Verðbólur sem springa og sértæk verðtrygging

Fractional Reserve Banking hefur skilað ótrúlegum framförum og uppgangi á heimsvísu. Það er auðséð að FractionalRB hefur gífurlega kosti í för með sér þegar kemur að uppbyggingu auðs og velmegunar. Það er líka auðséð út frá endurteknum fjármálakreppum og þá sérstaklega stóru kreppunni og núverandi kreppu að kerfið er viðkvæmt (FragileRB).

Það sem einkennir áföllin eru verðbólur sem springa.

Veikleikar kerfisins liggja sem sagt í því að óraunhæft hátt verð myndast á einhverju sviði sem er svo stórt að þegar bólan springur þá er hætta á að kerfið falli allt í einu.

Vandinn er tvíþættur. Annars vegar þarf að koma í veg fyrir að ofmat eigna í stórum stíl. Hins vegar þurfa að vera til aðferðir til að höndla það þegar verðbólga springur, þ.e.a.s. draga úr skaðanum og koma í veg fyrir að hann breiðist út á önnur svið.

Það er athyglivert að verðbólurnar sem myndast eru alltaf verðbólur á markaði. þ.e.a.s. verð hækkar og hækkar á hlutabréfamarkaði, fasteignamarkaði, túlípanamarkaði, fiskveiðikvótamarkaði eða einhverjum öðrum markaði þar sem verðmat miðast við síðasta skráða söluverð(þegar salan er milli óskyldra aðila).

Þegar verðið hækkar á þessum markaði þá myndast eiginfjárstofn sem hægt er að lána fé út á (skuldsetja sig). Þar með eru prentaðir peningar og til verður skuld. Peningarnir sem eru prentaðir eru m.a. notaðir til að auka við og hraða verðhækkunum á viðkomandi markaði. Þegar bólan springur þá hverfur eignin en skuldin ekki. Því fylgir gjaldþrot, skuldakreppa, atvinnuleysi, örbyrgð og örvænting.

Þessir markaðir eru því miður gallaðir, þ.e.a.s. langt frá því að vera fullkomnir (eins og oft er gengið út frá í hagfræðilíkönum) og því miður þá er auðvelt að svindla á þeim (stjórna verðmyndun).

Til að taka á þessu þarf að búa til reglun í kerfið sem hamlar því að þessar verðbólur myndist og dempar skaðann þegar verðið lækkar. Þetta er vel þekkt  verkfræðilegt úrlausnarefni. Búa þarf til svokallaða neikvæða svörun og það er frekar auðvelt. Neikvæð svörun hamlar breytingum, þ.e.a.s. dregur úr sveiflum hvort heldur sem þær eru upp eða niður.

Lausnin er sértæk verðtrygging sem virkar þannig að þegar lán er veitt til fjárfestinga á ákveðnu sviði þá eru kjörin á láninu þannig að notuð er sértæk verðtrygging plús vaxtaálag. Verðtryggingin er sértæk þannig að hún miðar við vísitölu meðalverðs þess sem fjárfest er í. Hún er sértæk miðað við ákveðin fjárfestingarmarkað. Þannig myndi verðbólga á hlutabréfamarkaði hækka raunvexti fjárfesta á þeim markaði og þar með hamla frekari fjárfestingu og þar með verðbólgu á viðkomandi markaði. Verðbólga á fasteignamarkaði myndi hækka lán til fasteigna og þar með hamla verðbólgu á fasteignamarkaði. Verðfall á hlutabréfamarkaði myndi lækka raunvexti hlutabréfalána og því stuðla að frekari fjárfestingu á viðkomandi markaði og þar með hamla verðfalli. Verðfall á fasteignamarkaði myndi virka eins til jöfnunar á sveiflum.

Vandamálið er að ekki er almennt notuð verðtygging alþjóðlega séð og þar sem hún er notuð eins og t.d. á Íslandi þá er hún ekki sértæk heldur er miðað við neysluvísitölu sem er algjörlega geggjað því sú vísitala er allt eins líkleg til að gefa jákvæða svörun en ekki neikvæða. M.ö.o. þá er verðtrygging með almennri vísitölu eins og neysluvísitölu allt eins líkleg til að magna verðbólur og skuldakreppur. Dæmi um þetta sáum við á Íslandi þar sem verðbólgan á hlutabréfamarkaði, fasteignamarkaði og kvótamarkaði var gífurleg samtímis því sem verðbólga í neysluvísitöku var með því lægsta sem við höfum lengi séð. Einnig núna að meðan verðbólgan í neysluvísitölu er há á sama tíma og verðhrun á sér stað á téðum mörkuðum.

Verðtryggingin eins og hún er útfærð hér á Íslandi með neysluvísitölu gerir því illt verra því hún gerir kerfið óstöðugra en ekki stöðugra.

Þetta er sorgleg staðreynd og blasir við þeim sem vilja sjá. Ástæðan fyrir því að kreppan varð dýpri hér en annars staðar (og uppsveiflan meiri) er vitlaus útfærsla á verðtryggingunni. Ástæðan er ekki verri stjórnmálamenn, verri stjórnsýsla eða gráðugri bankamenn en annars staðar (þótt þetta séu allt dæmi um böl sem þarf að bæta). Ekki heldur litla krónan okkar þótt allt þetta og sé m.a. ástæðan fyrir vitlausu verðtryggingunni. Önnur lönd hafa lélega stjórnmálamenn, lélega stjórnsýslu og gráðuga bankamenn. Stórir gjaldmiðlar hafa orðið óðaverðbólgu að bráð eins og smáir. Kreppan mikla og líka sú sem nú er átti upptök sín í Bandaríkjunum, ekki Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Sæll, þakkir fyrir innkomuna til mín. Þetta er vandi sem hagstýrendur hefðu átt að sjá, en mín skoðun er að núverandi vanda sé að rekja aftur til dot.com bólunnar, en síðan þá hafa peningar samfellt verið mjög ódýrir þ.e. stýrivextir samfellt mjög lágir í Bandar.

Þegar þeir eru mjög lágir eða jafnvel núll, þá fyrsta lagi verða lán mjög ódýr sem hvetur til skuldsetningar þvert yfir atvinnulífið en einnig hjá almenningi.

Það veldur aukinni eftirspurn, sem hækkar verð sbr. húsnæðisverð. En einnig öll verð, þ.e. eftispurnar aukning verður einnig eftir munaðar- og neysluvörum.

Smám saman myndaðist ein samfelld húsnæðisbóla í Evrópu og Bandar. - án undantekninga í öllum ríkjum N-Ameríku og Evrópu. Misslæm eftir löndum þó.

Einnig myndaðist eftirspurnarbóla sem keypt var af miklu leiti með neyslulánum, sem skilur almenning eftir skuldugann ekki bara á Íslandi heldur einnig fj. annarra ríkja með fáum undantekningum.

Þ.s. hefði átt að gera, var að heimila sæmilega djúpa kreppu á 10. áratugnum. Þar liggja mistökin, sem leiddu til vandræðanna í dag.

Hluti vandans er sá, að fjölmargir hafa náð gríðarlegu ríkidæmi út úr þessu, en ef undið er ofan af bólunni alla leið, þá er erftitt að sjá annað en að öll bankakerfin bæði í Evrópu og á Íslandi séu gjaldþrota - og þá ættu eignir þeirra ofsaríku einst. sem eiga gríðarlegar peningalegar eignir einnig að hverfa eða minnka mjög mikið í umfangi.

Skuldir og eignir haldast í hendur, svo ef eignir verða verðlitlar verða skuldir einnig að verðfalla. 

---------------------------

Það má vera, að stærstu gjaldþrotahrynu heimssögunnar verði ekki forðað þ.s. bankakerfi Vesturheims hrynja til grunna ásamt því að skuldir og eignir á sama tíma skreppi mjög saman í verðgildi.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 19.9.2010 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband