Arfleifð konungsveldisins

Mörg nágrannalönd okkar eru konungsveldi og önnur (þar á meðal við) fyrrverandi konungsveldi (eða keisaraveldi eins og Þýskaland). Þegar konungsveldið (þar sem titillinn gengur í erfðir) var lagt niður var tekin upp ný staða eins konar plat-kóngs og kallað forseti þar sem titillinn er unninn í kosningum.

Embættið (valdalauss kóngs og plat-kóngs) er fyrst og fremst táknrænt í þessum löndum. Sameiningartákn og hafið yfir dægurþras (á að vera það í þingræðinu).

Breytingin úr einræði kónga í valdalausa kónga og svo valdalausa forseta hefur verið hægfara og að mestu friðsamleg.

Önnur ríki fóru í gegnum gagngera byltingu og endurskipulagningu á stjórnkerfinu byggða á nýjum hugmyndum um þrískiptingu valdsins og greiningu á því hvernig stjórnkerfi landa væri best fyrir komið. Bandaríkin og Frakkland eru dæmi um slík ríki. Þar er forsetinn ekki valdalaus plat-kóngur eins og á Íslandi heldur alvöru valdamaður (eins og kóngar áður) sem er kosinn beint af almenningi til að mynda ríkisstjórn.

Segja má að vegna þess að breytingin var friðsamleg sums staðar þá hafi menn aldrei komist alla leið í þróun þrískiptingar valdsins og orðið fastir með plat-kónginn. Þetta virkaði sæmilega og jafnvel bara vel á stundum í því umhverfi þar sem breytingar voru litlar og ekki þörf á því að 'hreinsa til' eða stokka upp þjóðfélagið.

Kosningakerfið hér er óskilvirkt í því að ná fram breytingum í ríkisstjórn. Ríkisstjórnir (eða bæjarstjórnir) geta verið myndaðar á skjön við niðurstöðu kosninga og vilja almennings (sbr. t.d. eins og núna í Hafnarfirði) eða komið einhverjum aðila í valdastöðu sem ekki var fyrsta val kjósenda (eins og núna í Reykjavík). Íslendingar kjósa sér ekki ríkisstjórnir, ekki frekar en konungsríkin á Norðurlöndum.

Þegar svona stór áföll dynja yfir eins og á Íslandi þá verða gallar 'mjúka' kerfisins okkar öllum ljósir. Mjög erfitt er að ná fram breytingum á ríkisstjórn. Þetta stuðlar að stöðugleika í stjórn ríkisins sem er alla jafna jákvætt, en hindrar að unnt sé á skilvirkan máta að bregðast við breyttum aðstæðum með breyttri ríkisstjórn. Bandaríkjamenn kjósa sér forseta beint (reyndar með flóknu kjörmannafyrirkomulagi) og leyfa ekki að skipt sé um á miðju kjörtímabili. Þannig tryggja þeir nauðsynlegan stöðugleika. Þeir leyfa ekki heldur að kjörinn forseti sitji lengur en tvö tímabil. Í Bandaríkjunum er líka meðvitað innbyggt í stjórnkerfið svokallað "eftirlit og jafnræði" (e: check and balance) til að koma í veg fyrir að einhver hinna þriggja stoða þrívaldsins verði of öflugar á kostnað hinna.

Bein kosning framkvæmdavaldsins er eðlileg krafa og líka mun heilbrigðari niðurstaða á fyrirkomulagi þrískiptingar valdsins heldur en núverandi plat-kónga arfleifð.

Að búa til valdalaust skrautembætti plat-kóngs var metnaðarlaus afritunarstarfsemi ungs lýðveldis á dönskum lögum þar sem enginn virtist hafa tök á að hugsa út fyrir ramma konungsveldisins eða menn voru einfaldlega að flýta sér um of.

( P.S. Þó var skárra að hafa valdalausan forseta (plat-kóng) en að búa til nýja konungsætt með því að flytja inn erlendan aðalsmann og gera hann að kóngi eins og nágrannar okkar í austri gerðu.)

Ég tek undir með Ágústi varðandi beina kosningu framkvæmdavalds. Einnig mætti skoða að aðskilja kosningu bæjarstjóra og bæjarfulltrúa.


mbl.is Gagnrýndi stjórnvöld harðlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill. Ég tek undir allt sem í honum segir.

Ég held að menn hafi haft nokkurn metnað fyrir því á sínum tíma að gera nokkuð róttækar breytingar á stjórnarfarinu frá því sem stjórnarfari sem erfðist frá Danmörku. Lýðveldisstofnunin kom bara til í svo miklum flýti að það var byrjað á því að setja til bráðabirgða stjórnarskrá sem breytti engu nema kónginum í forseta. 66 árum síðar erum við ennþá að bíða með heildarendurskoðun stjórnarskrár sem hugsuð var sem bráðabirgðalausn.

Bjarki (IP-tala skráð) 5.6.2010 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband