæði Þýskalandi og Frakklandi voru almennt á móti (óttuðust samkeppni og miðstýringu). Þjóðverjar ætluðu að ganga frá málinu í janúar 1951 en Bandaríkjamenn þvinguðu þá til að samþykkja tillögur Frakka (skipta upp stóru stálrisunum í Þýskalandi og sameiginlega yfirstjórn auðlinda).

Það má deila um hversu vel hefur tekist til varðandi sameiginlegu stjórnina á auðlindunum og einnig hvort tekist hafi að halda Þýskalandi í skefjum og hindra óstöðugleika í Evrópu.

Að mörgu leyti má segja að þetta hafi tekist ágætlega framan af en fór að verða erfiðara þegar A- og V-Þýskaland sameinuðust og síðar þegar evran var tekin upp.

Það sem mörgum mönnum (öðrum en t.d. Þjóðerjum og Bretum) yfirsást þegar evran var tekin upp er að sameiginleg mynt styður undir kjarnann, en ekki jaðarinn. 

Þjóðverjar vor nýbúnir að sameinast austur-Þýskalandi þar sem austu- og vesturþýsku mörkin voru sett á gengið 1:1. Áhrifin af því voru að austur-Þýskaland var ekki samkeppnishæft og V-Þýskaland tók yfir. Áhrifin voru líka þau að sameiginlega D-markið varð lægra virði en ella og það ýtti undir aukinn útflutning þýskra iðnaðarvara. 

Svo kom evran til skjalanna og þar sáu Þjóðverjar sé leik á borði. Þeir voru kjarninn í efnahagnum og ef þeir hefðu minni verðbólgu en hinir þá myndi sameiginleg mynt styðja undir samkeppnishæfni Þýskalands utan ESB og jafnframt myndu lönd innan ESB fá ímyndaðan kaupmátt til að kaupa meira af Þýskalandi.

Þar til stund sannleikans rann upp og ímyndin hvarf. Kaupmáttarleysið varð öllum augljóst.

Þegar þar er komið þurfa jaðarsvæðin að flytja út fólk til Þýskalands. Og Þýskaland getur keypt upp auðlindir hinna á lágu verði því þau lönd eru skuldsett og með takmarkaðar tekjur og samkeppnishæfni.

Okkur er holt að átta okkur á þessu samhengi. Við þurfum að átta okkur á því að með því að taka upp sameiginlega mynt með einhverjum öðrum mun sterkari efnahagskjarna erum við til lengri tíma að styðja undir þann kjarna og auðlindir okkar munu á endanum renna þangað.

Eins og ég hef lýst hér þá er upphaflega ástæða og grunnhugmyndin sem leiddi til ESB sú að hafa stjórn á efnahagslegum styrk Þýskalands. Þeirri hugmynd var fundinn staður í ECSC og hún kynnt undir áhrifum frá jákvæðum hugsunum ýmissa heimspekinga og stjórnmálamanna um sameiningu og frið.

Með tímanum gleymdist hin upprunalega ástæða og hin jákvæða ímynd og hugsjón sem nýtt var til kynningar á arftökum ECSC tók yfir. Þannig hefur hugsjóninni um frið og jafnrétti verið beitt fyrir vagninn þegar kemur að því að kynna ESB og fá fólks til stuðnings.

Þetta er jákvæð og falleg hugsjón og eitthvað sem allir vilja styðja.

En það er með þessa hugsjón eins og margar aðrar að þær geta í framkvæmd orðið yfirþyrmandi og jafnvel snúist upp í andhverfu sína. 

Móðurást, ættjarðarást og verndarhyggja eru allt dæmi um hugsjónir og jákvæða strauma sem geta orðið til ills ef þeim er ekki sett mörk. Ekki vegna þess að þau sé slæm í eðli sínu heldur vegna þess að ekki er hægt að stigmagna þau í hið óendanlega. 

Það að gagnrýna framkvæmd á einhverju út frá því að nóg sé komið, er ekki sama og að gagnrýna hugsjón sem beitt er innan marka. Á þessu tvennu verður að gera greinarmun.

Fólk getur haft mismunandi skoðanir og smekk á því hvar mörkin eiga að liggja. En þegar farið er að nota hugsjónirnar sem einhvers konar merkimiða sem eru 100% jákvæðir eða 100% neikvæðir í umræðunni um einhver málefni þá verður erfitt að meta stöðuna á yfirvegaðan máta.  

Þess vegna er ekki hægt að meta aðildarumsókn í ESB með þvi að stilla upp t.d. ættjarðarást á móti ást á friði og jafnrétti.  

Það eina sem fæst út úr slíku er skrípaleikur þar sem hvor aðilinn um sig keppist við að gera hinn aðilann sem fáranlegastann og hengja hann upp sem svikara við einhverja hugsjón.

Nokkrar heimildir:

ECSC treaty

The theory and reality of ECSC

Shuman plan

 


Fróðlegt að fylgjast með hvernig Kýpur reiðir af

Kýpverjar eru að byrja að afnema höftin. Þeir eru með evrur og þess vegna eru höftin hjá þeim ekki bundin við gjaldmiðilinn sjálfan (þ.e.a.s. skipti yfir í aðra gjaldmiðla) heldur á allar millifærslur í bönkum. 

Á Kýpur er stór snjóhengja (m.a. rússneskt fé sem vill út. Áætlað um 15 milljarðar evra af um 70 milljörðum í kerfinu). Þar má ekki færa fé á milli banka eða taka stórar fjárhæðir út. Þar er skattur á innistæður til að draga úr snjóhengjunni (9,9% á allar innistæður yfir 100.000 og 6,75% á innistæður undir þeirri fjárhæð). Samt (þrátt fyrir höft) hafa þeir misst um 30% af innistæðum úr landi. Og enginn veit hve mikið fer þegar (og ef) höftum verður aflétt. Hætt er við vantrausti á bankana og bankaáhlaupi. Það er enn rætt um það að láta bankana fara í þrot. Það er alla vega ljóst að ef erlendir aðilar jafnt sem innlendir aðilar færa fé sitt úr kýpverskum bönkum til t.d. þýskra banka þá verður erfitt að halda þessum bönkum starfhæfum.

Kýpurbúar eru enn að íhuga úrsögn úr evrunni til að endurheimta samkeppnishæfni sína. En það verður þeim dýrt og er eiginlega yfirlýsing um gjaldþrot. Eitt er víst að Kýpur er bara rétt að byrja að sjá afleiðingar kreppunnar. Því er spáð að stærsti skellurinn verði í ár (atvinnuleysi og samdráttur í þjóðartekjum).

Afnám hafta á Kýpur nú er í raun sambærilegt við það að taka fyrir nefið og hoppa úr í djúpu laugina. Þeir hafa auðvitað verið að undirbúa það um nokkurt skeið. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist.

Sjá m.a. hér:

Cyprus Bank Deposits Plunge By Most Ever During "Capital Controls" Month (Maí 2013)

Fears grow over Cyprus capital outflow (Mars 2014)

Cyprus to fully lift capital controls within months (updated) (Nov. 2013)

Cyprus: Potential capital outflows and euro-zone outflow explained (April 2013)

P.S. Eins og á Kýpur þá virðist fólk hér á landi ekki gera sér grein fyrir því hvað gagn það er sem höftin eiga að gera. Menn sjá einungis ókostina (sem eru margir). En höftin hér eru að ástæðu, nefnilega þeirri að við erum ekki búin að gera upp afleiðingarnar af hruninu sem má draga saman undir nafninu "snjóhengjan". Við höfum ekki enn getað tekið fyrir nefið og hoppað út í djúpu laugina. Það fer vonandi að gerast eftir góðan undirbúning. Það verður líka fróðleg reynsla.


mbl.is Dregið úr fjármagnshöftunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í framhaldi af ræðu Hilmars Péturssonar á Iðnþingi

Hilmar Pétursson hélt skemmtilega ræðu á Iðnþing að vanda. Hann fer þar yfir ævintýralega sögu CCP og fjallar um íslensku krónuna. 

Að hans mati (og hann vitnar þar m.a. í föður sinn) þá er íslenska krónan orsakavaldur í mörgum þeim hremmingum sem hans fyrirtæki (og væntanlega þjóðin öll) hefur lent í.

Ég er þessu ekki sammála heldur tel ég að ástæða hremminganna almennt sé:

  • Slæleg stjórn efnahagsmála
  • Slæleg peningastjórn (stjórn raunvaxtasigs og útlánaaukningar)
  • Innri og ytri áföll sem hafa með hvorugt ofangreint að gera svo sem breytingar á fiskgöngu, olíukrísa eða versnandi viðskiptakjör 
Ég tel jafnframt að með því að gera krónuna að eins konar geranda (í stað fórnarlambs með þjóðinni), þá sé verið að leiða umræðuna á villigötur og draga athyglina frá hinum raunverulega vanda sem hrjáir okkur núna. Með því að greina vandan rangt þá eru dregnar rangar ályktanir.
 
Vandi okkar núna er að mínu mati afleiðingarnar af bankahruninu 2008 og lýsa sér í miklum skuldavanda, gjaldeyrisvanda og samdrætti í þjóðartekjum. Sá vandi heldur gengi, þjóðartekjum og kaupmætti niðri. Krónan er þar fórnarlamb, en jafnframt verkfæri til að takast á við stöðuna.
 
Þetta skýri ég nánar í lengra máli í viðhengdu skjali: Um orsakir og afleiðingar.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Leiðsögn um Ísland

Ég útskrifaðist vorið 2012 sem leiðsögumaður. Áhugi stendur til að stunda gönguleiðsögn með smærri hópa, helst í lengri ferðum en ég veit fátt skemmtilegra en að ganga um landið og þá er ekki verra að hafa af því tekjur samhliða skemmtuninni. Einnig...

Munur á verðtryggingu og Verðtryggingunni

Umræðan um verðtrygginguna verður aldrei markviss nema greinarmunur sé gerður á verðtryggingu sem hugtaki og Verðtryggingunni eins og hún er útfærð á Íslandi. Hið fyrra er skynsamlegt meðan hið síðara er glæpsamlegt og byggir á þeirri hugsa naskekkju að...

Um IceSave

Um IceSave Sigurinn í IceSave deilunni fór fram úr björtustu vonum. Hann er algjör. ESB og ESA látin borga málskostnað Íslendinga. Þetta eru auðvitað fagnaðarefni fyrir alla þjóðina. Einnig fyrir skattborgara í öðrum löndum, líka Bretlandi og Hollandi....

Hækkun úr um 1500 í yfir 2300 milljarða síðan í árslok 2008

Um 800 milljarða hafa lífeyrissjóðirnir hagnast síðan í hruninu. Þessi hækkun er að miklu leyti til komin vegna útfærslu verðtryggingarinnar. Nú berast fréttir af því að hækkanir gjalda í fjárlagafrumvarpi hækki neysluvísitöluna og færi meiri peninga frá...

Sumir fá en aðrir ekki ...

Ég er ekki á móti því að greidd séu listamannalaun, en ég vil að þau fari þangað sem þörf er á og til er unnið. M.ö.o. þá þykir mér óþarfi að auðmenn eða tekjuháir fái þessi laun sem auka bónus frá skattgreiðendum. Mér sýnist svona fljótt á litið að...

Lífeyrissjóðirnir taka of stóran skammt (af þjóðarkökunni)

Myndin “The meaning of life” eftir Monty Python hópinn var sýnd í sjónvarpinu nýlega. Þetta er ansi súrrealísk mynd sem erfitt er að skilja. Eitt atriði ætti þó að vera auðskiljanlegt sjálfhverfu kynslóðinni svokölluðu en það er atriðið á...

Segjum NEI til að fá umföllun um málið

Það er sorglegt að horfa upp á þessa tilheigingu til að þröngva að mörgu leyti ágætum en samt stórgölluðum drögum í gegn án umræðu. Það verður að segja NEI til að tryggja að þetta fái einhverja umræðu á Alþingi. Sjá meira hér . Áróður já-sinna um að já...

Gylfi þarf að fara að hugsa sín mál

"Gylfi sagði að margir hefðu einblínt á það að með því að afnema verðtryggingu muni hagsmunir venjulegs meðaltekju fólks verða tryggðir. „Ég er ekki sammála því, málið er miklu flóknara en svo að það verði leyst á einfaldan hátt, en geri mér...

Gagnrýni á grein Gylfa Arnbjörnssonar

Gylfi Arnbjörnsson fjallar um það hvort þátttaka í myntsamstarfi (upptaka evru) leiði til aukins atvinnuleysis í pistli á Pressunni . Þar fer hann yfir nokkur línu- og súlurit máli sínu til stuðnings og kemst að því að krónan verji ekki Íslendinga gegn...

Alþingi þarf að fara yfir stjórnarskrárdrögin og lagfæra

Því miður er ýmislegt í þessum stjórnarskrárdrögum sem þarfnast umfjöllunar sbr. úttekt mína á drögunum .

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband