Falin frétt

"Á bilinu 15 til 20 aðilar hafa sýnt því áhuga að kaupa hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja" 

Þessi frétt kom í útvarpinu og var auðsjáanlega einu sinni á vef RUV. Hún er horfin núna og hefur ekki birst í öðrum miðlum svo ég hafi orðið var við. Leit á netinu skilar engu nema þessi fyrirsögn á vef RUV, en fréttin sjálf er horfin.

Á bilinu 15 til 20 aðilar hafa sýnt því áhuga að kaupa hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja. Formlegt söluferli á hlutnum fer af stað í næstu ...
https://ruv.is/index.jsp?dom=2527148&branch=2773332&setQStr=1

Hvers vegna virkar ekki þessi hlekkur?

Hvers vegna er fréttin horfin?

Hvers vegna hefur þessi frétt ekki birst í öðrum fjölmiðlum?

Í útvarpsfréttinni kom fram að flestir þessara aðila væru erlendir.

Hverjir eru þessir "erlendu aðilar"?

Hverjir eru innlendir?

Hér er verið að selja hlut í einu öflugasta orkufyrirtæki Íslendinga. Mikil orrahríð hefur staðið um eignarhlut Orkuveitunnar, m.a. málaferli. Borgarstjórn Reykjvíkur skipti tvisvar um hendur vegna brasks með orkufyrirtæki. Er þetta ekki fréttnæmt?

Eða er þetta of viðkvæmt mál til að leggja fram til kynningar og umræðu?

Ráða fréttamenn ekki við að flytja mál af kreppunni og afleiðingum hennar?


mbl.is Tónlistarhús 650 millj dýrara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Baldursson

Þorsteinn ef þetta væri einsdæmi gæti maður blakað þessu burt sem mistökum, en þetta er ískyggilegt hvað fer í loftið og jafn skuggalegt er það sem ekki fer í loftið. Samanber fréttina sem ekki fæst birt... Kanadíska  þingið var 30. apríl að staðfesta fríverslunarsamning við EFTA hvernig á því stendur að þetta telst ekki fréttnæmt er mér ráðgáta.
Þetta er forsmekkurinn að því sem koma skal í ESB áróðrinum. Það á að tryggja að þjóðin verði heilaþveginn svo vel og kyrfilega að við afsölum okkur landinu þegar til atkvæðagreiðslu kemur.

Haraldur Baldursson, 18.5.2009 kl. 09:49

2 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Ég hef einmitt verið að koma þinni færslu um Kanada á framfæri.

Ef til vill er málið að stofna verður nýja fréttastofu sem kemur fréttum áleiðis og þar sem fréttamenn spyrja áleitinna spurninga. Núverandi miðlar eru alls ekki að standa sig.

Ég skora á þá sem lesa þessa færslu að tjá sig um hana.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 18.5.2009 kl. 09:59

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Ein athyglisverð þróun er líka að eiga sér stað, sem engum fréttamanni er heimilt að skoða...Björn Bjarnason hélt athyglisvert erindi á "New Artic Policies" ráðstefnu í Svíþjóð. Erindið er á ensku og eiginlega skyldulesning öllum sem framtíðÍslands láta sig varða. Þar sést nefnilega í fótspor ESB í ásælni þeirra til svæðanna norðan af Íslandi. Það er áætlað að 25% af framtíðar olíusvæðum heimsins liggi norðan við Ísland (ekki öll á okkar yfirráðasvæði þó). Með innlimun landsin í ESB er sambandið að tryggja sér olíu til framtíðar. Það er afar hætt við að miklu verði til kostað að tryggja sigur.

Haraldur Baldursson, 18.5.2009 kl. 10:10

4 Smámynd: Haraldur Baldursson

...en varðandi Kanada....ég sendi erindi og tengla á : Mbl, Vísi, eyjuna, AMX, Pressuna, RUV-Boga Ágústson, Fréttastofu Stöð 2, Egil Helgason og einhverja fleiri. Ég tryggði það að senda þeim tengla á efnið, svo þeim væri frjálst að setja þetta upp með sínum spuna, en allt fyrir ekki....enn hefur ekkert verið skrifað um þetta, nema í blogg heimum. Tilfinningin óumflýjanlega, er að EKKERT MEGI TRUFLA ESB UMRÆÐUNA. Það liggur nærri að fólk íhugi aðra valkosti þegar svona fréttir fást birtar...að fólk fari að hugsa sjálfstætt, sem er alveg bannað þegar verið er að heilaþvo það.

Haraldur Baldursson, 18.5.2009 kl. 10:20

5 identicon

http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item265703/

Hér er hún. Þar fór samsæriskenningin.

F. (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 10:20

6 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Gott þú fannst hana. Mér tókst það ekki þótt ég vissi af henni eftir að hafa heyrt hana í útvarpinu. Ég leitaði á vef RUV og fann einungis þennan hlekk sem ég birti og virkaði ekki.

Eftir stendur þó að þessi frétt fær enga umfjöllun aðra en þessa einu frétt sem erfitt er að finna og ýmsum spurningum er ósvarað.

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 18.5.2009 kl. 10:43

7 Smámynd: Ólafur Þórðarson

"áætlað að 25% af framtíðar olíusvæðum heimsins liggi norðan við Ísland"

Heyrðu ég á erfitt með að gleypa þetta. 

Ólafur Þórðarson, 18.5.2009 kl. 11:27

8 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

An often quoted (Houston Chronicle) estimate from the USGS Assessment 2000 report places 25% of the world's remaining oil in the Arctic.

Sjá t.d.: http://www.energybulletin.net/node/29151

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 18.5.2009 kl. 12:00

9 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég setti þessa frétt inn í safnið mitt þegar hún birtist og á eftir að vísa í hana þótt síðar verði - sjá hér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.5.2009 kl. 12:26

10 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Prófaði þetta og fékk eins og þú:

ruv.is - Ríkisútvarpið vefur

Á bilinu 15 til 20 aðilar hafa sýnt því áhuga að kaupa hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja. Formlegt söluferli á hlutnum fer af stað í næstu ...
https://ruv.is/index.jsp?dom=2527148&branch=2773332&setQStr=1

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 18.5.2009 kl. 14:07

11 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Það er eitt ef "25% af olíusvæðum eru fyrir norðan Ísland", allt annað ef þessi 25% eru á heimskautasvæðum.

******Nú vantar mig stórann broskall!******

Ólafur Þórðarson, 18.5.2009 kl. 14:14

12 identicon

Það er aldeilis að einangrunarsinnar eru farnir að spinna, búnir að draga 25% af olíubirgðum heimsins inn í íslenska lögsögu og farnir að týna og finna aftur fréttir.  Er þetta ekki fulllangt gengið í  paranojunni "samsæri á hverju götuhorni"....

Sævar (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 19:40

13 Smámynd: Þorsteinn Helgi Steinarsson

Takk fyrir þetta innlegg Sævar og að lesa bloggið mitt. Ég ætla að svara þér lið fyrir lið. 

1) Norðmenn kíktu í pakkann og líkaði ekki innihaldið og felldu inngöngu... Hvað er að því að við gerum slíkt hið sama?

Samningsstaða þjóðarinnar er slæm. Hún er önnum kafin við að komast á lappirnar eftir gífurlegt efnahagsáfall. Embættismannakerfið er önnum kafið. Landið er með slæma ímynd. ESB hefur nýlega sameinað krafta sína gegn Íslandi. Umsókn kostar tíma, orku og peninga. Þess vegna ætti slík umsókn einungis að koma þegar við erum búin að ná okkur á strik og leggja niður fyrir okkur kosti og galla. Umsókn er með öðrum orðum ekki tímabær núna. Við ættum að einhenda okkur í að vinna okkur upp úr vandanum og ræða kosti og galla umsóknar. Eins og staðan er núna eru einu rökin sem færð eru fram að við þurfum að taka upp Evru. Eins og þú veist þá tekur það mörg ár að ná því marki, þótt við gætum e.t.v. náð að binda okkar krónu einhvern vegin við Evruna líkt og Litháen. Eins og staðan þar og víðar (t.d. á Írlandi) sýnir þá er slík binding alls ekki endilega af hinu góða. Umræða um krónuna þarf að fara fram og vera víðsýnni áður en menn draga ályktanir. Núna einkennist umræðan um krónuna fyrst og fremst af sleggjudómum. Umsókn núna er í besta falli ekki tímabær. Þeir sem hafa kynnt sér ESB og þróun þess í átt að Bandaríkjum Evrópu ættu að vita hvað aðild felur í sér. Ísland er staðsett á jaðri sambandsins í þriggja klukkustunda flugfjarlægt frá því. Staða Íslands yrði í besta falli eins og Alaska eða Hawai í Bandaríkjunum. Menningarsnautt auðlinda og ferðamannland.

2) Sami málflutningur og þú ert að halda fram var hafður uppi þegar tekist var á um EES missir á sjálfstæði og svo framvegis.  Svo les maður núna blogg frá mönnum sem tala um Kanada dollar og fara í ríkjasamband við þá!!!

Ég vil ekki fara úr EES, en ég verð að benda á að stór hluti af vanda okkar er einmitt vegna EES. Þar er ég að tala um 1) tilskipun um að taka upp IFRS sem eru að mínu mati stórgallaðir reikniskilastaðlar sem ýta undir rangt verðmat á fyrirtæjum með reglum um gangvirði (fair value), viðskiptavild og hlutdeildarhagnað. Allt reglur sem hægt er misnota eins og dæmin sanna. Einnig 2) reglur um fjórfrelsið svokallaða og þá sérstaklega reglur um frjáls flæði fjármagns sbr. IceSave og útrás bankanna. Þetta er jákvæð hugsun að mínu mati, en reglugerðin meingölluð þar sem talað er um einn innri markað en ábyrgðin er á hverju landi fyrir sig. Sem sagt sameiginlegt frelsi en einkaábyrgð. Við súpum núna seyðið af þeim galla. 3) EES opnaði fyrir ýmsar gáttir og fjölgaði möguleikum Íslendinga í Evrópu og Evrópubúa á Íslandi. Þessum nýju möguleikum fylgdi aukinn óstöðuleiki eða áhætta sem Íslendingar eru fyrst núna að átta sig á. Við erum ennþá að læra þar, en augljóst er að við verðum að styrkja okkar stjórnkerfi til að höndla þessu auknu áhættu á mörgum sviðum. Það á við um Seðlabanka, FME, efnahagsbrotadeildir, útlendingamál, lögreglu og jafnvel fleiri.

Ég hef heyrt talað um ríkjasamband við Evrópu, Kanada, Banaríkin, Noreg og að við hefðum aldrei átt að slíta sambandinu við Danmörku. Allt sama firran. Íslendingar sem þjóð hafa staðið sig einstaklega vel á alla mælikvarða frá því að við hlutum sjálfstæði þótt blási kröftuglega á móti núna eins og reyndar um allan heim. Við höfum náð þessum árangri þrátt fyrir krónu og okkar umdeildu stjórnmálamenn. Málið er að grasið er ekki endilega grænna hinu megin við lækinn.
3) Utanríkisviðskipti okkar eru að 70% við Evru lönd það HLÝTUR að ráða okkar hagsmunum.

Auðvitað eru okkar viðskiptahagsmunir að mestu fólgnir í viðskiptum við Evrópu. Hlutur Evrópu hefur verið að aukast, sem þýðir að við höfum vanrækt önnur markaðssvæði, m.a. vegna lágs gengis á dollar og almennt slæms efnahagsástands í Rússlandi undanfarin ár. En þótt við eigum í miklum og góðum viðskiptum við Evrópu er ekki þar með sagt að við eigum að ganga í ríkjasamband við þau. Þar er firran. Við eigum að rækta okkar viðskiptasambönd við sem flesta en ekki læsa okkur í viðskiptasamband við fá þótt stórir séu.

4) Ég sakna þess að ekki sé búið að birta hvað það gefur okkur í auknar tekjur að fá tollalausan aðgang að okkar mörkuðum í Evrulöndum og svo í framhaldinu batann sem að auki fylgdi að gjaldeyrisáhættan af þessum 70% af okkar viðskiptum hyrfi eins og dögg fyrir sól með upptöku Evru.  Einnig hver fjáhagslegur ávinningur fjölskyldna í landinu yrði við að fá eðlileg fjáhagsleg skilyrði.

Þarna tek ég undir með þér. Þessi mál eru engan vegin útrædd. Taka verður saman yfirlit yfir kosti og galla, t.d. við að henda krónunni. Menn segja að það hefðu verið minni líkur á því að við lentum í þessum vanda ef við hefðum haft Evru. Á móti kemur að menn segja líka að það kann að vera auðveldara að vinna sig út úr þessu með krónu.  Hvort tveggja röksemdir sem eru gagnrýndar. T.d. er líklegt að bankarnir hefðu farið í enn hraðari útrás og skellurinn því orðið enn meiri ef við hefðum haft Evru. Einnig er bent á að innan Evrusvæðis er vaxtamunur. T.d. borga Grikkir hærri vexti en Þjóðverjar. Nú er bent á að óstöðugleiki krónunnar hamli endurreisn. Þetta er mjög flókin umræða og verður ekki leyst nema með mikilli yfirlegu færustu manna. Ég vil bara benda á að í grunninn er það eitt sem skiptir máli hversu vel efnahagslífið stendur sig. Það ræður vaxtastiginu, hagvexti og hagsæld þjóðarinnar. Gjaldmiðillinn er bara verkfæri og árinni kennir illur ræðari.

Ég hef ýmislegt fleira að segja um krónuna en það verður að bíða betri tíma. Vil þó segja hér að hún er slæm vegna hárra vaxta og óstöðugleika. Einnig er hún tímabundið slæm vegna ótrúverðugleika og gjaldeyrishafta. Hún er góð vegna þess frelsis sem hún gefur okkur til að aðlaga hagkerfið að áföllum í þjóðabúskapnum. Frelsið er mjög mikill kostur þótt vissulega þurfi að umgangast það frelsi eins og annað af fullri ábyrgð og varfærni. Við eigum heilmikið ólært þar. Það er vandamál að mínu mati að íslenskar fræðastofnanir hafa ekki unnið gagnrýnar úttektir á því hvernig erlend hagfræðilíkön passa og passa ekki í smáu sveiflukenndu hagkerfi eins og á Íslandi.

5) Þessi mál hljóta að vera þau sem skipta máli ekki olíufundir á Norðurpólnum eins og þú fleiri eru að draga inn í umræðuna hér í öðru bloggi á síðunni hjá þér þar sem mér finnst harla ólíklegt að við fáum nokkru þar um ráðið  öðru en því sem bókstaflega er inn í okkar  landhelgi. Þeir sem munu hirða það eru stóru strákarnir í bekknum...
Mér er ekkert sérstaklega umhugað um þessa olíu. Veit að Össur og Samfylkingin leggja áherslu á hana, en fyrir mér er hún inni í framtíðinni og verður gott að nýta þegar þar að kemur hvenær sem það verður. Það er langt frá því gefið að hún verði hagkvæm í vinnslu. Þetta er bara auðlind sem huga þarf að og ganga skynsamlega um en varlegt er að byggja alla sína drauma á henni. Það er um að gera að nýta þessa auðlind í þágu þjóðarinnar ef unnt er. Ekki í þágu stóru strákanna hvort sem þeir eiga íslenskt vegabréf eða erlent.
 Að lokum. Ertu sá Sævar sem ég tel þig vera?

Þorsteinn Helgi Steinarsson, 19.5.2009 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband