Neysluvísitalan en ekki verðtryggingin er vandamálið

Mönnum svíður eðlilega undan hækkunum lána útaf verðtryggingunni og vilja því afnema verðtrygginguna. En verðtryggingin sem slík er ekki vandamálið, heldur það að miðað skuli við neysluvísitölu. Neysluvísitalan sveiflast ekki eins og fasteignavísitalan. Sjá m.a. eldra blogg um þetta:

http://thorsteinnhelgi.blog.is/blog/thorsteinnhelgi/entry/841661/ 

Fasteignavísitalan hefur hækkað mun meira en neysluvísitalan frá 1. janúar 2002 sbr. meðfylgjandi mynd. Lán tryggð með fasteignavísitölu hefðu því hækkað mun meira. Það er auðvitað ekki það sem þörf er á einmitt núna.

Fasteignavísitala deilt með neysluvísitölu

Ef fasteignavísitala hefði hins vegar verið notuð til að verðtryggja lán til húsnæðiskaupa, þá hefði hún slegið á innistæðulausar hækkanirnar á sínum tíma. Hún myndi dempa sveiflurnar. Vísitalan hefði sem sagt ekki hækkað eins mikið og raunin varð. Notkun fasteignavísitölu myndi slá verulega á þenslu og stuðla að jafnara fasteignaverði.

Síðan í október 2007 hefur fasteignavísitalan (Fv) lækkað töluvert og er sá þáttur neysluvísitölu (Nv) sem er að lækka hana núna í mars frá fyrri mánuði. Ef frá er talinn ógurleg hækkun Fv í kringum áramótin 2004/2005, þá er munurinn á vísitölunum ekki mikill sbr. mynd.

Fasteignavísitala og neysluvísitala

Ég legg til að við breytum lögum um verðtryggingu þannig að hún miði við fasteignavísitölu í fasteignalánum og að við skiptum hækkuninni um áramótin 2004/2005 jafnt milli lántakenda og lánveitenda en það gerum við með því að miða við janúar 2005. 

Það væri réttara og þá væri vísitalan svipuð (reyndar aðeins hærri núna 143,3 Fv móti 140,7 Nv) en lækkun Fv sem er að eiga sér stað myndi að fullu virka til lækkunar lána næstu mánuði með verðtryggingunni.

Ef miðað væri við t.d. febrúar 2005 í stað janúar þá væri Fv þegar orðin lægri en Nv (Fv 136,5 og Nv 140,4).


mbl.is Verðtryggingin burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll A. Þorgeirsson

"Sjálfvirk" hækkun verðtryggðu krónunnar gengur ekki sama hvaða vísitölur er átt við.  Ef menn halda öðru fram þá hljóta þeir einnig að viðurkenna "sjálfvirka" hækkun launa samkvæmt vísitölu.  Það þótti nú óráð hér á árum áður, enda afnumið.  Þar voru þau rök mikið notuð að ef kaffiverðið í Brasilíu hækkaði þá átti launamaðurinn með sitt launaumslag ekki rétt á hækkun til að komast af en ef þú varst svo lánsamur að geta nurlað saman "sparnaðarkrónum" fékkst þú kaffihækkunina bætta.  Skrítin rök.  Raunveruleg verðmætasköpun í þjóðfélaginu er undirstaða þess að við getum fengið fleiri krónur í launaumslagið og það sama á að gilda um sparnaðinn.  Fleiri krónur í launaumslagið sem skapast af raunverulegum verðmætum gera þeim sem spara vilja mögulegt að leggja fleiri krónur í bankann með vaxta% umfram verðbólgu.  Það á ekki að vera nokkur munur á "krónunni í launaumslaginu" og "sparnaðarkrónunni" nema einhver vaxta% sem er eitthvað umfram verðbólgu og þá getur vísitalan verið ákveðin viðmiðun en ekki bein tenging það er bara prentun verðlausra peninga.  Við þurfum að takast á við verðbólgu á vitrænni hátt en við gerum í dag og þá getum við aukið sparnað sem raunveruleg verðmæti eru á bakvið en því miður tel ég það vart mögulegt með "íslenska krónu" sem gjaldmiðil.  Hversu mikils virði er íslenska krónan á erlendri grund og þá er ég bara að tala um þessa "venjulegu" ekki þá "verðtryggðu", segir það ekki flest sem segja þarf.    Ég hef alla tíð talið verðtryggingu óráð og þó svo ég hafi ekki þann orðaforða eða textasnilli sem fræðingarnir hafa til að koma þessum skoðunum mínum nægilega vel á framfæri, þá segir staða þjóðfélagsins sannleikann og þarf ekki fræðinga til   og því síður mig.  AFNEMUM VERÐTRYGGINGU STRAX við höfum ekki efni á þessum "flottræfilshætti" lengur nema við viljum "þurrka út fjölskyldur". 

Páll A. Þorgeirsson, 2.4.2009 kl. 13:07

2 identicon

Ég hef alla tíð verið hlynntur verðtryggingu. Þeir sem ekki vilja verðtryggingu eru þeir sem vilja fá gefins peninga frá þeim sem eru að reyna að spara.

Mínum sparimerkjum, 15% af mínum launum til margra ára var stolið af þeim sem fengu óverðtryggð lán á sjöunda og áttunda áratugnum.

Óverðtryggð lán eru ekkert annað en löggiltur þjófnaður!

Jón Bragi (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband